08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Sigurður Sigurðsson :

Eg vil ekki að þetta frumvarp gangi svo í gegnum deildina, að því sé ekki andmælt. Að vísu býst eg ekki við því, eftir atkv.gr. um málið hér í deildinni síðast, að andmæli hafi mikið að þýða, en mér finst þó ekki nema rétt að vér, sem erum á móti frv., látum í ljós óánægju vora með það.

Eg skal nú engan dóm leggja á það, hversu nauðsynlegt það kann að vera vegna fornmálanna, að stofna þetta nýja embætti við Háskólann. En mér datt í hug, út af því sem háttv. aðalflutningsmaður sagði í gær, þegar hann var að tala um, að þetta væri nauðsynlegt vegna þess, hve mönnum færi aftur í latínu- og grískukunnáttu hér, við breytingu þá, er gerð var á reglugjörð Mentaskólans, þar sem kenslan í þessum málum var mjög takmörkuð, hvort ekki væri þá gerlegt eða jafnvel betra, að breyta aftur reglugerð skólans, og taka upp kenslu í grísku og auka kensluna í latínu. Ef það ráð yrði tekið, mætti að sjálfsögðu spara sér að búa til þennan nýja kennarastól við háskólann. Þetta myndi reynast einfaldara og kostnaðarminna, því að eg geri ráð fyrir, að einhverjir kennara þeirra, sem nú eru við Mentaskólann, tæki að sér þessa kenslu, án sérstakrar borgunar. Annað gæti líka komið til mála, og það væri, að kennurum þeim, sem nú eru við Háskólann, væri falið, án launahækkunar, að halda fyrirlestra í þessum greinum, þeim sem færastir eru um það, og gæti þá nemendur Háskólans og piltar úr efstu bekkjum Mentaskólans, notið þeirrar fræðslu. Á þessu sést, að eg er ekki á móti því, að viðhalda kunnáttu í grísku og latínu, ef það er svo nauðsynlegt, sem af er látið og þeir menn halda fram, er færir eru um að dæma um þá hluti, svo sem er um háttv. samþingismann minn o. fl. En hins vegar hygg eg ekki, að það sé sérlega aðkallandi að fara nú á ný að auka kensluna í þessum málum, og vegna þess get eg alls ekki gengið inn á það, að fara að stofna nýtt embætti til þess á þessu þingi. Það hefir verið talað mikið um það hér, að spara sem mest útgjöld landssjóðs, og það jafnvel, þótt til nauðsynlegra framkvæmda sé. Og eg lít svo á, að þessir tímar, sem standa yfir, sé allra sízt lagaðir til þess að stofna til nýrra embætta. Og það líta nú margir fleiri en eg svo á, að þetta embætti sé ekki aðkallandi, hvað sem líður nauðsyninni á því, að halda við kunnáttu manna í þessum málum.

Eg endurtek það, að það er lítil von um það, að þetta mál verði felt. En eg get ekki látið vera að lýsa því yfir, að þetta mál ætti ekki að fara lengra, eða að minsta kosti mætti það bíða næsta þings.