08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

113. mál, kosningar til Alþingis

Hannes Hafstein :

Eg get verið stuttorður, því að háttv. þm. Ak. (M. Kr.) og háttv. þm. Rvk. (Sv. B.) hafa tekið fram flest af því, sem eg vildi leyfa mér að benda á.

Eg er þessum tveimur háttv. þingm. innilega samdóma um það, að svo framarlega sem í gr. frumv. verður feld í burt, og ekkert gert í þá átt, sem þar er farið fram á, þá sé mikið dregið úr því gagni, sem stjórnarskrárbreytingunni var ætlað að gera. Að minsta kosti er þá í bráðina dregið mjög úr þeim jöfnu réttindum, sem allri þjóðinni var ætlað að fá með stjórnarskrárbreytingunni.

Þetta atriði, sem 7. gr. frumv. ræðir um, þ. e. skiftingin í einmenningskjördæmi og tilraunin til að koma á dálítið meira jafnrétti meðal kjósendanna í landinu, það var það eina verulega verkefni, sem lá fyrir nefndinni. Hitt, sem nefndin átti að vinna, var ekki sérlegt vandaverk, þar sem fyrri hluti laganna, ákvæðin um kjördæmakosningar, er að mestu leyti samhljóða núgildandi kosningarlögum með þeim breytingum, er smám saman hafa verið gerðar á þeim með nýjum lögum, kaflinn um landakosningarnar er að miklu leyti sniðinn eftir síðustu lögum um hlutfallskosningar til bæjarstjórna, og kaflinn um kosningar sjómanna tekinn mjög svo eftir lögum, sem gilda annarstaðar á Norðurlöndum. Frumvarpið var vel vandað og ýtarlega undirbúið af stjórninni, og naumast um verulegt álitamál að ræða í því, nema tilraunin til þess að létta af þeim rangindum, sem af núverandi kjördæmaskifting stafa. Það var aðalverkefni nefndarinnar, að athuga 7. gr., og einmitt þess vegna sérstaklega var 7 manna nefnd kosin hér í deildinni. Hvað gerir svo nefndin? Hún situr á rökstólum í alt sumar, og þegar komið er að bláþinglokum, þá kemur það loksins í ljós, að nefndin hefir, að því er þetta aðalhlutverk hennar snertir, gert fullkomið verkfall. Hún sleppir þessu atriði alveg, og lætur hjá líða að inna af hendi það verkefni, sem deildin sérstaklega fól henni.

Það sem nefndin hefir gert fyrir utan það, að leggja til að sleppa þessu atriði, er ekki stórvægilegt, og að taka einn kaflann úr stjórnarfrumv. og bera hann fram sem sérstakt frumvarp, sýnist ekki vera neitt sérlegt þrekvirki fyrir 7 manna nefnd. Þó hefi eg tekið eftir einni breytingartillögu, sem háttv. nefnd hefir gert við frumv., sem væri talsverð breyting, ef samþykt yrði, og það til stórskemda, svo framarlega sem nefndin í raun og veru meinar það, sem orðin í breytingartillögunni virðast liggja til. Eg á við breyt.till. við 77. gr. Það er farið fram á það fyrirkomulag í stjórnarfrumvarpinu, sem sýnist vera sjálfsagt, að þó að einhver maður, sem er í kjöri við landskosningu, og nær ekki kosning, fái nægilega mörg atkvæði til þess að vera varamaður, þá missi hann ekki fyrir það kjörgengi sitt til kjördæmakosninga, og megi eiga sæti á þingi, ef hann nær kosningu í einhverju kjördæmi. Hins vegar er honum eftir stjórnarfrumv. skylt að taka sæti í efri deild, ef sá, sem hann er varamaður fyrir, deyr eða lætur af þingmensku, og sér þá stjórnin um aukakosning í kjördæmi hans. Þessu vill nefndin breyta þannig, að maður, sem kosinn er bæði landskjörinn varamaður til efri deildar og einnig þingmaður fyrir kjördæmi, skuli velja milli þess, hvort hann vilji heldur vera landskjörinn varamaður, eða þingmaður fyrir kjördæmi, og velji hann það síðarnefnda, þá skuli landstjórnin láta kjósa í hans stað varamann um land alt, með allri þeirri heljarfyrirhöfn, er því fylgir. Þetta er sagt með því orðalagi, að eg sé ekki, að það verði skilið öðru vísi en þannig, að maðurinn sé útilokaður frá þingsetu fyrir kjördæmi, ef hann afsalar sér ekki kjörinn sem varamaður. En þetta væri að minni hyggju alveg ótækt; það virðist tilgangslaust og ósamrýmanlegt við tilganginn með landakjöri, ef það, að þjóðin treystir einhverjum manni svo vel, að hún gefur honum svo mörg atkvæði við landskjör, að hann nær varaþingmensku þar, á að útiloka manninn frá því að mega eiga sæti á þinginu ef til vill um 12 ára bil.

