20.07.1914
Neðri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

73. mál, skipaveðlán

Flutningsm. (Sv. Björnsson) :

Til þess að gera grein fyrir því, hvernig á því stendur, að frumvarp þetta er fram komið, skal eg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp bréf frá stjórn »Eimskipafélags Íslands« til Alþingis, dagsett 15. þ. m. :

»Þegar bráðabirgðastjórn hlutafélagsins Eimakipafélags Íslands, og síðan stjórn félagsins, sem kosin var á stofnfundi þess, var að undirbúa samninga um smíð þeirra tveggja millilandaskipa, sem félagið er nú að láta smíða, og yfirvega, hversu mikið fé félagið mundi hafa yfir að ráða, en eftir því varð að fara um stærð, hraða og útbúning skipanna, að öllu leyti, hafði félagsstjórninni borist upplýsingar um það, að skipaveðbankar mundu lána félaginu, gegn 1. veðrétti í skipunum, alt að 60% af verði þeirra. Á þessu var svo bygt, þegar útboð var gert um smíð á skipunum, þegar fulltrúar félagsins fóru til útlanda í síðastliðnum febrúarmánuði, til þess að fullgera samninga um skipin. En þegar þeir fóru að rannsaka málið nánar, kom það í ljós, að skipavaðbankarnir erlendis vildu ekki lána meira út á væntanleg skip Eimskipafélagsins, en 40–50% af verði þeirra, sökum þess, að fyrirkomulag skipanna væri sniðið eftir þeim sérstöku kröfum, sem gera verður til skipa, sem eru í förum bæði með farþega og vörur milli Íslands og útlanda og því væri skipin ekki eins útgengileg erlendis, til almennra siglinga, ef til þess kæmi, að bankarnir þyrfti að ganga að veðinu sér til fullnægingar. En þetta hafði þær afleiðingar, að 100–200 þús. krónur vantaði á, að félagið hefði bolmagn til þess að kaupa svo stór, hraðskreið og vönduð skip, sem ráðgerð höfðu verið og útboðið bygðist á. Félagsstjórnin taldi á hinn bóginn mikinn skaða fyrir félagið að hafa skipin minni eða óvandaðri, og réð því að snúa sér til Landsbankana og Íslandsbanka um ábyrgð þeirra fyrir nokkrum hluta lánsins, þannig að lánið úr skipaveðbankanum gæti orðið alt að 60% af verði skipanna, eins og hafði verið gert ráð fyrir í byrjun.

Bankarnir báðir, og einnig landsstjórnin, að því er Landsbankann snerti, tóku mjög vel málaleitun félagsstjórnarinnar, og lofuðu bankarnir ábyrgðinni, gegn borgun af hendi fé. lagsins, sem samið yrði um síðar, en jafnframt áskildu þeir, að fél. sækti um það til alþingis, að landssjóður tæki að sér ábyrgð þessa í stað bankanna, þar eð það virtist eðlilegra, að landssjóður tæki að sér ábyrgð þessa og á hinn bóginn sparaðist félaginu þá þóknun sú, sjálfsagt talsvert mikil upphæð á ári, er bankarnir tæki fyrir ábyrgð sína.

Félagið gerði síðan samning við Nederlandsche Scheeps-Hypoteekbank í Rotterdam um það, að veita félaginu alt að 400 þús. gyllini, eða um 600 þús. kr. lán gegn fyrsta veðrétti í tveimur væntanlegum millilandaskipum félagsins, og gegn því, að Landabankinn og Íslandsbanki, eða í þeirra stað Landssjóður Íslands ábyrgðist alt að því einn fjórða hluta lánsins, eins og það er á hverjum tíma sem er. Ábyrgð þessi er þannig hliðstæð við fyrsta veðrétt í skipunum, og trygð á sama hátt og lánið sjálft. Fylgir hér með eftirrit af lánssamningnum.

Félagsstjórnin leyfir sér því, fyrir hönd Eimskipafélagsins, að fara þess á leit, að alþingi veiti landsstjórninni heimild til þess að takast á hendur, fyrir hönd landssjóðs, ofangreinda ábyrgð.

Virðingarfylst.

Hf. Eimskipafélag Íslands.

Sveinn Björnsson. Halldór Daníelsson.

G. Gíslason. Jón Gunnarsson. Eggert Claessen. O. Friðgeirsson.

Þetta er eiginlega nóg til þess að gera grein fyrir því, hvað í frv. felst. Þegar við tveir menn úr stjórn Eimskipafélagsins fórum utan í vetur, til þess að semja um smíðar á skipum þess, var okkur jafnframt falið að reyna að útvega lán, með veðrétti í skipunum, sem nærri alt að 60% af verði skipanna. Við leituðum fyrir okkur á þeim stöðum, sem vænlegast er að fá þesskonar lán, en það er í Belgíu, Hollandi og Þýzkalandi. Við komumst brátt að raun um það, að það var ekki eins létt og við höfðum haldið. Meðal annars mun það hafa stafað af því, að veðbankarnir, sem við leituðum til í þessu skyni, sneru sér allir til Danmerkur, til þess að fá sér upplýsingar um Eimskipafé lagið, og eg er hræddur um, að þeir hafi ekki fengið sem beztar upplýsingar þaðan. Að minsta kosti urðu þær þess valdandi hjá sumum bönkunum, að þeir vildu ekki veita lánið með þeim kjörum, sem við höfðum vænst. Auk þessa kom það í ljós, að skipin hafa ekki sama markaðsgildi og önnur skip, vegna þess, að þau eru smíðuð sérstaklega til Íslandaferða. Meðal annars eru þau óþarflega sterk á pörtum — aðallega Norðurlandsskipið — og er það gert til varnar móti lagnaðar-ís. Afleiðingin var því sú, að ekki var hægt að fá hærra lán en 40–50% af verði skipanna gegn veði í þeim sjálfum. Við símuðum þetta til stjórnar félagsins í Reykjavík, en hún sneri sér aftur á móti til bankanna hér. Þeir féllust á það, að ábyrgjast það, sem á skorti að 1/4 hluta, en áskildu sér þó að leitað væri til þingsins um landssjóðsábyrgð.

Hér er að ræða um ábyrgð á alt að 150 þús. kr., sem eiga að borgast upp á 12 árum, gegn veði í skipunum sjálfum. Mér virðist ýmislegt mæla með því, að landssjóður taki á sig þessa ábyrgð, bæði það, að þingið hefir sýnt félaginu mikla velvild og líka hitt, að hættan er ekki mikil, þar sem tryggingin er svo góð. Ennfremur mundi félaginu sparast fé við þetta, því að bankarnir, sem eru gróðastofnanir, hljóta að taka fé fyrir að ganga í ábyrgð, en það gerir landssjóður ekki.

Eg vænti þess, að háttv. deild lofi frv. að ganga til 2. umr. Nefndarskipun álít eg óþarfa.