31.07.1914
Neðri deild: 28. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

101. mál, Norðurálfuófriðurinn

Bjarni Jónsson :

Það vekur mér undrun að heyra ummæli manna um þessa nefnd. Eg lít svo á, að þinginu þyki það viðurhlutamikið að gefa einstökum manni svo mikil ráð í hendur þegar um svo stór lög er að ræða sem hér, og vilji því kjósa nefnd til að líta eftir. Það er verið að tala um einhverja menn, sem sé svo einstaklega vel til þess færir að gefa stjórninni leiðbeiningar í þessu efni, en eg veit ekki, hvert á að sækja þá menn. Sennilegast þykir mér, að þingið kjósi þá úr sínum flokki. Úr því að það hefir ráð á að kjósa ráðherra úr sínum flokki, þá ætti að vera hægt að fá 5 menn í þinginu sæmilega færa um að gefa stjórninni leiðbeiningar, ef þeir atburðir koma fyrir, sem menn gera nú ráð fyrir og óttast. Ef svo fer, getur viljað til að nefndin þurfi annað en að koma saman einu sinni eða tvisvar. Hún getur orðið að starfa árum saman, því að það er ekki víst, að það verði útkljáð á stuttum tíma ef Norðurálfuþjóðunum lendir saman, og ef það verður langvinn og mikil vinna, sem nefndin þarf að gera, hví skyldi hún þá ekki fá laun fyrir starfa sinn eins og aðrir. Eg skil ekki hvers vegna verið er að halda hér kjósendaræður um sparnað, þegar svo stendur á sem nú. Eg trúi því ekki, að hér á Íslandi sé þeir grútarháleistar, sem ekki vilji neinu til kosta þegar verið er að tala um að bjarga landinu. Ekki svo að skilja, að eg sé að mæla með að nefndinni verði goldið nokkurt kaup ef hún héldi að eins 1–2 fundi og hefði ekkert að gera. Það verður að gæta þess, að heimildarlög þingsins verði ekki misbrúkuð á milli þinga, og það getur ekki komið til mála, að vera að rífast um borgun til nefndarinnar. Hún léttir líka ábyrgð af stjórninni í þessu vandasama máli. Með þessu er stjórninni ekki sýnt neitt vantraust, en hitt væri oftraust á hverri stjórn sem er, að leggja þetta alt á hana. Nefndin er ekki annað en lítið, fáment þing, kosið til þess að standa stöðugt við ráðherrans hlið. Ef þessir viðburðir kæmi fram, gæti jafnvel orðið varhugavert fyrir oss að slíta þingi hér, og vona eg að eg þurfi ekki að sundurliða þetta fyrir þingmönnum.

Hvað viðvíkur svari háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) upp á mín orð áðan, þar sem hann vildi leyfa öllum að fullnægja þeim samningum, sem þeir hefði gert, skal eg leyfa mér að halda því fast fram, að slíkar reglur eiga ekki og mega ekki gilda í ófriði. Hvað værum vér nær að verja þjóðina hungursneyð, ef allir kaupmenn hefði gert samninga fyrirfram um að selja allar vörur út úr landinu, og stjórnin leyfði svo þeim samningi að standa? Ef þjóðirnar lenda í stríði, þá þurfa þær að panta að sér sem mestar vistir, og gæti svo farið hér hjá oss, að allar vorar afurðir yrði pantaðar út úr landinu, ef ekki eru í tíma reistar skorður við því. Og það er einmitt þessi máttuleiki, sem á að fyrirbyggja.