22.07.1914
Neðri deild: 18. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

75. mál, sparisjóðir

Framsögum. minni hl. (Guðm. Hannesson) :

Eg skal fyrst leyfa mér að gera fáeinar athugasemdir við örfá atriði í ræðu háttv. frams.m. meiri hl. (Sv. B.). Hann gaf það í skyn, að minni hl. legðist á móti almennu eftirliti af hræðslu við að stofna nýtt embætti. Þetta er ekki rétt. Minni hlutinn mundi ekki hafa sett það fyrir sig, þótt stofna þyrfti nýtt embætti, ef einsýnn vinningur hefði þótt að eftirlitinu, eins og frv. ætlast til að því verði fyrirkomið.

Ennfremur taldi háttv. frams.m. meiri hl. það ósamræmi hjá minni hluta, að leggja til að hafa eftirlit með þeim fáu verulega stóru sparisjóðum, t. d. sparisjóðnum á Eyrarbakka. Um það getur þó engin deila verið, að einmitt stærstu sjóðirnir eru hættast staddir, meðan það fyrirkomulag helzt, að þeir sé jafnframt smábankar.

Þá skal eg drepa á 100 þús. króna takmarkið — handahófstakmarkið, sem kallað var. Það má segja um öll slík takmörk, sem sett eru, að þau sé af handahófi, ýmist megi vera lítið eitt þar fyrir ofan eða fyrir neðan. Hjá því verður ekki komist. En takmörk verða menn að setja og er rétt að setja, enda sést það í sjálfu frumv., sem setur mark við 50.000 kr. sjóði. Eg gæti með jafnmiklum rétti sagt : Hvaða vit er í því að senda eftirlitsmann langar leiðir með 5 kr. dagkaupi til þess að líta eftir sparisjóði, sem ekki er orðinn nema 1 eða 2 kr.? Hvar eru takmörkin þar?

Eg get tekið undir með háttv. framsögum. meiri hl. (Sv. B.) um það, sem hann sagði um breytingartill. við frv. Deilan var lítil sem engin um þær í nefndinni, því að meiri og minni hlutinn vóru þar á sama máli. Auk þeirra ákvæða, sem snerta eftirlitsmann sjóðanna, hefir minni hlutinn að eins komið fram með tvær breyt.till. sérstaklega.

Fyrri breyt.till. er við 7. gr., og er um það, að starfsmönnum og stjórnendum sparisjóðanna sé heimilt að taka lán úr þeim, ef aðalfundur leyfir það. Ýmsum í minni hl. þótti hart, að þessir menn, sem svo mikla vinnu leggja á sig fyrir sjóðina og fá enga borgun fyrir, væri einir útilokaðir frá lánveitingu úr þeim. En hins vegar fanst þessum sömu mönnum nægileg trygging felast í því, að lánveiting til stjórnenda og starfsmanna sparisjóðanna væri bundin við leyfi aðalfundar.

Síðari breyt.till er um það, að hver sparisjóður greiði 1‰ af innstæðufé sínu fyrir eftirlitið á hverju ári, sem hann er athugaður. Ef svo er, að eftirlitið er sjóðunum verulegur hagur, að eg ekki tali um ef það er einsýnt, að menn sneiði hjá þeim sjóðum, sem eftirlitslausir eru, eins og framsögum. meiri hl. hélt fram, þá er ekki ástæða til annars, en að þeir greiði einhverja þóknun fyrir eftirlitið. Um þetta atriði eru skoðanir minni hl. í samræmi við skoðanir stjórnarinnar. Oss kom einnig til hugar, að gjaldið frá sparisjóðunum væri af annarri ástæðu réttmætt. Þó að svo vel vildi til, að eftirlitsmaðurinn væri í alla staði ágætur maður, sem vildi brjóta sig í mola til þess að líta sem bezt eftir, þá hugðum vér þó, að svo gæti farið, að stundum yrði litið úr eftirlitinu, ef enginn grunur væri á, að því meira ólag væri á ferðum. En þá datt oss í hug að ef sjóðirnir ætti að gjalda sjálfir fé fyrir eftirlitið, mundu þeir síður líða, að það væri lauslega gert, og með því móti hefði maðurinn talsvert aðhald.

