08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

113. mál, kosningar til Alþingis

Sveinn Björnsson:

Eg skal strax taka það fram, að eina stórbreytingu, sem nefndin hefir gert á frumv., að skilja frá atkvæðagreiðslu sjómanna og annarra fjarstaddra manna, tel eg mjög heppilega ráðstöfun og felst fyllilega á hana. En hina aðalbreytinguna, að fella niður 7. gr., get eg ekki með neinu móti fallist á.

Eg bjóst við því, að meiri hl. nefndarinnar myndi í nefndarálitinu, og svo enn betur í framsögunni, gera grein fyrir því, hvers vegna hann gat ekki séð sér fært að fallast á uppástungu stjórnarfrumvarpsins. Það sem felst í uppástungu stjórnarfrumv. er tvent, fyrst

að koma allsstaðar á einmenningskjördæmi og í öðru lagi það, að koma því til vegar, að á bak við hvern þingmann standi sem jöfnust tala kjósenda.

Nefndin kannast við, að það sé í sjálfu sér eðlilegt að lögleiða einmenningskjördæmi, og fer um það þessum orðum:

»Sú skipun sýnist í sjálfu sér vera eðlileg, en nefndin lítur svo á, að eigi sé tímabært nú að samþykkja slíka breytingu, vegna þess, að málið hefir varla fengið nægilegan undirbúning«.

Þetta er alt og sumt, sem meiri hl. nefndarinnar segir um þetta atriði. Háttv. framsögum. minni hl. víkur að því í nefndaráliti sínu, að þetta sé ekki rétt, og hann hefir líka með rökum bent á það í ræðu sinni hér í deildinni, að málið hefði fengið mikinn undirbúning, þar sem það hefði legið fyrir svo að segja hverju þingi síðan á aldamótum. Nefndirnar, sem á fyrri þingum hafa um málið fjallað, hafa altaf lýst því yfir sem sinni skoðun, að landinu bæri að skifta í einmenningakjördæmi. 1912 var leitað undirtekta sýslunefnda og bæjarstjórna um þetta mál, og létu þær það álit sitt uppi, að rétt væri að koma á einmenningskjördæmum sem allra fyrst.

Þetta er meiri undirbúningur en flest mál hafa fengið, sem gengið hafa gegn um þingið. Það er því á alls engum rökum bygt hjá nefndinni, að málið hafi ekki fengið nægilegan undirbúning. Eg vil benda á, að þegar þær breytingar vóru samþyktar, sem nú er ætlast til að verði gerðar á stjórnarakránni, virðist það hafa vakað fyrir alþingi, að þá þegar, er þær breytingar gengi í gildi, skyldi koma á einmenningskjördæmum. Þar er gert ráð fyrir, að 34 þingmenn skuli kosnir óhlutbundnum kosningum á sérstökum kjördæmum. Þetta er sá undirbúningur, sem það atriði hefir fengið hjá þingi og þjóð.

Til frekara hagræðis hefir stjórnin látið prenta skýrslu um fólksfjölda með frumv. sínu, og hefir nefndin þannig haft greiðan aðgang að því að athuga sérstaklega, hvernig einmenniskjördæmaskiftingin kæmi niður eftir íbúatölu sýslna og hreppa. Ef nefndin hefir þrátt fyrir þetta ekki álitið málið nægilega undirbúið, þá hefði hún sjálf átt að geta bætt við, því sem upp á vantaði. Nefndin var skipuð 7 mönnum og hefir setið yfir frumv. í fullar 5 vikur, og þann tíma allan hefir hún ekki haft mikið annríki við önnur störf. Þetta var aðalatriði þessa frv., sem hún hafði til meðferðar, og hefði hún að sjálfsögðu átt að leggja mesta rækt við það. En í þess stað afgreiðir hún málið með einu feitu striki, sem heitir ótímabært og óundirbúið.

Það er eftirtektarvert að líta í, hvað meiri hl. segir um það að skifta þm. á kjördæmin eftir höfðatölu. Nefndin felst á það, að sumum kjördæmum beri fleiri þm. en þau hafa núna, en samt vill hún ekki veita þeim þennan rétt, án þess að tilfæra glöggar ástæður fyrir því, hversvegna hún vill ekki veita réttinn. Hún fer í kring um spursmálin eins og köttur í kringum heitan graut. Svona eru vinnubrögð nefndarinnar. Hún segir að ástæðan á. móti þessari grundvallarreglu, að miða kjördæmin við höfðatölu, sé sú, að hún sé óframkvæmanleg, ef fylgja eigi höfðatölunni út í æsar. Það er alveg óþarfi af nefndinni að vera að taka þetta fram í sambandi við frumv. það, er fyrir nefndinni lá, því að höfðatalan var ekki lögð til grundvallar í frumv. stjórnarinnar. Þar var tekið svo mikið tillit til mismunandi ástands kjördæmanna, að talsvert misrétti var eftir, miðað við skiftingu eftir höfðatölu, þótt tillögur stjórnarinnar hefði verið samþyktar. Því fer fjarri, að 7. gr. hafi verið bygð á þessum grundvelli eingöngu, svo að það, að færa þessa ástæðu gegn því, hvernig höfðatölureglan er framkvæmd í frumv. stjórnarinnar, er alveg gripið úr lausu lofti. Það virðist svo, sem nefndin hafi ekki haft neinn tíma til bollalegginga, því að hún fer á hundavaði yfir alt spursmálið og strikar svo greinina út með breiðu striki, án þess að rannsaka nokkuð, hvort réttlæti liggi ekkí á bak við.

