28.07.1914
Neðri deild: 23. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

83. mál, styrkur fyrir Vífilsstaði

Bjarni Jónsson :

Eg verð að láta í ljós undrun mína yfir því, að nokkur maður skuli dirfast að halda fram þeirri skoðun, að alþingi hafi ekki vald til að setja lög, sem heimila fjárgreiðslur, nema þau heiti fjárlög. Þessi skoðun er langt frá allri skynsemd. Eg veit ekki betur en að þingsályktanir hafi verið álitnar nægja til þess að heimila stjórninni fjárgreiðslur, og til milliþinganefnda hefir hún óspart varið fé án fjárlagaheimildar. Þetta er full-ljóst og þarf ekki um það að deila. En hitt er mér óskiljanlegt, hvernig fulltrúi ráðherrans getur leyft sér að koma fram með annað eins og að vísa þessu máli frá fyrir svo sérvizkulega skoðun. Og eg skil ekki að nokkur maður geti látið hafa sig til að bera fram þessa skoðun. Eg get skilið það, að suma menn langi til að bregða fæti fyrir frv., en varla, að nokkur maður skuli reyna það. Það datt engum í hug að fella fjáraukalögin til þess að gera fráfarandi stjórn gramt í geði. Eg fyrir mitt leyti lét í ljós þakklæti mitt til stjórnarinnar fyrir að hafa komið fram með frumv. til fjáraukalaga, í staðinn fyrir að grípa til útborgana án heimildar. — Eg býst við að ráðherrann kunni umboðsmanni sínum litlar þakkir fyrir frammistöðuna þegar hann kemur heim. Er þá betra að vera ekki umboðsmaður, heldur en að fara með umboðið í óþökk umbjóðanda sína.