Þá skal eg snúa mér að aðalefninu, að deilunni um umsjónarmann sparisjóðanna. Þetta, að ólík þörf sé á eftirlitinu eftir stærð sjóðanna, um það virtist minni hl. ómögulegt að deila. Þá var eftir að ákveða, hvaða sjóði ætti að kalla smásjóði, og kom minni hl. sér saman um að kalla sjóðina því nafni meðan þeir nálgast ekki 100 þús. kr. Takmarkið varð einhversstaðar að setja. Tryggingin fyrir innstæðufénu er í byrjuninni ef til vill meiri en öllu innstæðufénu nemur. En eftir því, sem féð eykst í sjóðunum, verður þessi trygging skiljanlega miklu minni að tiltölu. Þegar af þessari ástæðu eru smásparisjóðir stundum miklu tryggari en þeir, sem stórir eru, og þess vegna er síður þörf á eftirliti með þeim.

Annað atriði, sem hér kemur til greina, er það, að stofnendur sparisjóðanna eru venjulega góðir menn, sem hafa barist fyrir því að koma sjóðunum á laggirnar af umhyggju fyrir því héraði, sem þeir eru í. Meðan sjóðirnir eru litlir lifa stofnendur þeirra, og þeir láta sér eðlil. ekki á sama standa, hvernig um þá fer. Sjóðirnir eru þeirra verk, og þeir vilja ekki hafa unnið til ónýtis.

Þriðja atriðið er það, að öll störf sjóðanna eru óbrotnari, einfaldari og auðveldari að sjá út yfir meðan þeir eru litlir, en þegar þeir eru orðnir að heilum smábönkum. Almenningur þekkir fullkomlega allan hag sjóðanna meðan þeir eru litlir, og í því er ekki lítið aðhald fólgið fyrir stjórnendur þeirra. Þetta er þýðingarmikið atriði.

Geta má þess líka, að það gæti vel komið til mála, að eftirlit með smærri sjóðum yrði þeim beinn skaði. Menn, sem brjótast í smáfyrirtæki, hafa sterka ábyrgðartilfinningu fyrir því, hvernig þeim farnast. En ef maður er sendur af stjórninni til þess að yfirlíta alt, finst þeim ábyrgðin tekin af sér — þeir þurfi ekkert um þetta að hugsa. Ábyrgðartilfinningin rýrist og eru auðsénar afleiðingarnar. Hitt er lítilsvert atriði, en þó ekki einkis vert, að eftirlitsferðirnar og eftirlitið verður tiltölulega mjög dýrt meðan sjóðirnir eru litlir. Það hlýtur að liggja í augum uppi, að eftirlitið í samanburði við gagnið, sem af því leiðir, verður dýrara eftir því, sem sjóðirnir eru minni.

Þetta, sem eg hefi nú nefnt, ásamt fleira, sem að nokkru leyti er tekið fram í nefndarálitinu, gerði það að verkum, að minni hl. er í engum vafa um, og hyggur að því verði ekki með rökum mótmælt, að eftirlitsþörfin er hverfandi þegar sparisjóðirnir eru litlir, hjá því þegar þeir eru orðnir stórir. Þegar þeir eru orðnir að heilum bönkum með margbrotnum viðskiftum, er eftirlitið óhjákvæmilegt, en mjög svo hæpið, að það leiði til nokkurs góðs meðan þeir eru smáir. Því má ekki gleyma í þessu sambandi, að smásparisjóðum er gert að skyldu eftir frumv. engu síður en þeim stærri, að haga bókfærslu sinni og öllu fyrirkomulagi eftir þeim reglum, sem stjórnarráðið setur, og eina að senda stjórnarráðinu skýrslu um hag sinn.

