08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Matthías Ólafsson ; Af því að eg hefi haft þá skoðun, að afnám grísku og latínukenslu sé til skaða fyrir mentalíf vor Íslendinga, en eg hins vegar býst við að greiða atkvæði móti þessu frv., þá ætla eg að segja nokkur orð.

Eg álít, að þetta mál sé ekki vel undir búið. Mér lízt ekki á þetta, að gera fyrst á Háskólanum byrjunina til virkilegrar undirbúningskenslu í þessum greinum. Hvaða gagn er að því, ef þangað koma menn, sem ekkert vita í þeim?

Það er á hvers manns vitorði, að kensla sú, er námsmenn fá nú í Mentaskólanum í fornmálum, er ónóg til að geta bygt á frekara nám, því nær hverja fræðigrein, sem þeir ætla að stunda.

Það er því aukning undirstöðukenslunnar, sem hafa þarf fyrir augum og hún á að fara fram í Mentaskólanum, en ekki í Háskólanum. Háskólinn á að veita fullnaðarnám, svo í þessari grein sem öðrum. Eigi þessi kensla að fara fram á Háskólanum, því nær frá byrjun og til fullnaðarnáms, þá mætti á sama hátt nema burtu undirstöðukensluna í yngri málunum og fyrst fara að kenna þau í Háskólanum, en það ætti ekki að þurfa að eyða orðum að, hve heimskulegt slíkt væri.

Eg er samdóma háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) um það, að það sé betra að auka kensluna í fornmálunum við Mentaskólann, en að stofna þennan nýja kennarastól. Það væri leitt að láta dósentinn þar sitja yfir tómum byrjendum. Eg álít því, að það fyrsta, sem ætti að gera, væri að taka upp aftur meiri kenslu í fornmálunum við Mentaskólann, og til þess eru fjöldamargir færir af þeim, sem nú kenna við þann skóla. Ef það væri gert, þá yrði ef til vill seinna tími kominn til þess, að veita stúdentum framhaldskenslu við Háskólann.