27.07.1914
Neðri deild: 22. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

47. mál, umboðsstjórn Íslands

Jón Jónsson:

Ég er þakklátur háttv. minni hl. nefndarinnar fyrir það, að hann hefir lagt það til, að þetta frv., sem nú liggur fyrir, verði samþ. óbreytt. Mér fellur það illa, að ekki hefir getað orðið samkomulag í nefndinni, þar sem það þó hefir komið fram, bæði í nefndarálitunum og nú við umræðurnar, að allir eru samdóma um það, að eftirlaun ráðherra beri að afnema. Eg get ekki neitað því, að mér virðist talsverð hálfvelgja eða bræðingsbragð að till. háttv. meiri hl. í þessu efni. Eg get ekki betur séð, en ráðherra verði jafnilla settur þótt hann hafi eftirlaun í 2 ár, eins og þótt þau verði afnumin með öllu. En þessi tillaga háttv. meiri hl. getur líka haft áhrif í aðra átt. Það hefir oft verið talað um, að nauðsynlegt væri að fjölga ráðherrum. Og eg teldi það betur farið, að svo yrði. Stjórn landsins myndi þá fara betur úr hendi og mál myndi verða betur undirbúin en nú á sér stað. En þjóðin hefir verið þessari fjölgun mótfallin af ótta við það, að eftirlaunabyrðin yrði þá altof þung. Eg er í engum vafa um það, að þessi breyting geti gengið greiðlega, undir eina og búið er að afnema eftirlaun ráðherra. Nú gæti eg trúað því, að yrði þessi brt. háttv. meiri hl. samþykt, þá gæti það orðið þrándur í götu þessarar ráðherrafjölgunar. Það má vera, að það sé af röngum skilningi manna, en því er nú einu sinni svo farið, að menn sjá í skildinginn og gæti því orðið nokkur töf á þessari breytingu, sem eg tel bráðnauðsynlega, ef brt. meiri hl. verður samþykt.

Það hefir líka vakað fyrir flutningsmönnum þessa frv., að fá öll eftirlaun afnumin yfir höfuð. Það gæti þá. verið sigurvænlegt þeirri stefnu að byrja á eftirlaunum ráðherra. — Hin fengist þá frekar afnumin á eftir.

Viðvíkjandi þeirri athugasemd, hvort ráðherra sé beittur órétti með þessu frv. eða ekki, þá skal eg geta þess, að ráðherra er svo hátt settur maður, að hann hefir á eftir greiðan aðgang að góðum embættum, hafi hann verið embættismaður; þarf hann því einskis í að missa. Hafi hann ekki verið embættismaður áður, þá hlýtur hann samt að eiga svo mikið undir sér, að honum sé trygt að geta lifað góðu lifi á eftir. Hann er heldur alls ekki neyddur til sé hann t. d. kaupmaður — að selja verzlun sína. Honum ætti ekki að vera neinn hörgull á því, að fá góðan mann til að veita henni forstöðu meðan hann gegndi embættinu. Og svo mun vera um flestar aðrar stöður, sem hann neyddist til að sleppa að sinni. Mér virðist því þessi tillaga hv. meiri hluta ekki eingöngu vera óþörf, heldur til ills eins. Hún gæti orðið hvatning fyrir ráðherra til þess að hafast ekki að, þar sem þeir gæti alt af lifað góðu lífi á eftirlaunum sínum meðan þeir hafa rétt til þeirra.

Þá skal eg drepa lítið eitt á þriðju brtill. hv. meiri hluta. Mér finst það allóviðfeldið og alls eigi eiga við, að ætla að skylda ráðherra til þess að setjast í eitthvert embætti þegar hann sleppir ráðherrastörfum. Vér verðum að ætla, að ráðherrar verði þeir einir menn, sem ósæmilegt væri að setja slíkar reglur í lögum. Annað mál væri það, að flokkar þeir, sem hann styddi til valda, setti honum einhver slík skilyrði, en í lögunum sjálfum á svona ákvæði ekki heima.

Satt að segja virðist mér tillögur hv. meiri hluta miða að því að skapa glundroða í þessu máli og geta gert það að verkum, að frumv. fari út úr deildinni sem veruleg ómynd. Vér verðum líka, ef hugur fylgir máli, að reyna að sjá málinu farborða gegnum alt þingið, en ekki að eina þessa deild. En verði tillögur háttv. meiri hl. samþyktar, þá álít eg mjög tvísýnt um, að svo fari.

Eg vænti því, að háttv. deild sjái svo sóma sinn, að hún samþykki þetta frumvarp óbreytt.