31.07.1914
Neðri deild: 28. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

101. mál, Norðurálfuófriðurinn

Jón Jónsson :

Þetta er mikið vandamál og lítill tími til þess svo góður frágangur geti orðið á þessu, sem helzt hefði orðið á kosið, en í fljótu bili hefir mér virzt margt mæla á móti nefnd. Eg er ekki svo kunnugur í Rvík, að eg treysti mér til að vita, hvaða menn á að velja í nefndina, og líkt get eg hugsað að sé um fleiri þingmenn utan af landi. Ef svo færi, að mistök yrði á kosningunni, þá myndi nefndin ekki verða að liði. Það gæti orðið ágreiningur milli hennar og stjórnarinnar, og væri það þá óþægilegt fyrir stjórnina að gera ráðstafanir þvert ofan í nefndina, því að þótt hún eigi ef til vill að ráða, þá er þó ábyrgð hennar þá mun meiri, ef framkvæmdir stjórnarinnar ganga á móti vilja meiri hluta nefndarinnar.

Svo er annað. Kosning nefndarinnar gæti orðið kappsmál milli flokkanna, en það væri afaróheppilegt ef svo færi, því að hér ætti eingöngu að fara eftir því, hverjir væri starfinu vaxnir. Það getur verið að oss takist það, en ekki er ástæðulaust að óttast það, að svo fari ekki. Nefndarmennirnir geta átt heimtingu á að fá borgun fyrir starfa sinn, og er það undir þeim sjálfum komið, hvort þeir heimta hana eða ekki. En hví skyldi ekki hver góður Íslendingur vilja gefa stjórninni leiðbeiningar, án þess að hann sé beinlínis til þess kosinn. Eg held að stjórnin standi eins vel að vígi þótt engin nefnd verði kosin.

Eg verð að halda því fram, að br.till. mín, um að engin nefnd skuli kosin, sé rétt.