07.08.1914
Neðri deild: 37. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Flutningsm. (Einar Arnórsson):

Eg skal reyna að vera stuttorður, en eg verð þó að skýra háttv. deild frá, hvernig þetta mál er til komið.

Eins og kunnugt er, var fyrir nokkrum árum sú breyting gerð á skipulagi lærða skólans eða latínuskólana, eins og hann þá var kallaður, að grísku var algerlega útrýmt og latínunám takmarkað að miklum mun. Hér var þá uppi sú alda, runnin frá Danmörku og Noregi, að þessar fræðigreinir væri einskis virði eða að minsta kosti miklu minna virði en áður var talið. Eg get lýst því stuttlega, að í Danmörku vaknaði brátt hin mesta óánægja með þetta og sömuleiðis í Noregi. Margir helztu háskólamenn Norðmanna og Dana hafa risið upp og látið í ljós það álit sitt, að við þetta væri ekki unandi. Og nú hefir verið tekin upp frá rótum kensla í þessum málum við háskólann í Kaupmannahöfn, því að stúdentar þóttu tæplega hæfir til að taka við sérmentun vegna almenns þroskaleysis. Sama niðurstaða hefir orðið í Noregi. Guðfræðikennarar við háskólann í Kristjaníu hafa risið upp og heimtað grískukunnáttu af stúdentum, sem leggja stund á guðfræði, vegna þess að kenslu í guðfræði er svo háttað, að hún getur ekki farið fram svo að í nokkru lagi sé, ef stúdentar skilja ekki grísku. Eins og menn vita, er helzta trúarrit kristinna manna skrifað á grísku, nýja testamentið, og menn geta naumast myndað sér ákveðna, sjálfstæða skoðun á ýmsum deiluatriðum guðfræðinnar án þess að lesa frumheimildirnar, né yfirleitt komist til skilninga á kenningum kirkjunnar án grískukunnáttu.

Í vetur tók hið íslenzka stúdentafélag í Reykjavík þetta mál að sér og hafði reglugerð og skipulag hins almenna mentaskóla að umræðuefni á fundi sínum. Margir litu þá svo á, að kippa þyrfti skólanum að ýmsu leyti í sitt gamla far, og þá aðallega auka latínukensluna þar og jafnvel kenna grísku líka.

Með frumvarpi því, sem hér liggur fyrir, er þó ekki tilætlunin, að á skipulagi hans verði breyting gerð að sinni. En farið er fram á það, að hinum svokölluðu klassísku fræðum, latínu og grísku og þeim fræðum, sem í sambandi við þau standa, verði ekki með öllu rýmt burtu úr þessu landi, heldur verði þeim sem vilja gefinn kostur á að nema þau.

Eins og eg tók fram áðan, er grískukunnátta nauðsynleg til þess að viðunandi kensla geti farið fram í guðfræði. En það er svo um fleiri fræðigreinir en guðfræðina eina, því að öll hærri mentun er að meira eða minna leyti komin undir kunnáttu í latínu og grísku. Það er öllum kunnugt, að þess mál, og þau vísindi, sem í sambandi við þau standa, hafa verið aðal-leiðarstjarna heimamenningarinnar í 2000 ár. Þær þjóðir, sem þessi mál töluðu og rituðu, vóru um langt skeið öndvegisþjóðir heimsins. Grískur og latneskur skáldskapur og grískar og latneskar bókmentir eru sá brunnur, sem allir mentamenn hafa bergt af um margar aldir. Og á miðöldunum, og jafnvel fram á 19. öld, var alt það, sem nokkuð kvað að, skráð á latínu. Réttarmálið var latína, kirkjumálið var latína, og það mál, sem notað var í samböndum ríkja, var latína. Lærðir menn rituðu þá svo að segja eingöngu á latínu. Hver, sem kynna ætlar sér einhverja grein til nokkurrar hlítar, hvort sem er saga, guðfræði, lögfræði, málfræði eða náttúrufræði, hann verður að kunna eitthvað í latínu.

Eg skal að eins benda á nokkur atriði, sem snerta sögu, bókmentir og málfræði þessa lands. Eg veit það með rökum, að enginn maður getur til hlítar kynt sér sögu Íslands, ef hann kann ekki latínu. Menn þurfa ekki annað en að fletta upp á nokkrum stöðum í Fornbréfasafninu til að sannfærast um, að það er rétt sem eg segi. Mörg heimildarrit til sögu Íslands eru sakráð á latínu. Aðalritið, kirkjusaga Finns biskups, er skráð á latínu, og eg býst við, að stúdentar, eftir nýju reglugjörð Mentaskólans almenna, geti ekki lesið hana sér til gagna, og er það þó hart, að íslenzkur guðfræðingur geti ekki lesið aðalsögurit íslenzku kirkjunnar. Einhver þingmaður segir, að það muni vera erfitt fyrir eldri stúdenta líka. Eg les hana mér til fullra nytja, og eg býst ekki við að eg sé betri í latínu heldur en hver meðalmaður frv minni tíð. Enn má geta þess, að íslenzk málfræði er algerlega steypt eftir latneskri málfræði

Eg benti á það áðan, svo að eg víki aftur að guðfræðinni, hvað grískukunnátta væri nauðsynleg fyrir guðfræðinám. Latínukunnáttan er það engu síður. — Merkustu rit lútersku kirkjunnar eru auðvitað skráð á latínu, trúarjátningarnar, kirkjufeðurnir flestir, sumir þeirra rituðu á grísku, skráðu og rit sín á latneska tungu. Melankton, samverkamaður Lútera, skráði sín rit á latínu, og yfir höfuð eru öll helztu trúarrit lútersku kirkjunnar skráð á latínu.

Enn skal eg víkja að einu, sem stendur í sambandi við þetta. Sú hreyfing er nú uppi í Danmörku, að afnema Garðstyrk til íslenzkra stúdenta. Ef svo fer, að Garðstyrkurinn verði afnuminn, þá má ganga að því vísu, að íslenzkir stúdentar hætti að sækja Kaupmannahafnarháskóla, og þá rekur að því, að vér höfum ekki einn einasta mann til að kenna þessa litlu latínu, sem kend er hérna við mentaskólann. Sama er að segja um grískuna. Ef svo verður fyrir séð, að enginn maður hér á landi kunni grísku, þá getur enginn kent guðfræði.

Eg vil ennfremur árétta það, að með því að útrýma möguleikanum til þess að menn komist niður í þessum fræðigreinum, er að nokkru leyti raskað menningarsambandi voru við umheiminn, bæði í fortíð og nútíð. Í stóru menningarlöndunum halda menn trygð við þessi mál. Bæði í Englandi og Frakklandi hafa risið upp félög til að vernda þessar fræðigreinir. Í þessum félögum eru ekki eingöngu málfræðingar, síður en svo. Í þeim eru menn, sem stunda hin svo kölluðu reynsluvísindi, atferðfræði, náttúrufræði, kennarar við landbúnaðarskóla o. s. frv. Það eru heldur ekki málfræðingar einir, sem halda þessum málum fram í Danmörku. Einn af helztu málsvörum þeirra þar er t. d. Rovring prófessor í læknisfræði, og mér er líka kunnugt um, að helztu lagamenn í Danmörku hafa risið upp og sýnt fram á, hversu ótækt það er, að leggja niður kenslu í þessum fræðigreinum.

Eg skal nú ekki þreyta háttv. deildarmenn með lengri ræðu. En eg vona að þetta mál fái að ganga nefndarlaust í gegnum deildina.