03.07.1914
Neðri deild: 2. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

113. mál, kosningar til Alþingis

Magnús Kristjánsson:

Þetta frv. er, eins og kunnugt er, að nokkru leyti óhjákvæmileg afleiðing af stjórnarskrárbreytingunni, ef það frumv. verður samþykt.

Aftur á móti eru ýms atriði í frumvarpinu, sem ekki standa í svo nánu sambandi við stjórnarskrárbreytinguna og þá einkum ákvæðin um kjördæmaskiftinguna.

Eg verð að segja það, að mér finst vel farið, að þessar tillögur hafa komið fram, einkum þar sem mér finst það bæði rétt og sjálfsagt, að sú leið sé farin, sem stungið er upp á í frumvarpinu, nefnilega að taka bæði tillit til kjósendafjöldans og staðháttanna. Og eg skil það ekki, að mikill ágreiningur geti orðið um þetta, þegar menn hafa kynt sér málið nákvæmlega.

Þá tel eg ákvæðið um kosningaraðferð fjarverandi sjómanna mikils virði, og hvernig, sem um frumvarpið fer að öðru leyti, þá vona eg samt, að hægt verði að bjarga þessu ákvæði, svo að sá fjöldi manna, sem rétt hafa til þess að hafa áhrif á landsmál, verði ekki útundan.

Eg hefi athugað frumvarp þetta nægilega til þess að geta lýst yfir því, að eg get fallist á aðalatriði þess og það því fremur, sem það er í samræmi við yfirlýstan vilja kjósenda minna á þingmálafundi 21. júní síðastliðinn. Þar var samþykt tillaga, sem fór nákvæmlega í sömu átt og þetta frumvarp.

Það er ekki nema eðlilegt, að menn æski eftir einhverjum breytingum á frv. að því er kjördæmaskiftinguna snertir. En varhugavert tel eg að fara mikið út í það. Þegar breytt er á einum stað, er hætt við, að það geti raskað fleiru en til var ætlast. Eg álít því réttast og ákjósanlegast, að þeir háttv. þingmenn, sem agnúa finna á frumvarpinu, beri sig vandlega saman áður en þeir koma með stórvægilegar breytingar.

Þá er það eitt atriði, sem mig langar til að spyrja um. Það er viðvíkjandi seinni lið 1. gr. frumv. Mér virðist þetta ákvæði óþarft þegar litið er til núgildandi stjórnarskrár og 10. gr. frumvarpsins, sem nú liggur fyrir. Jafnframt vil eg geta þess, að eg hefi verið því mótfallinn að afnema með öllu útsvarsskyldu, sem skilyrði fyrir kosningarrétti.

Loks er það dálítil athugasemd viðvíkjandi 16. gr. frumv. Þar er gert ráð fyrir, að deyi einhver frambjóðenda til alþingis, þá megi nýr maður bjóða sig fram í hans stað, með styttri fresti, en hafa verði hann í tölu meðmælenda sinna helming af meðmælendum hins látna. Mér er ekki vel ljóst á hverju þetta er bygt.