30.07.1914
Neðri deild: 25. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

15. mál, sveitarstjórnarlög

Jón Jónsson :

Eins og háttv. þingmenn hafa sjálfsagt veitt eftirtekt, var háttv. þm. Strand. (M. P.) þetta frumv. upp í efri deild, og er þar farið fram á að breyta atkvæðisrétti sýslunefndaroddvita á sýslunefndarfundum. Það hefir nefnilega komið fyrir, að ágreiningur hefir orðið út af atkvæðisrétti sýslunefndaroddvitana. Hann hefir, eins og allir vita, atkvæðisrétt á sama hátt og aðrir sýslunefndarmenn, en auk þess hefir hann úrskurðarvald, þegar atkvæði verða jöfn. Úrskurðar stjórnarráðsins hefir verið leitað um það, hvernig beri að skilja þetta atriði laganna, og hljóðaði hann á þá leið, að þegar atkvæði væri jöfn á sýslunefndarfundum, réði sá helmingurinn úrslitum, sem sýslumaður fylgdi að málum. Þetta virðist mér ósanngjarnt og tíðkast ekki annarstaðar, að því er eg frekast veit. Breytingin sem gerð er með þessu frumvarpi er því að eins sú, að svifta sýslunefndaroddvita þessum tvöfalda atkvæðisrétti. Eftir frumvarpinu hefir sýslunefndaroddviti atkvæðisrétt eins og áður, eina og hver annar nefndarmaður, en missir réttinn til úrskurðar, ef atkvæði eru jöfn. Hér á afl atkvæða að ráða á fundum. Verður því mál talið fallið, ef atkvæði eru jöfn. Þetta virðist mér vera nauðsynlegt og hér er um fullkomið jafnrétti að ræða.

Eg vona því að þingið taki þessu frumvarpi vel, og vona að þeir sýslunefndaroddvitar, sem sæti eiga hér á þingi, leggi ekki stein í götu þess.