24.07.1914
Neðri deild: 20. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

55. mál, vörutollur

Framsögum. (Björn Kristjánsson):

Eg skal að eins víkja nokkrum orðum að því atriði, sem háttv. þm. Ak. (M. Kr.) mintist á síðast, sem sé hundraðsgjaldið. Í rauninni kemur það atriði ekki þessu máli við nú; það er hlutverk næsta þings að ráða fram úr því, hverja stefnu eigi að taka í tollmálinu. En eg vil þó koma með dæmi til að sýna háttv. þm., hversu verðtollurinn er óábyggilegur tollur. Setjum svo, að 2 feðgar reki verzlun, annar t. d. í Hamborg, hinn í Reykjavík. Nú sendir Hamborgarkaupmaðurinn kassa til Reykjavíkur með vefnaðarvöru er væri 100 pd. Í honum er silki fyrir 75 kr. og ódýrar vefnaðarvörur fyrir 25 kr. og að sendandi sendi 2 reikninga yfir innihaldið, einn yfir silkið og annan yfir ódýru vefnaðarvöruna, sem meira fer fyrir. Nú sýnir kaupmaður bæjarfógeta lægra reikninginn, og hvað getur bæjarfógeti sagt við því? Ekki neitt. Hann getur alls eigi dæmt um, hvort meira muni hafa verið í kassanum og verður því að taka reikninginn gildan. Þetta tek eg bara til dæmis. Það er einmitt þessi höfuðgalli á verðtollaaðferðinni, að gefa má 2 eða fleiri reikninga yfir innihald sömu umbúðar og svo má setja verðið á reikningunum yfir vörurnar miklu lægra en það er í raun og veru. Tollheimtumaður getur ekkert við því sagt. Til þess þyrfti tollheimtumaður að rannsaka hvert stykki um sig, sem inn flyzt, og vera svo vel að sér, að hann þekti, hversu mikils virði varan væri. En hér er engin slík tollgæsla til, og þótt hún væri til, mundu tollgæzlumenn ekki geta metið vöruna réttilega.

Sami háttv. þm. (M. Kr.) sagðist ekki vilja láta hringla með lögin og láta breytingar á þeim bíða næsta þings. Það er að nokkru leyti rétt. En það var einmitt á síðasta þingi, að farið var að hringla með lögin og gera á þeim breytingar til hins verra, en þetta frv. fer fram á að lagfæra þær. Og ástæða er þó til að gera lögreglustjórum mögulegt að innheimta tollinn á næsta ári á löglegan hátt, og svo að hægt sé að endurskoða vörutollsreikningana.