24.07.1914
Neðri deild: 20. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

55. mál, vörutollur

Framsögum. (Björn Kristjánsson):

Eins og nefndarálitið á þskj. 166 ber með sér, leggur nefndin til að samþykkja frumv. með nokkrum breytingum. Skal eg nú gera nokkra grein fyrir þeim í sambandi við vörutollslögin frá 1912 og 1913.

Í samanburði við lögin frá 1913 er þá fyrsta breytingin sú, eftir þessu frumv. og breyt.till. á þskj. 166, að bætt er inn í 1. lið 1. gr. laganna frá 1912 (ódýrasta tollflokkinn) þessum vörum : Sóda, krít, eldföstum leir, karbid, benzíni, þakhellum og tómum flöskum.

Önnur breytingin er sú, að undir 2. lið 1. gr. kemur nú fyrst og fremst það, sem talið er upp í 4. gr. frumv.: Olíufóðurkökur, melasse og melassemjöl o. s. frv., og svo auk þess nokkrar vörutegundir, sem nefndin hefir komið sér saman um (þgskj. 166, breyt.till. 2), og staðið höfðu í lögunum frá 1913. Þetta er lagt til að fært verði í 25 aura flokkinn (af hverjum 100 pd.), og nenni eg ekki að telja það alt upp.

Þriðja breytingin er sú, að undir 5. lið 1. gr. (tollur 3 aurar af teningsfeti) eru fluttir bátar þeir, sem nú eru tollskyldir.

Fjórða aðalbreytingin er, að undir tollfrjálsar vörur í 6. lið 1. gr. bætist: pappír, tilbúin áburðarefni, steinlímspípur, leirpípur og sandur.

Loks er 5. breytingin, að gjald af póstböglum skuli tvöfaldast.

En sé nú borið saman við lögin frá 1913, þá er 1. breytingin sú, að orðið »Skifer« fellur burt, því að þakhellur geta verið af fleira tagi, bæði úr leir og cementi. 2. breyting, að í stað orðanna »alls konar skepnufóður« kemur upptalning á ákveðnum fóðurtegundum. 3. Segldúk er slept, eins og 1912, og hann látinn teljast með annari vefnaðarvöru. Sama er að segja um seglgarn og striga, og liggur það í því, að þessar vörur verði sjaldan greindar frá öðrum. 4. Ullarsekkir eru nú nefndir tómir pokar. 5. Fléttuvoðum og »mottum« er slept. 6. Strigaábreiðum líka. Svo er orðinu »vélaáburður« breytt í ákveðna tegund, sem getur heyrt undir vissan flokk. Eftir því getur lögreglustjóri innheimt tollinn, en alls ekki eftir nú gildandi lögum. Þá er slept úr lögunum að tilgreina kork og fiskinet. Bæði er nú að mestu hætt að flytja þessar vörutegundir inn og í öðru lagi er nú að mestu hætt að nota kork, heldur nota menn nú netakúlur. Þá eru netakúlur færðar í 1. flokk laganna, og kemur það af því, að þær eru mjög verðlitlar, en aftur þarf að greiða af þeim mikið burðargjald.

Þá er felt burtu ljáblöð, spengur og rær, því að áður gat lögreglustjóri ekki áttað sig á, hvernig tollurinn af þessu yrði fenginn, því að þessi nöfn standa ekki á neinum farmskrám. Þá eru «járnbitar til húsagerðar«, gerðir að »járnbitum«, þá er hægt að átta sig á því. Áður gat enginn vitað til hvers járnbitarnir ætti að vera, og því ekki hvaða toll af þeim skyldi greiða.

Sú breyting, að greiða skuli toll af 5 kgr. minst, í stað 10 áður, finst mér vera mjög smávægileg. Hún er að eins gerð til þess að færa vörusendingar í samræmi við póstsendingar. Loks skal þess getið, að vér höfum breytt, með því að setja orðið »sandur« inn, í stað sandur til járnsteypu. Sömuleiðis er, samkv. þessum breytingum ekki ætlast til að greiddur verði tollur af heyi, en hann hefir verið greiddur áður.

Þá skal þess loks getið, að vér höfum bætt inn í nýrri gr., sem þá verður 4. gr., um það, að lög þessi skuli öðlast gildi 1. jan. 1915.

Þetta er þá í stuttu máli gerð grein fyrir helztu breytingum, sem þetta frv. hefir í för með sér.

Eg skal geta þess, að eg hefi fallist á sumt af því, sem nefndin leggur til, einungis af því, að eg vildi vinna að samkomulagi í nefndinni, en ekki af því, að eg væri því fyllilega samþykkur. Eg vildi taka tillit til svo margs, og hafði því flokkað vörurnar eftir verðmæti o. fl., en sumt af því var ekki tekið til greina í nefndinni. Einn háttv. samnefndarmaður minn skrifar undir með fyrirvara., og mun hann að sjálfsögðu gera grein fyrir því, í hverju hann greinir á við nefndina. En yfirleitt held eg að nefndin hafi verið sammála um, að leggja til að lögunum yrði breytt.

Eg vona að þetta frv. verði samþykt með br.till. vorum, því að eg skil ekki í því, að lögreglustjórum verði þá vandræði úr því að innheimta tollinn, og viss er eg um það, að allar breytingarnar eru til bóta.