24.07.1914
Neðri deild: 20. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

55. mál, vörutollur

Framsögum. (Björn Kristjánsson) :

Eg get byrjað þar sem háttv. þm. Ak. (M. Kr.) endaði. Hann sagði, að ef vörutollslögin yrði framlengd, þá þyrfti að taka flokkunina til rækilegrar íhugunar, og taka tillit til margs, sem henni kemur við. Þetta er rétt. En þetta hefir alþingi ekki gert hvorki í fyrra né nú. Það sem sérstaklega þarf að leggja áherzlu á er :

að leggja tollinn á hverja vörutegund eftir þunga,

að leggja tollinn á vöruna eftir því sem hún er nefnd á farmskrá, svo innheimtan þurfi enga tollrannsókn,

að skipa vörutegundunum í flokka með tilliti til verðmætis,

að hafa tollgjaldsmuninn milli flokka svo lítinn, að eigi borgi sig að skifta um umbúðir vöru, eða að búa um vörur mismunandi flokka saman til þess að vinna á því í tollinum.

Alls þessa verður að gæta.

Eg raðaði í flokka eins og eg bezt hafði vit á, en alþingi í fyrra vildi ekki fallast á það. Þess vegna hefir sá grundvöllur verið brotinn.

Háttv. þingmaður gat þess í upphafi ræðu einnar, að vörutollslögin hefði verið samin til þess að ná einhverjum peningum inn í staðinn fyrir vínfangatollinn, sem hann sagði, að aðallega hefði verið greiddur af útlendingum. Það er rétt, að vörutollurinn kom í stað vínfangatollsins, en hvað hinu viðvíkur, þá vil eg benda honum á, að útlendingar greiða miklu meiri toll í landssjóð af vörutollinum, en eftir fyrri tollunum, því að nú borga þeir toll af öllum nauðsynjum sinum er þeir kaupa hér. Eg skal t. d. nefna kol, sem útlendingar kaupa hér miklu meira af heldur en vér Íslendingar sjálfir, eins og eðlilegt er. Í þessu tilliti er vörutollurinn miklu hagkvæmari heldur en vínfangatollurinn.

Þá sagði háttv. þingmaður, að þegar á fyrsta ári hefði komið margar kvartanir til stjórnarráðsins yfir vörutollslögunum. Það er ekki hægt að sjá, að miklar umkvartanir hafi komið fram, því að frumvarpið sem stjórnin lagði fyrir þingið 1913, er eins og eg skal sýna háttv. þingmönnum, að eins 4½ lína á lengd, og eru þar í allar þær breytingar, sem stjórnin fann ástæðu til samkvæmt umkvörtunum, að leggja til að gerðar væri á lögunum frá 1912, svo að varla hafa umkvartanirnar verið mjög miklar. Eg hefi heldur hvergi heyrt umkvartanir yfir vörutollslögunum, þvert á móti hefir fólk alment sætt sig vel við þau og lögreglustjórar einnig.

Það var rétt, sem háttv. þingmaður sagði, að á þinginu 1912 vóru ýmsar stefnur uppi um tolla fyrirkomulag. En þar vóru allar kveðnar niður nema þessi um vörutollinn, því að engin önnur gat komið til greina, nema að um leið væri komið á fót almennri tollgæslu og henni fullkominni, sem menn kinoka sér við kostnaðarins vegna. Þessi lög miða að því að komast hjá tollgæzlu í lengstu lög. Enginn veit, hvað fullkomin tollgæzla mundi kosta Ísland; það yrði afarmikið í svo stóru og strjálbygðu landi og auk þess óábyggilegt.

Háttv. þingmaður (M. Kr.) gat þess, að með þessu frumv. væri gengið inn á þá braut að hækka toll á nauðsynjavöru. Þetta er rétt að sumu leyti. En mér er spurn: Hvar á að taka tollinn, ef ekki á að taka hann af neinni nauðsynjavöru? Eg hygg, að ef háttv. þm. Ak. (M. Kr.) hefði verið eins mikið kappsmál eins og hann lætur, með að hækka ekki toll á neinni framleiðsluvöru, þá hefði hann ekki lagt kapp á að bátar yrði tollaðir.

Nefndin komst annars að þeirri niðurstöðu, að hækkunin, sem þetta frumv. hefði í för með sér á tollinum, yrði fjarska lítil, en lækkunin í fyrra nam um 40 þús. krónum.

Annað, sem háttv. þingm. mintist á var slíkt smáræði, að eg nenni ekki að vera að tala frekara um það.

Það er nú stuttur tími eftir, sem þessi lög eiga ólifaðan, en verði þau framlengd, þá þyrfti að endurskoða þau, ef þetta frumvarp gengur ekki fram, og þarf þá að taka tillit til alls þess, sem eg hefi bent á hér að framan. En eitt vil eg benda á, og það er, að það er alls ekki á færi þingsins að vera að breyta þessum lögum. Stjórnarráðið verður að gera það með aðstoð þeirra manna, sem bezt hafa vit á málinu.