31.07.1914
Neðri deild: 27. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

101. mál, Norðurálfuófriðurinn

Framsögum. (Einar Arnórsson):

Eg skal byrja þar sem hv. 2. þm. Rangv. (E. P.) endaði. Hann spurði, hvar ábyrgðin hvíldi. Því er auðsvarað. Hvorirtveggja, bæði stjórnin og nefndin geta borið siðferðilega ábyrgð á ráðstöfunum þeim, er gerðar kunna að vera, en lagalega ábyrgðin lendir auðvitað á ráðherra einum; þar á er enginn vafi. Nefndin hefir að eins rétt til að gefa stjórninni ráð. Annað mál er það; að stjórninni kann að þykja viðurhlutamikið að setja sig upp á móti nefndinni. Nefndin hefir enga lagalega ábyrgð; hún er ráðgjafar-nefnd, annað ekki.

Sami háttv. þm. (E. P.) taldi erfiðara að hafa yfirleitt nokkura nefnd. Það má vel vera, að framkvæmdir verði seinni, ef nefndin er höfð. En eg býst við, að þingið skipi nefndina svo, að auðvelt verði stjórninni að ná til hennar og tel eg víst, að nefndin verði svo skipuð, að hún geti gefið stjórninni gagnlegar leiðbeiningar um það, hverjar vörur þurfi að kaupa, hvaðan og hverjum skuli ekki selja.

Þá inti sami háttv. þm. (E. P.) eftir því, hvert gildi þetta frumv. hefði, ef ekki næðist konungsstaðfesting. Frá lagalegu sjónarmiði er ekki um lög að ræða, ef á brestur tilstyrk annars aðilja löggjafarvaldsins. En hitt er annað mál, að ef stjórnin neyðist til að gera þær ráðstafanir, sem í frumv. eru heimilaðar, þá á ráðherra siðferðilega stoð í því, að frumv. hefir verið samþykt af þinginu. Þetta liggur í augum uppi. Ef t. d. stjórnin hefir aflað vistaforða eftir þessari heimild, þá getur hvorki þing né landsdómur vítt hana, ef hún að öðru leyti hefir farið svo með ráði sínu, sem þingið ætlaðist til.

Og ef ekki næst í staðfesting konungs, þá hefir stjórnin ekki að lögum vald til að hefta útflutning á vörum, því að refsingu verður ekki við. komið, nema skýlaus réttarheimild sé til.