03.07.1914
Neðri deild: 2. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

113. mál, kosningar til Alþingis

Ráðherra (H. H.):

Þetta er allmikill lagabálkur og vandasamur. Hann stendur í nánu sambandi við stjórnarskrárfrumvarp það, er nú liggur fyrir háttv. deild. Hér eru fyrst og fremst sett þau ákvæði, sem eru nauðsynleg afleiðing af hinni fyrirhuguðu stjórnarskrárbreyting, bæði um kosning þeirra 6 þingmanna, sem til er ætlast að kosnir verði hlutbundnum kosningum um land alt og enn fremur ákvæði, sem leiða af breyttum skilyrðum fyrir kosningarrétti og kjörgengi o. fl.

En stjórnarskrárbreyting hlýtur og að hafa ýmsar fleiri breytingar á kosningalögunum í för með sér. Þegar kosningarrétturinn er rýmkaður, eins og gert er í stjórnarskrárfrumv., í því skyni að koma á jafnrétti til áhrifa á löggjöf og landsstjórn, þá væri það augljós mótsögn, ef ekki væri jafnframt bætt eitthvað úr því mikla misrétti, sem verið hefir í því, hvert gildi atkvæði kjósenda hafa, þannig að kjósendur fái sem jafnastan rétt einnig í því tilliti. Þessu hefir verið mjög ábótavant, svo að t. d. í einu kjördæmi, Reykjavík, gildir atkvæði í kjósenda ekki meira en atkvæði 1 kjósanda í öðru kjördæmi landsins o. s. frv. Læt eg mér nægja að svo stöddu að skírskota til athugasemdanna við frumvarpið og skýrslnanna þar, að því er snertir misrétti það, sem átt hefir sér stað að þessu leyti. Þó að stjórnin hafi ekki séð fært að koma á fullum jöfnuði í þessu, má þó talsvert laga með hóflegri breyting á kjördæmaskipuninni.

Það er lagt til, að öll kjördæmin verði einmenningskjördæmi. Eg lít svo á, að ákvæði stjórnarskrárfrumv. um að þingmenn skuli kosnir í »sérstökum kjördæmum« sé fyrirskipan um þetta, enda er það í fullu samræmi við vilja undanfarinna þinga. Að láta sum kjördæmi vera tvímenningskjördæmi, en sum einmenningskjördæmi, er í sjálfu sér óheppilegt, en var þó sök sér, meðan meiri hluta kjósenda þurfti til þess að kosning væri gild. En eftir núgildandi ákvæðum, að þeir sé rétt kjörnir, er flest atkvæði fá, — og þeirri reglu þykir ekki fært að breyta vegna hreppakosninga og landshátta er það ófært. Nú getur þegar margir bjóða sig fram auðveldlega svo farið, að lítið brot ráði kosningaúrslitum. Þetta er nógu ilt í einmennu kjördæmi, en hálfu verra í tvímenningskjördæmum og veldur sérstöku misrétti meðal kjördæma. Hér er gerð tilraun til að bæta úr þessu með því að skifta öllu landinu í 34 einmenningskjördæmi.

Viðvíkjandi kjördæmaskiftingunni hefir stjórnin haft til hliðsjónar eldri undirbúning og tillögur. Tilætlunin hefir verið, að slíta sem minst sundur það, sem saman á að atvinnuvegum og sameiginlegum hag; en vel má vera, að einstakir þingmenn, sem sérstaklega eru kunnugir staðháttum hinna ýmsu héraða, æski breytinga á kjördæmatakmörkunum, og kemur það þá til athugunar í væntanlegri nefnd. Til þess að létta þingmönnum athuganir í þessu efni er prentuð í athugasemdum við frumvarpið skýrsla um tölu kjósenda og íbúa í hverjum hreppi landsins eftir síðustu upplýsingum.

Auk þess, sem nú hefir verið getið, hafa verið tekin upp í frumvarpið ný ákvæði um atkvæðagreiðslu sjómanna. Hingað til hefir enginn getað neytt atkvæðisréttar nema mæta sjálfur á kjörfundi. Þetta hefir sérstaklega verið óhentugt sjómönnum, sem á skip eru ráðnir. Þess vegna hefir verið reynt að haga svo til að hafa kjördag á þeim tíma, er ætla mætti, að sem flestir sjómenn væri í landi, en það hefir lánast misjafnlega. Nú er að dæmi ýmsra annara þjóða lagt til, að sjómenn geti kosið skriflega fyrir kjördag og sent atkvæði sín til kjörstjórnar, án þess þar með raskist meginreglan um leynilega atkvæðagreiðslu.

Um fyrirkomulag frumvarpsins skal þess getið, að í I. kafla eru reglurnar um kjördæmakosningar, og eru það núgildandi kosningalög með þeim breytingum, sem leiða af stjórnarskrárbreytingu eða orðið hafa með síðari lögum eða stafa af breyttum kringumstæðum og öðru fyrirkomulagi kjördæma. II. kafli er um kosning þeirra 6 þingmanna, er kosnir verða hlutbundnum kosningum um land alt. Þar verður líkt snið og á hinum nýju bæjarstjórnarkosningum, þannig, að kjósendur geta tölusett nöfn á framboðslistum. III. kafli er um kosning sjómanna. Í IV. kafla eru almenn ákvæði.

Að öðru leyti leyfi eg mér að skírskota til athugasemdanna aftan við frumvarpið og vona eg, að háttv. deild taki frumvarpið til velviljaðrar meðferðar.