04.07.1914
Neðri deild: 3. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (650)

75. mál, sparisjóðir

Ráðherra (H. H.):

Eins og menn muna, hafði þingið í fyrra til meðferðar frumvarp frá stjórninni um sparisjóði. Var það samþykt í Ed. og hér í deildinni við 2 umræður, en féll við 3. umr. með litlum atkvæðumun, og sést það á umræðunum, að ýmsir þingmenn í þessari deild, sem greiddu atkvæði móti frumv. við nafnakall, gerðu það sökum þess, að því hafði verið breytt í einu verulegu atriði frá því er stjórnin hafði lagt til. Öllum kom saman um það, að mikil þörf væri á lagasetningu um eftirlit með sparisjóðum, þótt ekki kæmi mönnum saman um það, hvernig eftirlitinu skyldi hagað. Þess vegna taldi stjórnin sér skylt að leggja frumv. aftur fyrir þingið, og leggja það fram fyrst í þessari deild, þar sem málið var hér síðast til meðferðar. Stjórnin hefir tekið til greina allar breytingar, sem gerðar vóru á síðasta þingi, nema ákvæðin um eftirlitamanninn. Stjórnin heldur fast við þá skoðun, að meiri líkur sé til, að eftirlitið verði tryggara, sjálfu sér samkvæmara og óhlutdrægara hjá einum manni, heldur en að skipaður væri eftirlitamaður á staðnum við hvern sparisjóð. Með því móti virðist tryggingin engu meiri en með eftirliti hinna föstu endurskoðenda á staðnum, og kostnaðurinn yrði vísast meiri, en ekki minni.

Að öðru leyti skírskotast til athugasemdanna, sem prentaðar eru með frumvarpinu.