29.07.1914
Neðri deild: 24. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

75. mál, sparisjóðir

Framsögum. meiri hl. (Guðm. Hannesson):

Það fór svo fyrir mér áðan, að eg viltist á allri þingskjalahrúgunni, og gleymdi einni breyt.till. á þskj. 243, sem er töluvert þýðingarmikil. Hún fer fram á það, að taka upp gamla fyrirkomulagið aftur, sem fyrr hefir verið haldið fram á þingi, og skipa sparisjóðunum marga eftirlitsmenn í héruðunum í stað hins eina. Meiri hl. er það kappmál, að þetta verði ekki samþykt, því að það yrði alt af til þess að gera eftirlitið ótryggara. Og eg er á sömu skoðun eftir að eg hefi athugað þetta betur. Það yrði aldrei hjá því komist, að þessir eftirlitsmenn í héruðunum gæti verið eitthvað háðir stjórnendum sparisjóðanna, skuldunautum þeirra eða ábyrgðarmönnum, og þeir eða þeirra ætti eitthvað undir sjóðunum. kostnaðurinn við, að einn maður líti eftir nokkrum sjóðum á ári, getur tæplega orðið svo mikill, að margir eftirlitsmenn verði ódýrari. Breyt.till. er til verra eins, því að þótt sumir sjóðir kynni að fá góða eftirlitsmenn, þá yrði erfitt að tryggja sér, að alstaðar yrði svo, og eg fyrir mitt leyti býst við að þetta gæti stórspilt gagninu af eftirlitinu.