Eg tel líklegt, að þessi breytingartillaga stafi einungis af misskilningi eða ógáti, en ekki af því, að nefndin hafi í raun og veru viljað umturna þannig þessu atriði, og eg vona, að háttv. nefnd taki þetta til nýrrar athugunar fyrir 3. umræðu.

Eins og háttv. 1. þm. Rvíkur (Sv. B.) tók fram, eru tvö meginatriði í 7. gr. frumv., fyrst skiftingin í 34 einmenningakjördæmi í stað þess samblands af einmennings og tvímenningskjördæmum, sem nú er, og annað hitt, að reyna eftir föngum að bæta úr misréttinum, að því er snertir atkvæðamagn kjósenda í kjördæmunum.

Eins og eg hefi látið í ljós, er það mín skoðun, að orðin í 8. gr. stjórnarskrárfrumvarps þess, er fyrir liggur : »Óhlutbundnum kosningum í sérstökum kjördæmum skulu kosnir 34 alþingismenn«, ekki skiljist öðruvísi en svo, að hver þingmaður skuli kosinn í sínu sérstaka kjördæmi, og að einmenningskjördæmi sé þannig fyrirskipuð.

En jafnvel þótt þetta sé ekki viðurkent, — og hver segir við þingið : »Hvað gerirðu«? — þá verður því ekki neitað, að þetta er hin eina rétta skifting, þegar hlutfallskosning í stærri kjördæmum er útilokuð, og að kröfur í þessa átt hafa legið fyrir þinginu í mörg ár og flestir játað, að með núverandi samblandi af einmenningskjördæmum og tvímenningskjördæmum sé, einkum síðan kosningalögin frá 1903 gerðu einfaldan meiri hluta nægan til kosningar, stofnað til alveg sérstaks misréttis, sem fjöldi kjósenda í landinu getur sopið seyðið af. En öllu þessu er lýst nákvæmlega í athugasemdunum við stjórnarfrumv., og skal eg ekki þreyta menn á því að endurtaka það hér.

Mér þykir sennilegt, að með verkfalli nefndarinnar sé ekki komið í veg fyrir, að þingið geti enn bætt úr þessum sérstaka misrétti, því að þótt áliðið sé þingtímans, er að minsta kosti hægt að breyta tvímenningskjördæmunum, sem nú eru, í tvö einmenningskjördæmi, sérstaklega þar sem það mál er ýtarlega undirbúið í stjórnarfrumv. Þó að ekki væri bætt með því úr öllu því mikla misrétti, sem á sér stað meðal kjósenda í hinum ýmsu kjördæmum, þá væri það þó betra en ekkert. Eg vil leyfa mér að mælast til þess við hina háttv. deild, að hún felli tillögur nefndarinnar um að fella burt 7. gr. Þeir sem ekki vilja aðhyllast hana eins og hún er, en vilja þó nokkra bót gera á núverandi ástandi, geti þá borið fram brtill. við hana til 3. umr. sem breyti henni svo, að nokkur von sé um, að hún nái samþykki þingsins. Verði alls ekkert gert til þess að bæta úr kosningamisréttinu og göllunum á kjördæmaskiftingunni, þá er vissulega illa farið með kosningalagafrumvarpið.