03.07.1914
Neðri deild: 2. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

113. mál, kosningar til Alþingis

Ráðherra (H. H.):

Háttv. þm. Dal. (B. J.) vildi vefengja þörf Reykvíkinga á að hafa fleiri þingmenn en þeir hafa nú. Það væri svo margir þingmenn annara kjördæma landsins, sagði hann, sem heimili ætti í Reykjavík, eina og t. d. háttv. þm. sjálfur, að þeir gæti dugað Reykjavík líka. Annar háttv. þm. (B. Sv.) kvað það einnig draga úr þörfinni, að þingið væri háð hér og bæjarbúar ætti þess vegna svo hægt með að tala máli sinu við þingmennina. Nú er verið að veita kvenfólki kosningarrétt. Má ekki alveg eins segja um það: Hvaða þörf hefir kvenfólkið á þeim réttindum? Getur það ekki talað við þá, sem réttindin hafa? Slík svör sem þessi virðast mér vera æði mikið út í hött. Það er reyndar satt, að nokkuð margir þingmenn annara kjördæma eiga heimili í Reykjavík nú sem stendur. En jafnvel þótt það sé látið gott heita, að þeir þingmenn sumir hverir taki ekki meira tillit til sinna eigin kæru kjósenda, en til hagsmuna höfuðstaðarins, hvaða trygging er fyrir því, að svo verði framvegis? Er ekki kjördæmunum: frjálst að kjósa þá menn, sem þau vilja? Það er meira að segja kunnugt, að hreyfing er í landinu, sem fer í þá átt að kjósa ekki Reykvíkinga, og helzt þá menn eina, sem heimili eiga innan þeirra kjördæma, sem þeir eru kosnir fyrir. Má ekki segja, að bændaflokkshreyfingin stuðli einnig að því? Og ef svo færi, sem vel getur orðið, að enginn þingmaður verður úr Reykjavík nema þeir tveir, sem hún hefir nú rétt til að kjósa, hvað er

þá orðið úr forréttindum Reykvíkinga, sem háttv. þm. Dal. (B. J.) gerði svo mikið úr?

Sannleikurinn er sá, að allar þær röksemdir, sem nú er komið með fyrir því, að Reykjavík þurfi ekki fleiri þingmenn en nú, þurfi ekki neitt jafnrétti í fulltrúamagni, gæti alveg eins notast sem sönnun fyrir því, að Reykjavík þurfi alla ekki að hafa neinn þingmann sérstaklega fyrir sig, og því eigi að taka af henni þá tvo, sem hún hefir nú! En ef menn viðurkenna, að Reykvíkingar eigi að hafa sömu mannréttindi og aðrir landsmenn, þá getur ekkert samræmi fengist að þessu leyti með öðru móti en því að fjölga þingmönnum Reykjavíkur. Eftir tiltölu réttri ætti Reykjavík að hafa 7 þingmenn. Hér er aðeins farið fram á að hún fái fjóra.

Gagnvart því sem háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) Sagði í bræði sinni um það slys, sem eg gat um að komið gæti fyrir, að þingmaður slæðist inn á þingið, án þess að vissa sé fyrir því, að hann hafi nokkurt verulegt fylgi kjósendanna, skal eg aðeins taka fram, að eins og öllum hlýtur að hafa skilist, gat eg þessa engan veginn í þeim tilgangi, að sanna með því þörf einmenningskjördæma. Þetta slys getur, eins og dæmin sanna, eins vel komið fyrir í einmenningskjördæmum. Eg gat þess í sambandi við svar mitt gegn staðhæfingu hans um það, að flokkaskipunin í landinu komi í veg fyrir það, að óviðkunnanleg kosningaúrslit gæti leitt af ákv. gildandi laga. Flokkaskipunin, sem nú er getur ekki einu sinni varnað því, að ekki nema einn sé í kjöri. Annars sagði eg þetta fremur svona til bragðbætis, heldur en til þess að byggja á því neina sönnun