03.07.1914
Neðri deild: 2. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

113. mál, kosningar til Alþingis

Guðmundur Hannesson :

Eg get ekki áfelt stjórnina fyrir frumvarp þetta. Í þessu máli er um tvær stefnur að ræða: Önnur stefnan er sú, að hafa einmenningskjördæmi og að tala kjósenda, sem koma á á hvern þingmann, sé sem jöfnust. Þá stefnu hefir stjórnin tekið og er eg ánægður með það. Hefði hún ekki lagt það fyrir þingið í þessari mynd, þá er enginn vafi á því, að einhver þingmaður hefði tekið það upp.

Hin stefnan er sú, að fara eftir skipun sýslnanna, þessara gömlu héraða, eða jafnvel smáþjóða vil eg segja. Þessi stefna hefir einnig mikið til síns máls, vegna hinna mismunandi staðhátta. Þar sem eg þekki til, í Þingeyjar-, Eyjafjarðar-, Skagafjarðar- og Húnavatnasýslum, má nálega segja, að sýslubúar í hverri sýslu sé lítil þjóð fyrir sig, starfi og hugsi á sinn einkennilega hátt. Og stjórnin hefir einmitt líka tekið tillit til þessa í þeim héruðum, sem eg nefndi. Hvað þau snertir finst mér tillögur stjórnarinnar ekki óhyggilegar.

Um aðra landshluta get eg auðvitanlega ekki sagt, en það er ekki svo hættulegt, því að hér á þinginu höfum vér menn úr öllum héruðum landsins, sem kunnir eru kringumstæðum síns héraðs. Og þá er hægra að bæta úr því, sem athugavert þykir, en ef menn hefði þurft að taka málið frá byrjun og gera allar þær athuganir, sem stjórnin hefir gert.