31.07.1914
Neðri deild: 27. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (504)

101. mál, Norðurálfuófriðurinn

Skúli Thoroddsen :

Eg get þakkað háttv. nefnd fyrir lagfæringarnar, sem orðnar eru á frumv. Hún hefir að mun bætt úr agnúunum, sem eg benti á í nótt er leið, svo að frumvarpið er nú miklu aðgengilegra en það var.

Mér var svarað því í nótt, er eg mælti á móti því, að menn væri neyddir til að rifta samningum, er þeir kynni að hafa gert, að hér væri um »vis major« að ræða. — En hvað sem því líður, vík eg ekki frá því, að það situr mjög illa á löggjafarvaldinu að ganga á undan öðrum í því að neyða menn til óorðheldni.

Að því er það atriði snertir, hvort nefndin, sem lögin gera ráð fyrir að skipuð verði, eigi að fá kaup eða ekki, eina og háttv. 1. þingm. Árn. (S. S.) inti svo barnalega eftir, þá er það auðvitað sjálfsagt, að nefndin á heimting á kaupi, þótt eigi sé þess beint getið í lögunum.

Þingið getur ekki skipað mönnum að vinna hin eða þessi verk kauplaust í landsins þágu, lengur eða skemur. Sé það tilætlunin þyrfti því að koma með breyt.till. við frumv., því að ella geta nefndarmenn krafist borgunar, sem eðlilegt er, enda getur starf þeirra og orðið allmikið, ef Evrópu-ófriðurinn stendur lengi yfir, sem vel getur orðið.