28.07.1914
Neðri deild: 23. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

83. mál, styrkur fyrir Vífilsstaði

Björn Kristjánsson:

Það eru aðrir búnir að taka það fram, sem eg hafði ætlað mér að segja. Þó vil eg bæta því við, að síðan eg kom á þing man eg ekki til að nokkurt þing hafi liðið svo, að ekki hafi verið samþykt fleiri eða færri frumv., sem höfðu í för með sér fjárgreiðslur við hliðina á fjárlögunum. Hér liggur ekki annað fyrir en það, sem altaf hefir verið gert, að veita stjórninni með sérstökum lögum heimild til að greiða fé úr landssjóði í ákveðnu augnamiði. Þess vegna stórfurðar mig á þeim andmælum, sem þetta frumvarp hefir mætt hér í deildinni í dag. Eg vona að hæstv. forseti liti svo á, að það sé fullkomlega löglegt, að taka málið til meðferðar og láti deildina skera úr því.