29.07.1914
Neðri deild: 24. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

75. mál, sparisjóðir

Einar Arnórsson:

Eg ætla að byrja þar sem háttv. síðasti ræðumaður (G. E.) hætti. Hann vildi taka málið út af dagskrá og treysti ekki höfði sínu til þess að botna í atkvæðagreiðslunni. Ekki finst mér nú þetta vera það vandamál, að hæstv. forseti ætti ekki að geta leiðbeint honum. Tillögurnar eru svo ljósar, að engum sæmilega skynsömum manni ætti að vera vorkunn á að greiða atkvæði um þær. Eg ætla nú að ganga í gegnum þær stuttlega.

Eg á brtill. á þskj. 226 og 244 ásamt háttv. þm. Dal. (B. J.), og virðist mér, að þeir háttv. þingmenn, sem talað hafa, sé ásáttir um brtill. við 4. gr. Um 2. brtill. okkar er það að segja, að ef br. till. nefndarinnar á þskj. 259 verður samþykt, þá er okkar tillaga fallin, og eg álít að tillaga nefndarinnar sé betri, en við þorðum nú ekki að fara lengra en þetta.

Eg hefi skilið 9. gr. svo, að það væri útilokað, að stjórnendur sjóðanna geti gegnt féhirðir- og bókarastörfum, og eftir orðum laganna er minn skilningur réttur, en það gerir nú ekkert til, úr því að menn eru mér sammála um brtill. Líka á háttv. umboðsm. ráðherra brtill. við þetta, sem ekki kemur til atkvæða, ef till. nefndarinnar á þskj. 269 verður samþykt. Um brtill. við 2. málsgr. 9. gr. er meiri hl. mér hjartanlega sammála, svo að um hana þarf ekki að þrátta.

Svo er brtill. við 11. gr. á þskj. 226. Meiri hl. nefndarinnar telur hana óþarfa, með því að þetta liggi í hlutarins eðli og 2. gr. laganna. Mér sýnist tillagan ekki óþörf vegna ákvæða í 12. og 13. gr., þar sem talað er um starfsemi sjóðstjórna. Að minsta kosti er engu spilt, þótt haft sé þetta ákvæði um gerðabókina. Til þess að hægt sé að hafa gott eftirlit, þarf einmitt að bóka ráðsályktanir stjórnarinnar.

Það getur verið rétt hjá háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.), að minni ástæða sé til þess að bóka lánbeiðslur þegar þeim er synjað, en hann gerir úlfalda úr mýflugunni í því, hver starfsauki sé í þessu. Mér er þetta að vísu ekki kappsmál, en betra væri að samþykkja till. okkar.

Þá hafa þeir háttv. þingmenn, sem talað hafa, ekki haft á móti þeirri br. till. okkar, að í staðinn fyrir orðin »bönkum« komi »í Landsbankanum«, og er eg þeim þakklátur fyrir það. Út af því, sem háttv. umboðsmaður ráðherra sagði um það, að hugsanlegt væri, að Íslandsbanki neitaði sjóðum um viðskifti ef þetta yrði samþykt, þá sé eg ekki, hvaða ástæðu hann hefði til þess, ef hann hefir hag af viðskiftunum. Hana vill þó víst, eins og hver önnur slík stofnun, draga viðskiftin sem mest til ein og myndi ekki neita innlánsfé með sparisjóðskjörum. Eg vil að minsta kosti ekki væna hann um það að hana muni fara að hefna sín með þessu, þá að löggjafarvaldið samþykti þetta, og virðist mér þetta stappa nærri getsökum í hans garð.

Þá er að minnast á brtill, okkar við 12. gr. Aðaltill. fer fram á það, að 3. málsgr. hennar falli burt. Eg gat þess við 2. umr., að þarna sé sjóðunum bundinn þungur baggi, sem hefti starf þeirra óþarflega mikið og hagurinn af því sé minni en óhagurinn. Háttv. umboðsm. ráðherra er ekki á sama máli um þetta, en hefir þó sýnt tilllögunni þann góðvilja, að vera ekki á móti því, að upphæðin sé færð niður í 3%, og vona eg þá að varatill. verði samþykt, ef aðaltillagan gengur ekki fram.

Brtill. okkar við 16. gr. fer ekki fram á gagngerða breytingu á þeirri grein, heldur aðeins hitt, að ekki sé nema hinir smærri sjóðirnir bundnir við að hafa 5% af innstæðufénu samanlögðu alt af bundið í verðbréfum eða bönkum. Ástæðan til þessa er sú, að til eru sjóðir, sem eg tel fulltryggja, en ekki eiga svo mikinn varasjóð, að þeir geti fullnægt þessu. Það er ekki að eins sá sjóður, sem háttv. umboðsm. ráðherra nefndi, heldur fleiri, þótt eg viti ekki, hve margir þeir eru. Að vísu er stjórninni heimilt að veita undanþágu frá þessu, samkvæmt 2. gr. frumvarpsins, en eg kysi heldur, að sjóðirnir þyrfti ekki að eiga það undir henni, að hún veitti þeim hana.

