24.07.1914
Neðri deild: 20. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

55. mál, vörutollur

Magnús Kristjánsson :

Eg gat þess, þegar þetta mál kom til 1. umr. hér í deildinni, að eg teldi það ekki miða til bóta að samþykkja þetta frv., og er eg á sömu skoðun enn.

Árið 1912 var tekið það óyndisúrræði að samþykkja þessi vörutollslög, til þess að reyna eitthvað að bæta í það skarð, sem varð í tekjur landsins þegar aðflutningsbannslögin gengu í gildi. Eg skal ekki fara út í réttmæti bannlaganna, en að eins geta þess, að vínfangatollurinn var að miklu leyti goldinn af útlendingum, og það með þeirra frjálsum vilja. Afleiðingin af bannlögunum varð svo, að vér fengum þessi lög.

Eg þykist mega fullyrða það, að þegar á þinginu 1912 hafi mörgum þingmönnum verið það ljóst, að þessi lög vóru þannig í garðinn búin, að ekki yrði við þau unað til langframa. Það kom líka fram þegar á 1. ári, að margir vóru mjög óánægðir með þau, og heyrðust víða að kvartanir yfir þeim, og fjöldamargar fyrirspurnir komu til stjórnarráðsins um það, hvernig ætti að skilja þau í ýmsum greinum. Þetta var ekki nema eðlilegt, þegar á það er litið, hve lítill undirbúningur var við þau hafður. Á þinginu 1912 var mikið deilt um það, hvort þessi lög ætti að ganga fram eða ekki. Margar tillögur komu fram um það, hvernig ætti að fara að því að auka tekjur landssjóðs, og var mjög mikið um þær rætt. Þessi till. var svo samþykt undir þinglok, mest vegna tímaleysis, því að alt var komið í óvænt efni um það, að einhver lög yrði samþykt til þess að auka tekjur landssjóðsins. Menn geta af þessu séð, að það var ekki nein furða þótt misfellurnar kæmi fljótt í ljós, enda beið það ekki lengi.

Síðasta þing, 1913, tók það svo til ráðs að reyna að lappa eitthvað upp á lögin, breyta þeim og bæta þau í ýmsum greinum. Var málið sett í nefnd, og ræddi hún málið á mörgum fundum og yfirvegaði það mjög nákvæmlega. Nefndin sá sér þó ekki fært að koma með eins gagngerðar breytingar á lögunum, eins og hún áleit þurfa til þess, að nokkurnvegin yrði við þau unandi, því að það er gagnslaust að vera að koma með það, sem hægt er að ganga út frá vísu, að ekki fáist samkomulag um, þótt það sé það, sem maður vildi helzt kjósa að næði fram að ganga.

Aðalstarf nefndarinnar í fyrra, gekk því í þá átt, að reyna til að bæta úr þeim aðalgalla laganna frá 1912, að ekki var tekið tillit til þess, hvort verðmæti vörunnar var mikið eða lítið. Þetta ranglæti reyndi nefndin að jafna, með því að færa. ýmsar vörutegundir, einkum nauðsynjavöru, úr krónu tolli niður í 35 aura gjald. Helzt var þetta gert við þær vörur, sem fátækt fólk þarfnast nauðsynlega, sér til framfæris, og þá jafnframt ýms nauðsynleg framleiðslutæki.

Nú virðist mér, að með þessu frv. sé verið að raska mjög því, sem nefndin í fyrra lagaði, og það verð eg að telja mjög óheppilegt. Eg hlýt því af þessum ástæðum að vera á móti því að

þetta frv. fái fram að ganga. Sérstaklega vil eg taka það fram, að eg er því mótfallinn að margar vörur eru nú færðar í hærri flokk heldur en þær vóru í áður.

Nú mætti ef til vill segja, að lítil ástæða hafi verið til fyrir mig að vinna í nefndinni í sameiningu við hina, úr því að svo mikill skoðanamunur var, sem eg hefi nú gert grein fyrir. Þetta er að nokkru leyti rétt, en þó taldi eg réttara að segja mig ekki að öllu leyti úr allri samvinnu við háttv. samnefndarmenn mína, því að eg taldi víst, að ekki myndi takast að fella frv., en hafði þó heldur tækifæri til að fá einhverju kipt í lag, ef eg vann með í nefndinni, heldur en ef eg kom þar hvergi nærri, hélt að mér myndi þá fremur takast að gera frv. þolandi.

Háttv. framsögum. hefir nú gert grein fyrir þeim helztu breytingum, sem í frv. felast. Þó vildi eg tala dálítið nánara um þær, til þess að háttv. deild glöggvi sig betur á þeim. Breytingarnar er þá þessar. Við fyrsta lið fyrstu greinar bætast netakúlur og tómar flöskur, en smjörsalt fellur burt. Þetta eru mjög smávægilegar breytingar, sem enga þýðingu hafa.

Aðalbreytingin, sem frumv. gerir er sú, að margar nauðsynjavörur eru færðar úr 25 aura tolli í krónu toll. Til þess að menn sjái, hver sanngirni er í þessu fólgin, skal eg lesa það upp, hverjar þessar vörur eru. Þær eru þessar : Segldúkur, strigi, fiskinet; korkur, ljáblöð, járnkallar, sleggjur, steðjar og vélaáburður. Það sjá allir, að þetta er alt nauðsynjavörur, og sýnist mér engin sanngirni vera í því fólgin að hækka tollinn á þeim, frá því sem síðasta þing setti hann.

Þá er önnur breytingin í því fólgin að gefa vörurum önnur heiti og sundurliða þær. Skepnufóður er t. d. sundurliðað þannig: Olíufóðurkökur, melasse, melassemjöl, kjötfóðurmjöl og fiskifóðurmjöl. Sumt af þessu finst mér að sé mjög óviðfeldin nöfn, en það út af fyrir sig hefir reyndar ekki mikla þýðingu.

Það finst mér til bóta, að inn í þennan lið er bætt gufukötlum, gufuvélum, gufuvögnum og bifreiðum. Þá er bætt við 6. lið heyi og steinlímdum pípum. Það er einnig til bóta, það sem það er, en hefir ekki mikla þýðingu.

Samkvæmt lögunum frá 1912 var ekki reiknað gjald af minni sendingum en 25 kíló. Á þinginu í fyrra var þetta svo fært niður í 10 kilo, og samkvæmt þessu frumvarpi á nú að borga toll af hverri sendingu, sem er 5 kilo að þyngd. Eg skal játa það, að þetta hefir ekki mjög mikla þýðingu, en það er þó heldur til að gera almenningi erfiðara fyrir en hitt, að vera sífelt að breyta þessum lögum.

Loks skal eg geta þess, að ætlast er til að á eftir 3. gr. laganna komi ný grein um það, að lögin skuli öðlast gildi 1. janúar 1915.

Það er nú ekki orðinn mikill tími eftir af þeim, sem ætlast var í upphafi til að lögin gilti. Ef þau yrði framlengd, þá þyrfti að taka flokkunina til rækilegrar íhugunar. Eg álít alveg rangt að binda sig við það eitt, að innheimtan verði sem léttust, heldur verður líka að taka tillit til efnahags almennings og fleira, sem eg skal ekki tala um í bráðina ef ekki verður við umræðurnar gefið tilefni til að tala um það nánara.