12.08.1914
Neðri deild: 42. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

82. mál, listaverk Einars Jónssonar

Eggert Pálsson :

Eg stend upp til þess að gera grein fyrir atkvæði mínu. Þegar þetta mál var hér áður til meðferðar 1 deildinni, greiddi eg atkvæði á móti því, og þó að nú hafi verið gerð breyting á frumv. í háttv. Ed., þá er sú breyting ekki nægileg til þess, að eg geti breytt stefnu minni í málinu.

Eg ætla engan dóm á, það að leggja, hversu mikill listamaður Einar Jónsson er, enda treysti eg mér ekki til þess. En það veit eg, að dómar manna um það eru mjög misjafnir. Að minsta kosti hefi eg heyrt menn, sem vel er treystandi til að leggja dóm á þess konar, halda því fram, að betur væri valið að brjóta niður líkneski Jónasar sál. Hallgrímssonar, heldur en að láta það standa þar sem það stendur, sjálfum honum og landinu til vansæmdar.

Þar sem sumir háttv. þm. halda því fram, að þessi maður sé viðurkendur listamaður um allan heim, þá verð eg að telja það undarlegt, að hann skuli þá ekki geta lifað á listaverkum sínum. Það verður ekki vel skiljanlegt, sem háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) skýrði frá, að útlendingar, sem hingað kæmi, væri ólmir í að kaupa eftirgerðar myndir eftir verkum Einars Jónssonar fyrir 10–20 aura, og væri jafnvel hissa á að þau skyldi ekki vera geymd á einhverjum veglegri stað en í pakkhúsi í Kaupmannahöfn, en hins vegar skuli þó enginn kaupandi fást að neinu verki hans. Hvernig stendur á þessu? Er það af því, að enginn útlendingur sé til þess fær? Eg verð að segja það, að slík alheimsviðurkenning, sem þannig lýsir sér, er mér hreinasta ráðgáta.

Eg skal ekki hafa mörg orð um þetta. Það sem aðallega gerir það að verkum, að eg er á móti þessu máli, er ekki svo mjög þessi litla upphæð, sem hér er farið fram á, 4 þús. kr., heldur það, að eg álít að hér sé verið að stinga inn litlafingrinum, og hætt sé við, að öll hendin komi á eftir. Það þarf enginn að hugsa sér, að hann geti talið mér trú um, að menn láti sér duga það til langframa að flytja inn listaverkin og geyma þau síðan í einhverju lítilfjörlegu húsi eða járnskúr hér í bænum, enda væri það hreinasta forsmán ef um sönn listaverk væri að ræða, sem landinu væri sómi að.

Það þarf enginn að hugsa til þess, að hann geti talið mér eða nokkurn veginn skynbærum mönnum trú um, að þetta verði látið gilda til langframa. Þegar búið er að flytja verkin heim, þá munu brátt fara að koma fram raddir um að koma þurfi upp veglegu húsi til að geyma þau i, hvort sem þau eiga það í raun og veru skilið eða ekki. Þetta gerir það að verkum, að eg hlýt að verða á móti þessu máli. Þó að ekki sé nú farið fram á í upphafi nema 4 þús. kr. til að flytja verkin heim, þá munu menn komast að raun um, að sú upphæð, sem formælendur þessa máls fara síðar fram á, að kostað verði til þessara verka, sem sé til húsabyggingar og umsjónar verður ekki 4 þús. kr., heldur 4 þús. kr. margfaldað með 10 eða jafnvel 100. Ef eg lifi lengi, þá býst eg síðar við, að eg geti bent, á að þessi spá mín hafi náð að rætast.