06.08.1914
Neðri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

112. mál, steinsteypubrú á Langá

Pétur Jónsson:

Eg stend ekki upp til að spilla fyrir þessu frumvarpi, síður en svo. Eg álít, að það eigi eins mikinn rétt á sér eins og hin heimildarlögin, sem á ferðinni eru. En mér finst það mótsögn hjá háttv. þingmönnum, að vilja ekki taka fjárveitingar á fjáraukalög, en veita þó stjórninni tiltölulega takmarkalitla heimild til fjárveitinga. Þetta þykir mér undarlegt háttalag. Og enn meiri mótsögn er það, að veita stjórninni heimild til fjárgreiðslu, sem ekki er brýn, þegar búið er með sérstökum lögum að heimila henni að spara sum lögmælt útgjöld, sem standa á sjálfum fjárlögunum. Og því léttúðarlegra er þetta nú undir þinglok þegar enginn umhugsunartími er og þingmenn svo stopulir og óþolnir orðnir, að kannske 2/3 aðeina eru viðstaddir og 10 þar af greiða máske ekki atkvæði. Eg segi þetta ekki til þess að spilla fyrir þessu litla frumvarpi, heldur í sambandi við sum heimildarlagafrumv. sem á undan eru gengin í deildinni.