03.07.1914
Neðri deild: 2. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

79. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Ráðherra (H. H.):

Ástæðan til þess að stjórnin hefir þótzt neydd til að koma fram með frumvarp þetta, er aðallega nú, að svo er ákveðið í samningi hennar við Bergenska gufuskipafélagið, að félaginu er því aðeins skylt að láta skip sín koma við á höfnum við Húnaflóa þegar dimma fer nótt, að vitalýsing sé þar nægileg. Eins og menn vita, þurfa skipin að flýta ferðum sínum, svo að þau hafa ekki tíma til að bíða af sér allar nætur. Vitafræðingur hefir athugað og gert áætlun um kostnaðinn, og hefi eg síðan heyrt, að ef til vill þurfi nokkru meira fé, en áætlað var (13,604 kr.). Með því að hér er um nauðsynjamál að ræða fyrir stórt hérað, hafði eg von um að háttv. þing myndi taka vel í þetta, svo að vitinn yrði reistur þegar í sumar, enda hafa þegar verið gerðar nokkrar ráðstafanir til þess, viðvíkjandi efni o. fl. Og úr því fjáraukalagafrumvarp var lagt fram á annað borð, þótti stjórninni rétt að bæta hér við tillögu um nokkrar aðrar fjárveitingar, sem sjá má í frumv. og vísa eg til hinna prentuðu athugasemda við frumvarpið þar að lútandi.

En til þess að gera nokkra grein fyrir því, að fjárhagsins vegna ætti ekki að þurfa að fresta nauðsynlegum fjárveitingum til næsta þings, vil eg leyfa mér að gefa stutt yfirlit yfir það, hvernig síðastliðnu fjárhagatímabili reiddi af. Að vísu er ekki búið að ganga frá landsreikningnum fyrir árið 1913, en eg hefi hér þó fyrir mér yfirlit frá fjármálaskrifstofunni, sem byggja má á í öllu verulegu.

Yfirleitt má segja að miklu betur hafi ræzt úr, en á horfðist. Eina og menn muna, var gert ráð fyrir miklum tekjuhalla á fjárhagstímabilinu 1912–1913. Tekjurnar vóru áætlaðar 2,887,400 kr., en gjöldin 3,333,567 kr. 34 aura, og tekjuhallinn þá nær hálf miljón króna, eða 446,167 kr. 34 aurar. En nú hefir farið svo, að tekjurnar urðu, bæði árin samtala 4,398,592 kr., þ. e. 1,511,192 kr. — eða nær hálfri annari milj. kr. hærri, en við var búist. Að vísu fóru gjöldin 732,061 kr. fram úr áætlun fjárlaganna, en þegar það er dregið frá tekjuaukanum, verða samt eftir 779,131 kr., og sé hinn áætlaði tekjuhalli dreginn frá því, þá verða þó enn eftir kr. 332,964, sem er hreinn tekjuafgangur, og ætti því að vera óhætt að veita það sem farið er fram á í þessu frumvarpi.

Þessar miklu tekjur umfram áætlun stafa nær eingöngu af því, að skatttekjurnar hafa reynst meiri en við var búist. Þær tekjur hafa farið nær 1,400,000 kr. fram úr áætlun á fjárhagstímabilinu. Þannig hefir kaffi- og sykurtollur farið fullar 220.000 kr. fram úr áætlun, símatekjur sömuleiðis um 140.000 kr., áfengistollur um 137.000 kr., pósttekjur yfir 120.000 kr., tóbakstollur um nær 110.000 kr., vitagjaldið undir 60.000 kr. og aukatekjur um liðug 40.000 krónur, o. s. frv. — Flest alt hefir farið meira eða minna fram úr áætlun. En af því fé, sem út hefir verið borgað umfram það, er veitt er á fjárlögunum ber fyrst að nefna það, sem greitt hefir verið samkvæmt fjáraukalögum og nýjum lögum, hátt á 3. hundrað þúsunda, rentur og afborganir af lánum, sem ekki er tilfært til gjalda í fjárlögunum, yfir 200 þúsundir, alþingiskostnaður yfir 60 þúsundir, til kaupa á bæjarsíma Reykjavíkur, sem lánsheimild er fyrir, yfir 70 þúsundir kr. o. s. frv. Sé lánsheimildin til Reykjavíkursímans notuð, verður tekjuafgangur þeim mun meiri.

Þetta læt eg nægja til þess að sýna, að fjárhagsins vegna þarf ekki að vísa þessu frumvarpi á bug, né kveinka sér við að flýta þeim gjöldum um eitt ár, er það fer fram á.