23.07.1914
Neðri deild: 19. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

79. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Framsögum. (Pétur Jónsson):

Eg finn ekki ástæðu til að ræða þetta mikið nú við framhald 1. umr. Hér er ekki um neitt stórmál að tefla. Að eins vil eg taka það fram; að nefndin hefir viljað fara sem allra skemst í að auka útgjöldin.

Nefndinni hafa borist ýms erindi, en hún hefir yfir höfuð viljað útiloka alt, sem kom frá einstökum kjördæmum, af því að hún bjóst við að ef eitthvað af því yrði tekið til greina, gæti það orðið til þess að. auka keppni meðal þingmanna. Svo hefir og nefndinni virzt, að fæst af því, sem henni hefir borist, hefði við svo brýna og óhjákvæmilega nauðsyn að styðjast, að ekki væri fært að hafna því að sinni.

Þá skal eg stuttlega minnast á það helzta, sem nefndin sá sér ekki fært að ganga fram hjá.

Það er þá fyrst Heilsuhælið á Vífilsstöðum. Nefndinni virtist óhjákvæmilegt að veita því 20,000 kr. styrk, til að standast nauðsynlegustu útgjöld, svo framarlega sem heilsuhælinu á ekki að vera lokað áður en næsta þing kemur saman.

Þá hefir nefndin lagt til að hækka lánsheimild til kornforðabúra um 5000 kr. hvort árið. Verður að teljast óhjákvæmilegt að hafa eitthvað til varnar, ef fóðurvandræði skyldi að höndum bera næsta vetur.

Viðvíkjandi verkamiðjunni Gefjun á Akureyri hefir nefndin fallist á að leggja til, að afborgunarskilmálum af láni hennar sé breytt. Eg skal benda á, að málaleitun um þetta hefir ekki komið frá þingm. Eyf. og ekki heldur frá þingm. Ak., en nefndinni sýndist rétt að taka þessa málaleitun til greina af því að henni virtist þessir hörðu afborgunarskilmálar vera verksmiðjunni um megn.

Hin önnur erindi, sem nefndin hefir tekið til greina, hafa komið beint frá stjórninni.

Svo vil eg minnast lítið eitt á þau erindi, sem nefndin hefir ekki séð sér fært að taka til greina. Nefndin hefir látið prenta þau upp, eins og til að kvitta fyrir móttöku þeirra, svo að það sæist, að hlutaðeigendur hefði skilað þeim á réttan stað. Eg skal að eins drepa á örfá þessara erinda. T. d. barst nefndinni erindi um, að Arnarnesviti yrði gerður að blossavita, og ennfremur málaleitun um, að viti yrði bygður á Norðfjarðarhorni fyrir austan. Nefndin gat ekki tekið þessar málaleitanir til greina af því, auk þess sem áður er fram tekið, að frá hálfu vitastjórana lá ekkert fyrir þar að lútandi, en án þess telur nefndin ekki rétt að sinna þess konar erindum.

Þá barst nefndinni umsókn frá Magnúsi skipasmið Guðmundssyni um styrk til utanferðar, til þess að fullkomna sig í bátasmíð.

Ef um reglulegt fjárlagaþing hefði verið að ræða, myndi nefndin hafa haft löngun til að veita þennan styrk, en eins og á stendur lítur nefndin svo á, að það væri vel til fallið, að þessi maður fengi styrk af því fé, sem stjórnarráðið hefir til umráða, til að styrkja iðnnema til utanfarar. Þessa vildi nefndin láta getið, þótt hún sæi sér ekki fært að leggja til, að þessi styrkur yrði tekinn upp í fjáraukalögin.

Þá skal eg minnast á erindi um lánveitingu til læknisseturs í Búðardal. Nefndin sá sér heldur ekki fært að taka það til greina, bæði af þeim ástæðum, sem eg hefi áður tekið fram, og líka af því, að slíkar lánveitingaheimildir hafa aldrei verið teknar upp í fjáraukalög. Nefndin hefir litið svo á, að stjórnin hefði heimild til að lána fé gegn fullri tryggingu, til að koma upp embættisbústöðum. Sú heimild er ekki afnumin enn. Að öðru leyti get eg, fyrir hönd nefndarinnar, látið það í ljós, að þessi upphæð, sem hér er farið fram á, 7 þús. kr., þykir nokkuð há.

Loks vil eg minnast á, að nefndinni barst erindi, flutt af háttv. þm. Borgf. (Hj. Sn.), viðvíkjandi vegi í Skilmannahreppi. Eg skal láta þess getið, að þrátt fyrir það þótt hann hefði margar áskoranir hér að lútandi og teldi þetta mikið nauðsynjamál, vildi hann þó ekki gera það að kappsmáli í nefndinni. Bendi eg mönnum á þetta til eftirdæmis, og til að sýna hve fastar skorður nefndin setti sér.

Eg hefi svo ekki fleira að segja að sinni. Eg vona að háttv. þm. komi ekki fram með margar brt. og leggi engar hindranir í veginn fyrir framgang þessa frv.