Eitt atriði í nefndaráliti minni hlutans, sem þar er fljótlega farið yfir, vildi eg skýra örlítið nánar, svo að menn sjái, að þar er ekki alveg talað út í bláinn. Það er um aðgreininguna á eiginlegum sparisjóðum og bönkum. Þó að það fyrirkomulag, sem vér höfum nú, sé ekki allskostar heppilegt, þá er alt annað mál, hvort tiltækilegt er að fá því breytt í betra horf. En geti það nú komið til mála, þá breytist málið alt. Háttv. framsögum. meiri hlutans (Sv. B.) komst svo að orði, að nauðsynlegt væri, að fé sparisjóðanna væri geymt svo vel, að þeir sem fé leggja í þá, gæti verið vissir um að fá það aftur. En meðan sparisjóðirnir hér vaxa allir upp í það, að verða að smábönkum með margbrotnum viðskiftum, þá get eg ekki séð, hvernig hægt er að tryggja mönnum þá vissu. Eg hygg, að það verði jafnerfitt, hvort sem nokkur umsjónarmaður er eða ekki. Það má reyndar segja, að menn tapi ekki fé sínu nú, en menn hafa enga vissu fyrir því, að þeir tapi því ekki, og það mun verða svo, hvernig sem eftirlitið verður. Það sem vakti fyrir mér var það, að hugsanlegt væri, að einfaldir sparisjóðir yxi upp, sem ræki ekki annað en einföld sparisjóðsstörf. Hlutverk sparisjóðanna er eiginlega ekki annað en það, að reyna að fá menn til að spara fé, og geyma síðan það fé, sem þeim er fengið á tryggilegan hátt með sæmilegum vöxtum, þangað til eigendurnir þurfa nauðsynlega á því að halda. Aðferðin er óbrotin. Annaðhvort mætti kaupa veðdeildarbréf eða önnur tryggileg bréf landsins fyrir innstæðuféð, sem ekki er líklegt að komi til útborgunar, eða láta það renna í landsjóðinn eða Landsbankann sem starfsfé. Þá eru einfaldir sparisjóðir mjög einfalt og óbrotið fyrirtæki í samanburði við það, sem nú á sér stað, að sparisjóðirnir verða að smábönkum undir eina og þeir hafa eitthvað handa á milli. Eg skal taka það fram, að ef til vill má gera þetta enn einfaldara með því að láta póststjórnina taka við sparisjóðsfénu og kvitta fyrir það í sparisjóðsbækur.

Þegar hér er komið, liggur sú spurning opin fyrir, hvernig útlánunum eigi þá að koma fyrir. Það, sem alt veltur á er það, að héruðin verða að hafa sína sérstöku banka, í stað þess að nota sparisjóðina til bankastarfa og gera þá með því ótryggari. Þetta ætti ekki að verða ókleift, ef sparisjóðsféð gengi til þess að auka veltufé Landsbankans. Landsbankinn lánaði þá féð aftur héruðunum til þess að reka með því smábanka. Meðan féð er lítið væri nú trygging nægileg, sem hreppurinn eða sýslan gæti veitt, en þegar stofnunin stækkar, þá getur hún borið fullkomið eftirlit eina og Eyrarbakkasjóðurinn nú. Einhverri slíkri niðurröðun ætti að vera unt að koma á. Auk margs annara, sem við þetta ynnist, fengi allir, sem sparisjóðsfé eiga, landstryggingu fyrir því og gæti tekið út úr sparisjóðabók sinni, hvar sem þeir væri staddir á landinu, eina og nú er á Þýzkalandi. Hvernig, sem á þetta er litið, er óhætt að fullyrða, að þetta sambland á sparisjóðum og bönkum er óheppilegt. Og þegar þetta fyrirkomulag hefir fengið að haldast í löndum eins og Þýzkalandi, þá er það einungis af þeirri ástæðu, að sparisjóðirnir hafa vaxið svo upp og orðið svo margbrotnir, að ekki er hlaupið að því að kippa þessu í lag.

Ef eg kynni að hafa sagt annað um þetta atriði, en hinir, sem í minni hluta eru, geta skrifað undir með mér, þá skal eg taka það fram, að eg hefi útlistað þetta eins og það kemur mér fyrir sjónir.

Eg get ekki séð, að eftirlitið með stærri sjóðunum verði ótryggilegt, þó að því verði hagað eina og við stingum upp á. Það sem vakir fyrir mér er það, að til þess verði fenginn æfður bankamaður, t. d. úr Landsbankanum. Gæti sami maðurinn haft eftirlitið á hendi ár eftir ár, og með því fengi hann nægilega æfingu. Bankinn fengi vitanlega borgun fyrir störf hans.

Mismunurinn á skoðunum meiri og minni hluta nefndarinnar er þegar á alt er litið ekki ýkjamikill. Sparisjóðirnir eru í hröðum vexti og það líður ekki á löngu þangað til þeir hafa vaxið svo, að þeir komast í tölu þeirra sparisjóða, sem vér teljum nauðsynlegt að hafi fullkomið eftirlit. Hitt er annað og meira, hvort tiltækilegt er eða ekki að koma því í framkvæmd, sem oss datt í hug, að aðgreina sparisjóði og banka. Það atriði er miklu verðara þess að deilt sé um, en nokkuð annað, sem fram hefir komið í þessu máli.