10.08.1914
Neðri deild: 39. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (625)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Eggert Pálsson: Mig stórfurðaði á því þegar þetta mál kom fyrst fyrir þessa háttv. deild, hve góðar undirtektir það fekk. Það var samþykt hér við 2. umr. með 17:8 atkv. Mig furðaði því meir á þessu, þar sem á aðra hlið er sífelt verið að tala um það á þingmálafundum, að forðast beri að stofna óþarfa embætti, og á hina hliðina lofa frambjóðendurnir svo að segja hver í kapp við annan, að gera það ekkí. Til þess vitanlega að ná hylli og atkvæðum kjósendanna. En jafnskjótt sem fitjað er upp á því hér á alþingi, að stofna eitthvert embætti, þá er sem öll loforð sé að vettugi virt. En af öllum nýjum embættum, sem stofnuð hafa verið á síðari árum, þá tel eg þetta einna óþarfast. Mig mundi að vísu ekki furða svo mjög á því, þótt einstöku þingmenn léti til leiðast að greiða þessu frumvarpi atkvæði sitt, sem sé þeir, sem lagt hafa sjálfir stund á klassísk fræði. Það er skiljanlegt, að þeir geti gert það af nokkurs konar ræktarsemi til þeirra fræða. En eg skil ekki, hvernig hinir, sem ekkert þekkja til klassiskra fræða, fara að greiða frumv. atkvæði sitt. Eg hefi enn ekki heyrt neina frambærilega ástæðu eða nógu sterka fyrir því, að nauðsynlegt sé að stofna þetta embætti.

Það eru aðallega tvær ástæður, sem komið hefir verið fram með, en hvorug að mínu áliti nógu sterk eða veigamikil. Önnur ástæðan er sú, að guðfræðisnemum við Háskólann væri alveg ónógt, að kunna svo lítið í grísku, sem nú á sér stað með stúdenta. Það mun hafa verið einn af kennurunum við háskólann í guðfræði, sem fyrstur vakti máls á þessu og það má vera, að einhver fótur sé fyrir þessari ástæðu. En það má vitanlega greiða úr þessum annmarka með miklu minni tilkostnaði, en hér er farið fram á. Það þarf ekki annað, en að gefa þeim nemendum við Mentaskólann, sem ætla að leggja stund á guðfræði, kost á aukakenslu í grísku við sjálfan Mentaskólann, með því að veita til slíkrar aukakenslu ofurlítinn styrk í fjárlögunum, svo sem 2–3 hundruð kr. Þar með væri alt fengið, hvað þetta atriði snertir.

Hin ástæðan er sú, að innan skamms muni reka að því, að kennara vanti til að kenna klassísk fræði við Mentaskólann. En þessu er engin ástæða til að kvíða enn sem komið er. Það eru fleiri en einn og fleiri en tveir af kennurum Mentaskólans, sem vel geta kent þau fræði viðunandi, og auk þess munu vera til menu í Hafnarháskóla, sem leggja stund á þessi fræði og geta tekið við, þá er kennarar mentaskólans, sem nú eru í þessum fræðum, falla frá. Þessi ástæða er því ekki heldur frambærileg. Hvorug af þessum ástæðum er því nógu sterk til að sannfæra mig um, að nauðsyn sé á að stofna þetta embætti, og því síður nú á aukaþinginu, þegar verið er að gefa í skyn, að menn vilji forðast öll aukin útgjöld.

Í þessu máli ber ennfremur að líta á það, hvort nokkur sá maður sé til hér á landi, sem fær sé um að kenna þessi fræði við háskóla vorn, svo meira sé en nafnið tómt. Mér er sagt það eftir merkum manni, sem er álitinn einhver færasti maður í þeim fræðum hér á landi, að hann teldi sig sjálfan tæplega færan um að setjast í það sæti. Það er prófessor Björn M. Ólsen. Ef hann þykist ekki fær um það, þá má nærri geta, hvort aðrir sé það fremur.

Ef Háskólinn á á annað borð að hafa kennarastól í þessum fræðum, þá þarf líka að vera til maður, sem fylt geti út í sætið, því að ekki er alt fengið með nafninu einu. Sætið þarf að vera svo vel skipað, að orðstír fari af, því að ella mun ásannast gamla máltækið, að betra er autt rúm en illa skipað.

Svo er enn á það að líta, að ef stofnaður er nýr kennarastóll, eða ef til vill margir fleiri kennarastólar við háskólann, þá þarf sýnilega að byggja nýtt hús handa honum. Með því lagi getur hann aldrei rúmast til lengdar í þessu húsi. Og má þá segja, að allmikinn dilk dragi þessi embættisstofnun á eftir sér, ef að því ræki máske á næsta þingi, að byggja þyrfti nýtt og vandað skrauthýsi til þess að koma þessum og öðrum kennarastólum háskólans fyrir í.

Það mun að vísu ekki hafa mikið að segja að mæla á móti þessu frumvarpi. Háttv. þm. munu vera einráðnir í að láta það ná fram að ganga. En eg vildi þó taka þetta fram, til þess að það sjáist svart á hvítu, að þessari óþörfu embættisstofnun hafi verið alvarlega mótmælt hér á þingi. Eg vil einnig leyfa mér að biðja um að haft sé nafnakall við atkvæðagreiðsluna, svo það sjáist greinilega, hverir það eru, sem vilja standa við orð sín um það, að fjölga ekki óþarfa embættum, og hverir ekki.