30.07.1914
Neðri deild: 26. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

101. mál, Norðurálfuófriðurinn

Framsögum. (Einar Arnórsson):

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.) hefir að mestu leyti tekið af mér ómakið að svara þeim athugasemdum, sem fram hafa komið. Út af athugasemdum hv. þm. S.-Þing. (P. J.) og háttv. umboðsm. ráðherra (Kl. J.) við þriðju gr., þá vil eg benda á það, að greinin segir ekki annað, en stjórninni sé heimilt að hefta útflutning á vörum, þeim, er þar getur. En auðvitað er ekki ætlast til, að stjórnin beiti þessari heimild frekara en brýn nauðsyn krefur og lög standa til. Það er því sjálfsagt, þar sem »internationalir« verzlunarsamningar eða þjóðarréttur standa í vegi, að stjórnin beiti ekki lögunum gagnstætt því. En auðvitað er ástæðulaust að vera að amast við viðaukatillögu, er kvæði skýrt á um þetta efni.

Háttv. þingm. S.-Þing. fann að því, að nefndin leggur það til, að hægt sé að banna útflutning á nauðsynjavörum til óbúsettra manna í landinu. Þetta er eitt af höfuðatriðum frumv., sem nefndin verður að leggja mikla áherzlu á að verði samþykt. Oss fanst það sjálfsagt, að stjórnin. gæti neytt þessa ráða, ef henni virtist nauðsyn til bera. Vér erum svo illa birgir af matvælum hér, að til stórvandræða gæti horft, ef aðflutningar heptist. Það má búast við því, að verð vörunnar hækki og allra bragða verði neytt til þess að ná héðan í slíkar vörur. Hvert land reynir auðvitað til þess að skara eldi að sinni köku sem frekaat er unt.

Mér heyrðist einhver háttv. þingmaður tala um það, að ákvæði 4. gr., sem kveður svo á, að stjórnin megi leggja verð á verzlunarvöru, væri alveg ótækt. Það er að vísu nokkuð hart aðgöngu, en miðar að því, að hagur einstaklingsins verður að víkja fyrir hag fjöldans. Það stoðar lítið að hafa vöruna, ef hún verður svo dýr, að menn hafa ekki kaupþol til þess að afla sér hennar t. d. ef mjólkurpotturinn stigi upp í krónu og þar fram eftir götunum.

Eg skal svo ekki fara frekara út í einstök atriði, því að það hefir verið gert áður. Nefndin hefir þakksamlega tekið þeim breytingartillögum, sem hún hefir álitið að stæði til bóta.