23.07.1914
Neðri deild: 18. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

75. mál, sparisjóðir

Einar Arnórsson :

Eg ætla að leyfa mér að drepa á nokkur atriði í þessu frumvarpi. Eg get byrjað með því að þakka nefndinni fyrir alt starf sitt, því að það hefir leitt til þess, að betra skipulag er nú á frumvarpinu en þegar það var lagt fyrir þingið. Flestallar breytingatillögur, sem nefndin hefir stungið upp á, virðist mér vera til bóta.

Breyt.till. við 2. gr. frumv, að orðin »hlutafé eða« falli burt, eða. með öðrum orðum, að sparisjóðir megi alls ekki vera hlutafélagseign, virðist mér vafasöm og óvíst að hún sé til bóta. Mér sýnist, að í sjálfu sér sé ekkert á móti því, að sparisjóðir sé hlutafélagseign.

Sparisjóðum er víðast svo fyrir komið, að einstakir menn ábyrgjast eða leggja fram ákveðna upphæð hver, t. d. einn 100 kr. annar 200 kr. o. s. frv.

Eg býst við, að það sé alkunnugt, að sparisjóðum sé svo fyrir komið, sem eg nú hefi lýst. Mér skilst, þó að um hlutafélag með innborguðu hlutafé sé að ræða, þá sé það alveg eins tryggileg ábyrgð eða jafnvel tryggilegri.

Við 2. grein hefir nefndin líka gert viðaukatillögu um glataðar viðskiftabækur. En mér skilst, að þessi nýja málsgrein sé ekki annað en 25. gr. stjórnarfrumvarpsins, en hún á að standa, þrátt fyrir breytingartillöguna við 2. gr., eftir tillögu nefndarinnar. (Sveinn Björnsson): Það hefir verið tekið fram áður). Jæja, þá bið eg forláts. Þetta má þá laga til 3. umr.

Við 7. gr. hefir minni hluti nefndarinnar gert þá breytingartillögu, að starfmenn sjóðsins megi taka lán úr sjóðnum, ef aðalfundur samþykkir það. Það er satt, að það getur verið hart að útiloka starfsmennina frá lánum úr sjóðnum, og hefir minni hlutinn viljað bæta úr því með þessu. En hvernig ætlar minni hlutinn sér að koma þessu fyrir? Er þá tilætlunin, að aðalfundur gefi þetta leyfi eitt skifti fyrir öll, eða fyrir eitt ár í senn, hálft ár eða í hverju einstöku tilfelli? Ef leyfis ætti að leita í hvert sinn, býst eg við, að það gæti orðið nokkuð vafningasamt. En hvernig sem það nú er, þá sé eg enga ástæðu til að taka þessa brtill. til greina.

Við 9. gr. hefir hvorki meiri né minni hluti nefndarinnar gert neina breytingu og má það undarlegt virðast. Þar stendur, að eigi megi greiða neina upphæð úr sparisjóði eða í hann, nema tveir stjórnendur sé viðstaddir. Að vísu er gerð undantekning frá þessu, þar sem það er tekið fram, að féhirðir einn megi veita viðtöku greiðslum í sjóðinn, en því er bætt við, að kvittun hana sé ekki gild, nema bókari riti líka undir hana. Mér skilst, að þetta gæti valdið töluverðum óþægindum upp til sveita. Eins og kunnugt er, er þar víðast hvar mjög strjálbygt og starfsmennirnir ekki negldir á sama stað. Eg get ekki betur séð, en að þetta ákvæði sé óþarflega strangt. Og úr því að kvittun gjaldkera er ógild, þ. e. alls engin lögmæt kvittun, þá er einsætt, að enginn sæmilega gætinn maður mundi hætta á það að greiða inn í sparisjóðinn gegn þannig lagaðri kvittun, er eigi veitir honum neinn rétt gagnvart sparisjóðnum.

Breyt.till. meiri hluta nefndarinnar um að 10. gr. falli burt, sýnist mér vera á fullum rökum bygð. Eg skil ekki vel þá hugsun, sem felst í þessari grein, að sá starfsmaður sparisjóðs, sem vinnur fyrir kaup, þurfi að setja tryggingu fyrir fé því, sem honum er trúað fyrir, en sá, sem ekkert kaup hefir, þurfi enga tryggingu að setja. Mér þykir ekki líklegt, að sá sem vinnur fyrir kaupi, sé nokkurn hlut líklegri til þess að leggja fremur undir sig fé sjóðsins heldur en hinn, sem vinnur kauplaust. Að réttu lagi ætti annaðhvort að heimta tryggingu af hvorugum eða af báðum.

Eg veit ekki nema það mætti koma því svo fyrir við 11. gr., að innstæðufjáreigandi gæti fengið peninga út úr sjóði án þess að sýna bók, t. d. með tékkávísun eins og tíðkast í Íslandsbanka. Það ætti að vera algerlega hættulaust, en myndi spara fyrirhöfn og auka hagræði.

