04.07.1914
Neðri deild: 3. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (652)

75. mál, sparisjóðir

Ráðherra (H. H.):

Eg er samþykkur háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) um það, að æskilegt væri, að hér kæmist á póstsparisjóðir. En þessi tillaga er engin nýung; stjórnin hefir haft hana til athugunar þegar fyrir ári síðan, er póstmeistari vakti máls á því, en sá sér ekki fært að koma með frumvarp í þessa átt á síðasta þingi, því að til þess að koma slíku á, þarf mikla breyting í sumum póstafgreiðslunum og fyrirkomulagi pósthúsanna. Það er mjög æskilegt, að þessu máli um stofnun póstsparisjóða verði haldið vakandi, því auk hagnaðar og hægðarauka, sem að því getur orðið fyrir landsmenn, hefir málið aðra hlið, sem ekki er minna um vert. Það er hagnaður hina opinbera. Þetta á að geta verið leið til að útvega landsjóði innlent lánsfé, innlent starfsfé til þjóðþrifafyrirtækja, svo að minna þyrfti á útlendum lánum að halda, þegar eitthvað þarf að framkvæma. Innlendu lánin þykja hvervetna heillavænlegust.

En þótt þetta fyrirkomulag kæmist á, þá er frumv. það, sem nú liggur fyrir, alls ekki óþarft. Þar fyrir mundu ekki aðrir sparisjóðir þurfa að leggjast niður og meðan gömlu sparisjóðirnir haldast og menn eiga fé í þeim, þá er það skylda hins opinbera að hafa eftirlit með þeim. Eg vona því, að þetta frv., haldi áfram og nái samþykt þingsins án tillits til hins fyrirkomulagsins, sem alls ekki er nægilega undirbúið, til þess að um það geti orðið sett lög á þessu þingi.