04.07.1914
Neðri deild: 3. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

75. mál, sparisjóðir

Benedikt Sveinsson:

Engi vafi er á því, að slík lög, sem þessi, eru hin mesta nauðsyn. Það má telja það fremur hepni, eins og vikið er á í athugasemdunum við frumvarpið, að sparisjóðirnir skuli ekki hafa orðið fyrir slysum eða skellum, svo hefir eftirlitið verið lítilfjörlegt. Og því meira fé, sem safnast í sparisjóðina, því meiri er hættan og meiri nauðsynin, að eftirlitið sé svo trygt, sem ástæður leyfa. Mönnum er það kunnugt, að hagur ýmsra sparisjóða er ískyggilegur, og stjórnin segir í athugasemd við frumv., að þótt eftirlitið yrði bætt, mundi tæplega hægt að girða fyrir það, að sjóðirnir hlyti skell af lánum, sem illa væri trygð. Nú vita menn það, að sparisjóðir til sveita eiga oft örðugt uppdráttar, geta ekki lagt í mikinn kostnað, né heldur verður því ætíð viðkomið, að tveir menn úr stjórninni, formaður og gjaldkeri, sé viðstaddir. Eg er því hræddur um, að örðugt þyki að framkvæma þær fyrirskipanir, sem stjórnin hefir sett í frumvarpið um þetta atriði. Mér hefir nú komið til hugar, hvort ekki mætti koma tryggingunni betur fyrir en hér er gert með sparisjóðafyrirkomulaginu. Á Englandi hafa tíðkast um 100 ár póstsparisjóðir, þannig, að menn leggja fé eitt inn í póststofurnar gegn kvittan, og er þá féð komið í vörzlur og ábyrgð hina opinbera. Þetta hefir og lengi átt sér stað í Canada og var fyrir 5 árum tekið upp í Bandaríkjunum. Með þessum hætti er innstæðueigöndum trygt fé sitt og gert hægt fyrir að koma því á vöxtu. Það eitt kann mönnum að þykja varhugavert við þetta fyrirkomulag, að örðugra er að ná fénu skjótlega út úr sjóðunum aftur. En þegar þess er gætt, að venjulega er fé lagt í sparisjóði til geymslu um nokkuð langan tíma, þá ætti þetta ekki að verða til mikilla óþæginda. Þau vega að minsta kosti ekki á móti þeim mikla kosti, að vita innstæðufé sitt algerlega trygt. Menn hafa tekið eftir því í Vesturheimi, að fólk hefir safnað miklu meira fé síðan póstsparisjóðirnir vóru stofnaðir og þakka það því tvennu, að auðvelt er að ná til þeirra til þess að koma fénu frá sér og að féð er þar örugglega geymt. — Annað hagræði, sem landinu stafar af þessu fyrirkomulagi er það, að það getur þá fengið innlent fé til lána, er það þarf á að halda. Svo er það t. d. í Canada, að ríkið tekur mest öll sín lán í póstsparisjóðum.

Þetta hefi eg viljað benda á til athugunar fyrir væntanlega nefnd. Eg hef heyrt, að póstmeistari hafi tekið þetta mál til íhugunar og jafnvel undirbúið það eitthvað; ætti því nefndin að leita álits hans um málið.