11.08.1914
Neðri deild: 41. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

120. mál, stjórnarskrá

Benedikt Sveinsson :

Við atkv.greiðsluna um fyrirvarana, sem í dag voru til umræðu, hefir það komið í ljós, að skoðanir manna hafa verið mjög skiftar um það, sem gerðist á ríkisráðsfundinum 20. okt. síðastl. Það kvað svo ramt að þessu, að menn, sem setið höfðu í alt sumar í nefnd, og þóttust vera orðnir sammála, hafa ekki getað fylgst að við atkvæðagreiðsluna, vegna þess, hve skoðanir hafa verið sundurleitar. Aðstaða hæstv. ráðherra, þegar hann fer með stjórnarskrána, verður því afar erfið. Eg vildi því leggja það til, að málið yrði látið falla niður að sinni, og mun eg greiða atkvæði á móti því. Að öðru leyti get eg skírskotað til þess, sem eg hefi áður sagt í dag.