Þá er eitthvað loðið við þá röksemdaleiðslu nefndarinnar, »að það virðist ekki, að þjóðarviljinn hafi krafist stórfeldra breytinga í þessu máli«. Þetta er alveg rangt. Kosningarrétturinn er mikilsverð réttindi, sem menn eru altaf að læra að meta meir og meir. Sú skoðun hefir rutt sér æ meir til rúma, að þetta séu »almenn mannréttindi«, sem hver maður eigi heimting á að njóta, hvort sem hann er karl eða kona, ríkur eða fátækur, húsbóndi eða þjónn. Það er jafnréttishugmyndin, sem liggur á bak við þessa skoðun.

Í hinni nýju stjórnarskrá er stefnan ákveðin sú, að innleiða þetta jafnrétti. Skattgreiðsluskilyrðið er numið burt, kynferðismismunur kemur ekki til greina og hjúin fá jafnan rétt og húsbóndinn í þessu efni. Mér virðist nú, að maður hafi leyfi til þess að ætla það, að eitthvað annað liggi bak við hjá þeim mönnum, er þetta hafa samþykt, en orðin tóm — að það sé hugsjón, sem þeim væri ekki alveg sama um. Það væri að gera oflítið úr háttv. alþingismönnum að ætla, að þeir hafi ekkert meint með þessu. Þessi hugsjón hefir tvisvar sinnum áður fengið mikinn meiri hluta þm. með sér og tvisvar verið fallist á hana af þjóðinni. Hvernig ætla þessir sömu menn nú að halda því fram, að það sé samrýmanlegt þessari jafnréttisgrundvallarreglu, sem þing og þjóð hefir svo ákveðið hallast að, að 7 menn hafi minni rétt í þessu efni en einn maður?

Það verður eigi með rökum sýnt fram á það, að eðlilegt sé að kosningarétturinn sé annað fyrir menn á einum stað á landinu en öðrum. Að menn eigi að missa af almennum mannréttindum, ef þeir flytji úr einum stað í annan. Rétturinn á að vera einn og sami og óbreytilegur fyrir hvern einstakling, eða svo nálægt þessu, sem komist verður.

Það væri hróplegt ranglæti og blettur á alþingi, ef það kipti ekki þessu misrétti, sem nú á sér stað, í burtu, um leið og það er að framfylgja fullu jafnrétti um kosningar, án tillits til stöðu eða kyns, með því að samþykkja stjórnarskrárbreytingarnar, sem nú liggja fyrir. Menn segja, að þetta mál sé eigi nógu vel undirbúið. Eg verð að segja það, að athugasemdir stjórnarinnar við frv. sýna, að málið hefir verið talsvert undirbúið. Og þótt undirbúningi málsins hefði að einhverju leyti verið eitthvað ábótavant, þá hefði það ekki verið ofætlun nefndinni, sem setið hefir svona lengi að störfum sínum, að kippa því í lag. Og réttara hefði verið að taka frumv. heldur. nú strax, þótt það á einhvern hátt væri ófullkomið — með það fyrir augum að kippa þessu eldgamla misrétti í lag að einhverju leyti (Einar Arnórsson: Þetta er kjósendaræða). Þetta er talað fyrir alla kjósendur í landinu. Það er óforsvaranlegt að þola þetta misrétti lengur.

Það hefir verið fært fram sem ástæða móti frumv., að sýslumörkin, sem nú eru, sé svo eðlileg, samsýslungar verði vegna sameiginlegra hagsmuna að hafa þm. fyrir sig. En gagnvart jafnréttisástæðunni gildir þessi mótbára ekki. Og ef dregin væri rökrétt ályktun út frá þessari hugsun, þó, leiddi það til þess, að t. d. Grímsey ætti að vera sérstakt kjördæmi. Eg vænti þess því, að háttv. deild athugi þetta mál með alvöru og sjái; að rangt er að fella burt 1. gr., einkum vegna hins nána sambands, sem málið stendur í við stjórnarskrárbreytinguna. Þegar verið er að innleiða jafnréttishugmyndina þar, þá lítur svo út, sem þingið sé að leika einhvern skrípaleik, ef það jafnframt löghelgar þetta hróplega misrétti, sem gerir það að verkum, að þótt í stjórnarskránni standi, að rétturinn skuli vera einn og sami fyrir alla, þá verður hann sjö sinnum minni fyrir suma en fyrir aðra.