30.07.1914
Neðri deild: 25. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

88. mál, landsdómur

Framsögum. (Einar Arnórsson) :

Eg held, að það sé með öllu óþarft að hefja kappræður um þetta mál. Eg þakka háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) fyrir undirtektirnar, því að hann taldi breytingarnar vera til bóta, frá sínu sjónarmiði. Það sem hann hafði á móti frv. var það, að úr því að nefndin væri á einu máli um það, að öll landsdómslögin þyrfti að endurskoða, þá mætti þessar breytingar bíða eftir þeirri endurskoðun. En eins og háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) veit, ekki síður en nefndin, er langt stig á milli þess, að máli sé beint til stjórnarinnar, og að það sé af hennar hálfu og eftir rannsókn hennar lagt fyrir þingið og enn lengra til þess, að það komi aftur frá þinginu sem lög. Það geta liðið mörg ár á milli. Það er ekki sagt, að stjórnin finni ástæðu til að taka þessa málaleitun til greina. Við ráðum ekki yfir hennar hugarfari. Og það er eigi heldur víst, að það þing, er stjórnin kynni að leggja málið fyrir, afgreiddi það heldur frá sér í lagaformi og til fullnaðar.

Vegna þess að okkur var þetta ljóst, komum við fram með þessar bráðnauðsynlegu breytingar, sem hér eru taldar. Hitt var ekki rétt hjá háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), að meiri hluti nefndarinnar hefði nokkurn sérstakan ákveðinn mann í huga, sem hann eða þingið hefði ástæðu til að kæra fyrir landsdómi, hvorki neinn þeirra manna, sem enn eru á lífi af þeim, sem stjórnina hafa haft á hendi, né þann mann, sem nú fer með hana. Það er jafnvel mesta fjarstæða að geta þess til, að okkur mundi detta í hug, að við þyrftum að kæra þann mann, sem við flutningsmenn frumvarpsins höfum nýlega sýnt það traust að fela mál vor og stutt til ráðherradóms. Eg get fullvissað háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) um það, að þessi hræðsla hans er á engum rökum bygð. En hitt virtist okkur, að svo lengi gæti staðið á endurskoðun laganna, að á þeim tíma gæti margt það borið við, sem gæfi ástæðu til að beita þeim. Þess vegna vildum við ekki slá því á frest að koma fram með þessar breytingar.

Eg sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið að svo komnu.