02.08.1914
Neðri deild: 30. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

107. mál, gullforði Íslandsbanka

Benedikt Sveinsson:

Þó að þetta sé l. umr., vil eg benda á eitt atriði viðvíkjandi 2. gr. frumv., þar sem talað er um að heimila landsstjórninni að banna póststjórninni að afgreiða póstávísanir til annarra landa. Þetta er vitanlega gert til þess, að koma í veg fyrir, að landssjóður þurfi að svara því fé til útlanda, er póstávísunum nemur. En landssjóði getur bakast sú skylda á annan hátt en með póstávísunum. Eftirkröfur geta einnig komið hér til greina. Það er orðið algengt, að menn panti vörur gegn eftirkröfu, og ef einhver höft verða nú á viðskiftunum, má telja líklegt, að menn geri meira að þessu en verið hefir. Á þenna hátt getur því safnast saman talsvert fé, er landsjóði ber að svara til útlanda. Eg veit reyndar ekki, hvort það muni nema svo miklu, að þörf sé á nokkrum ráðstöfunum gegn því. En eg tel þó rétt, að það sé tekið til athugunar, og þess vegna vildi eg benda nefndinni á það.