23.07.1914
Neðri deild: 19. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

79. mál, fjáraukalög 1914 og 1915

Bjarni Jónsson :

Eg sendi nefndinni ekki nema eina málaleitun Dalamanna, þessa, sem háttv. framsögum. (P. J.) mintist á, um 7 þús. kr. lánveitingarheimild til þess að byggja yfir lækni í Búðardal.

Eg get verið nefndinni þakklátur fyrir þann skilning hennar, að stjórnin hafi heimild til að veita slík lán, en það hefði þó aldrei getað gert stjórninni neinn ama, þó að það hefði verið heimilað hér sérstaklega. Mér sýnist ekki nema loflegur áhugi nefndarinnar á að gæta buddu landssjóðs, en úr því að hún fór svona með mína tillögu, þá mun eg lofa hennar till. að fara sama veg. Það getur verið eins hættulegt að veita Heilsuhælinu styrk og þeim öðrum, sem nefndin mælir með, eins og að veita þessa lánsheimild, sem landssjóður getur aldrei tapað einum eyri á. Eg vona því að nefndin taki það ekki illa upp fyrir mér, þótt eg sýni mitt þakklæti í verkinu.