30.07.1914
Neðri deild: 26. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

101. mál, Norðurálfuófriðurinn

Guðmundur Hannesson:

Mér er það ekki vel ljóst, hvernig menn geta verið að tala um það, að hungursneyð vofi yfir, þar sem vér höfum meiri matvæli í landinu en vér getum étið á hálfu ári. Hér liggja heilir skipsfarmar af saltfiski, og svo mun víðar á landinu. Fyrir norðan veiðist síld svo tugum þúsunda tunna skiftir, ef að vanda lætur, og vita allir, að þar er um meiri matarbirgðir að ræða, en landið þarf á að halda. Nei! Vér höfum margfalt meiri matvæli en vér þurfum, ef ófriðurinn dregst ekki fram úr öllu því, sem sennilegt er. Það er líka alveg áreiðanlegt, að vér þurfum ekki annað en bjóða hvaða þjóð sem í ófriði á og á annað borð yfir hafið kemst, að láta hana fá fisk og kjöt í stað korns. Og erfiðast af öllu er að afla þeirrar vöru. Meðan Englendingar fljóta á hafinu erum vér vissir með að geta komist að góðum skiftum á fiski, kjöti og korni. Að þessu leyti erum vér líklega betur settir en allar aðrar þjóðir í Evrópu.

Eg skal ekki dæma um það, hvort hægt er að taka af mönnum vörur, sem þeir eru búnir að lofa upp í skuldir, án þess að baka þeim skaðabótaskyldu.

Eg get ekki skilið, hvað vinst við það að stöðva vegagerðir í landinu, vegna þessa ófriðar. Vér höfum nóga seðla til þess að borga vorum verkamönnum með. En auðvitað kemur ekki til mála að byggja stórar brýr úr útlendu efni, sem ekki yrði keypt fyrir annað en gull, en verkamönnum vorum getum vér borgað með íslenzkum seðlum.

Um yfirvofandi hungursneyð getur ekki verið að tala, eins og eg hefi tekið fram. Oss kemur ekki til að skorta annað en korn, en svo er fyrir þakkandi, að altaf flýtur einhver þjóðanna og ætti þá að vera auðið að ná í það í skiftum við vorar afurðir.