05.08.1914
Neðri deild: 35. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

51. mál, vegir

Guðmundur Hannesson:

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) spurði hver ætti að halda veginum við, ef hann yrði lagður niður sem sýsluvegur. Það er lögákveðið. Hann var afhentur héraðinu, þegar hann var lagður og þá er það blátt áfram skyldugt að halda honum við, og það spyr enginn að því, hvort hann sé sýsluvegur eða ekki. Hitt er annað, hvenær vegurinn verði lagður. Flutningabrautir sitja fyrir, eftir till. verkfræðings um það, hverjar fyrst skuli leggja, og þessi kemst sýnilega fljótt á.

Viðvíkjandi því, að þessi vegur liggi illa við og utarlega í jaðri Kjósarsýslu, er því til að svara, að það má skipa viðhaldinu svo, að það hvíli sem sanngjarnlegast á þeim, sem nota hann. En sé það óheppilegt að leggja á landssjóð viðhaldið á þjóðvegum og flutningabrautum í heild sinni, þá á það sérstaklega heima um þennan vegarspotta. Það væri margfalt skyldara að hjálpa ýmsum öðrum sveitum.

Það hefir verið kvartað yfir því, að þessi vegur lægi um fen og flóa, þar sem alt sykki niður, hve miklu sem dembt væri ofan í hann, en líkt er ástatt víða annarstaðar.