02.08.1914
Neðri deild: 30. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

107. mál, gullforði Íslandsbanka

Skúli Thoroddsen :

Eg get ekki orðið við þeirri ósk háttv. flutningsm., að láta mál þetta ganga alveg umræðulaust gegnum háttv. deild, eins og sumum ákvæðum þess er háttað.

Eg játa það, að ákvæði 1. greinar er nauðsynlegt, þ. e. að bankinn sé leystur undan þeirri skyldu, að leysa seðla sína inn með gulli, eins og eg einnig álít ákvæði 3. gr., um bann gegn sölu póstávísana til útlanda alveg óhjákvæmilega nauðsyn, þótt geysilegt óhagræði geti það bakað mörgum manni, nema bankarnir bregðist þá ekki og hlaupi undir bagga.

Að því er á hinn bóginn til ákvæðanna í 3. gr. frv. kemur, get eg ekki á nokkurn hátt fallist á þau, þar sem ekki má gleyma 50. gr. stjórnarskrárinnar, er farið er þó í beinan bága við. segja má að vísu, sem ástatt er, að eigi skorti hér það aðalskilyrði, að almenningsheill krefjist þessa ákvæðis, en 50. gr. stj.skr. segir og, eða setur það sem annað skilyrðið, að ekki megi skerða eignarrétt manna, nema fult endurgjald komi fyrir og fyrir slíku endurgjaldi gerir frv. alls ekki ráð, þó að hver maður eigi þó sannarlega heimtingu á því, að fá fé sitt út á þann hátt, sem um var samið í fyrstu, og augljóst sé tapið, er af því getur stafað, er það bregst.

Það, að landsstjórnin geti sagt, að svo og svo mikið megi menn heimta á viku hverri, og alls ekki meira, án þess að ætla mönnum þó endurgjald fyrir fjártjónið, er þeir þá bíða, það er því beint brot gegn ákvæðum 50. gr. stjórnarskrárinnar. Og þótt Danir hafi leyft sér að gera það sem rangt er, þá ætti það fremur að vera oss til viðvörunar en eftirbreytni.

Af framangreindum rökum, verð eg því að telja það nauðsyn, að grein þessi verði feld, enda vil eg geta þess, að það er alveg óvíst, hvort sparisjóðirnir óska þessarra heimilda, eða þurfa á henni að halda. Og ef svo er ekki, hvaða ástæða er þá til þess, að setja þessi ákvæði í óþökk þeirra, og mörgum til tjóns?

Eg er og í engum vafa um það, að ef eigendur í sparisjóðum leituðu til dómstólanna, þá gæti þeir ekki metið lögin gild, en yrði að virða þau að vettugi, sem farandi í beinan bága við stjórnarskrána.

Eg skal svo ekki fara fleirum orðum um málið, en óska því í heild sinni sem bezt byrs. En 3. greinina ætti að fella burt, og þinginu að mun sæmra að stuðla heldur að því, að landssjóðurinn hlypi undir bagga með sparisjóðunum, ef á þyrfti að halda, svo að þeir gæti borgað hverjum, sem óskar, inneign hans skilvíslega.