Við 13. gr. hefir nefndin stungið upp á stórvægilegri breytingu og er hún til stórbóta, að því er eg ætla. Nefndin hefir stungið upp á því, að takmörkunin á því, hvað víxillán og sjálfskuldarábyrgðarlán megi nema miklu, falli burtu. Þessi takmörkun í stjórnarfrumvarpinu miðar beint að því að eyðileggja Starfsemi lítilla sparisjóða, og ef hún yrði að lögum, væri ekki um annað að tala en að leggja slíka sparisjóði niður. En það verð eg að telja illa farið, ef sparisjóðir legðist niður, því að þar er margur eyrir lagður inn, sem annars færi fyrir lítið. Það er áreiðanlega svo, að þar sem sparisjóður er risinn upp, þar fer fólk að læra að meta peninga og reyna að leggja fyrir fé, er það þarf eigi að nota í svipinn. Svo er það og aðgætandi, að um sparisjóði hér á landi er ekki sama máli að gegna og um sparisjóði annarstaðar. Það er öllum kunnugt, að það er miklum vandkvæðum bundið fyrir menn upp til sveita að fá peningalán. Eg veit mörg dæmi til þess, að bankastjórarnir hér hafa neitað góðum mönnum um lán, af því að þeir hafa ekki þekt þá. Og það er ekki nema eðlilegt, því að það er ekki hægt að heimta það af neinni bankastjórn, að hún þekki alla menn á landinu. Á því er enginn efi, að sparisjóðirnir geta að miklu leyti bætt úr þessu. Það er kunnugt, að sumir sparisjóðir reka að nokkru leyti bankastarfsemi, eins og t. d. sparisjóðurinn í Árnessýslu.

Verði 2. málsgr 13. gr. frumvarpsins samþykt óbreytt, er eg í engum efa um, að það yrði stórkostlegt og öldungis óþarft haft á starfsemi sparisjóðanna.

Þá hefir nefndin komið með þá br.till við 3. málagrein 13. gr., að lán megi ekki endurnýja oftar en svo, að innheimtu þeirra sé fullkomlega lokið á 10 árum. Eg er nú ekki sannfærður um að þetta hafi svo mikla þýðingu. Það er hægt að innheimta lánið í orði kveðnu og skifta um ábyrgðarmenn, eða að eins gefa út ný skuldaskírteini, jafnvel þótt ábyrgðarmenn og skuldunautur sé sá sami. Eg er viss um, að hver sem vill, getur farið í kring um þetta eftir vild sinni.

Svo er enn eitt atriði í 13. gr., 4. málsgr., stj.frv., sem nefndin hefir ekki gert neitt við. Þar stendur, að þeir sparisjóðir, sem geyma 50.000 kr. eða meira, skuli skyldir til að eiga innistandandi í bönkum að minsta kosti 5% af innstæðufénu samanlögðu eða að hafa í vörslun sínum ríkisskuldabréf eða önnur. trygg verðbréf fyrir þeirri upphæð. Eg held, að þetta yrði óþarflega þungur baggi á mörgum sparisjóðum. Sparisjóður, sem hefði 50.000 kr. að geyma, yrði þannig að binda 2500 kr. af sínu fé í einhverjum banka eða hafa slíka upphæð fyrirliggjandi í ríkisskuldabréf- um. Í rauninni er þetta ekki annað en að lána bönkunum fé. Menn í peningaþröng upp til sveita eiga með öðrum orðum að leggja bönkunum starfsfé.

Í 17. gr. er svo önnur 5% kvöð lögð á sparisjóðina. Það verða þá 10% af starfsfé sparisjóðanna, sem með þessu lagi verður að óþörfu bundið fyrir þeim. Eg heyri það, að einhverir háttv. deildarmenn skilja þessi ákvæði frumv. öðru vísi, en þeir misskilja þau fortakslaust. Sé þetta ekki rétt skilið hjá mér, þá kann eg ekki að lesa prentað mál.

Svo kem eg að þessu eina aðalatriði, sem nefndin hefir ekki orðið á sama máli um, nfl. umsjónarmanni sparisjóðanna. Nefndin hefir verið sammála í öllum aðalatriðum öðrum. Eg lít svo á, að þessi nýja staða, sem hér á að stofna, sé meira í orði en á borði.

Í fyrsta lagi eru launakjörin þannig löguð, að annaðhvort fæst ekki hæfur maður í þessa stöðu, ellegar ef hann fæst, þá vinnur hann fyrir meira en 1200 kr. og getur þá verið svo gerður, að hann vildi ná sér niðri á ferðakostnaðarreikningunum. Eða þá að óhæfur maður fengist, sem hvorttveggja gerði: að hirða 1200 kr. og ferðakostnað ríflegan — og er það eigi betra en hitt. En eg býst varla við, að nokkur maður gæfi kost á sér í þessa stöðu fyrir 1200 kr. (Sveinn Björnsson: Hann fær meira). Já, með því að »svindla« á ferðakostnaðarreikningunum. Það kann vel að vera, að þessi umsjónarmaður gæti leiðbeint með reikningsfærslu, þar sem hann á annað borð ræki inn nefið. En eg skil ekki annað, en að hann brysti algerlega kunnugleika í flestum sveitum til þess að eftirlit hans geti að gagni komið. Eg ímynda mér að þessi nýja staða gæti orðið þægilegur bitlingur handa stjórninni til þess að hlynna að gæðingum sínum með, en annað ekki, öðru máli er að gegna um hitt, sem minni hl. nefndarinnar leggur til, að stjórnin gæti þegar ástæða þætti til, litið eftir sparisjóðunum. En það sýnist mér vera handahófaregla að setja þá sparisjóði eina, sem geyma 100.000 kr. eða meira, undir þetta eftirlit. Það þarf ekki að vera verr ástatt í þeim heldur en hinum, sem minni eru. Mér skilst, að það sé ekki nein föst staða, sem minni hl. ætlar hér að stofna, heldur nokkurskonar hjálp í viðlögum.