Háttv. framsögum. meiri hlutans (G. H.) virtist skilja svo, sem þetta fé væri ekki bundið alt (10%). Það liggur þó í augum uppi, því að í 16. gr. er vísað til 12. gr., 3. málsgr., og verður þá sama uppi á teningnum um hvorutveggja upphæðina.

Það er einungis í neyð, sem heimilt er að taka til þessa fjár, vegna ófyrirsjáanlegra útborgana. Eg veit ekki, hvernig á að binda fé, ef þetta er ekki að binda það, og eg efast ekki um, að stjórnin hefir ætlast til þess, að þetta fé væri bundið, enda hefir hæstv. umboðsmaður ráðherra lýst minn skilning á þessu réttan.

Úr því að mér datt það í hug, þá skal eg taka það fram, viðvíkjandi breytingartillögu háttv. umboðsmanna ráðherra á þskj. 247 við breyt.till. okkar á þskj. 226, 2, um að lækka upphæðina úr 100 þús. niður í 50 þúsund, að eg sé ekki ástæðu til að vera henni fylgjandi. Þótt ekki sé nú margir sparisjóðir á landinu, sem eiga 100 þús. kr. innstæðufé, þá er vonandi að þeir fari fjölgandi og verði eftir nokkur ár orðnir svo margir, að þeir verði meiri hluti allra sparisjóða á landinu. Eg sé því ekki ástæðu til að takmarka svo mikið heimild fyrir stjórnendur sjóðanna til þess að vera bókarar og gjaldkerar.

Þá vildi eg láta nokkur orð fylgja brtill. okkar á þskj. 243, um eftirlit með sparisjóðum.

Það er rétt, sem hv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) sagði, að með brtill. nefndarinnar á þskj. 210, er kominn fram grímuklæddur umsjónarmaðurinn, sem stjórnin vildi fá fram og feldur var við 2. umræðu málsins hér í deildinni. Stjórnin getur, ef hún vill, fengið sömu niðurstöðu ef sú tillaga verður samþykt eina og með eftirlitsmanninum, sem stungið var upp á í stjórnarfrumvarpinu. Þetta óþarfa líffæri — eftirlitsmaðurinn — var numið burtu við 2. umræðu þessa máls hér í deildinni og eg sé enga ástæðu til að setja það á aftur, jafnvel þótt ofurlítið hafi verið »lappað upp á« það.

Tillaga okkar háttv. þm. Dal. (B. J.) um að stjórnarráðið setji fastan eftirlitsmann í hverri sýslu, sem sé búsettur þar, virðist ekki hafa sætt hlýlegum undirtektum. Eftir því, sem mér hefir skilist, er aðalástæðan til andmælanna sú, að ekki muni verða auðið að fá hæfan og hlutvandan mann í hverri sýslu, sem vilji takast þetta starf á hendur. Þingmenn sýnast helzt gera ráð fyrir því, að hver einasta sýsla á landinu sé troðfull af föntum, sem ekki sé óhætt að trúa fyrir þessu merki. (Sveinn Björnsson : Það er ekki hægt að fá menn, sem geta tekist þetta á hendur). Ef það væri rétt, sem háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.) segir, þá verður líklega líka ærið vandasamt, að fá hæfa endurskoðunarmenn og hæfa sparisjóðsstjórnendur í hverri sýslu. Við flutningsmenn tillögunnar á þskj. 243, teljum það engum vafa bundið, að hægt sé að fá nóga menn í hverri einustu sýslu landsins, sem væri fyllilega vaxnir þessu starfi. Það má ef til vill segja, að endurskoðendurnir geti haft þetta eftirlit á hendi um leið og þeir endurskoða reikningana. En þar er því til að svara, að endurskoðun mundi venjulega ekki verða annað en töluendurskoðun, en eftirlitið þarf að vera meira.

Við höfum í tillögu okkar gert ráð fyrir því, að sýslueftirlitsmennirnir fái þóknun fyrir starfa sinn af þeim Sparisjóðum, sem þeir hafa eftirlit með, hver um sig. En við ætlumst til, að aðaleftirlitsmanninum sé goldið kaup úr landssjóði. Þá höfum við einnig sett nánara ákvæði um það, hvenær senda skuli reikninga sparisjóðanna til stjórnarinnar, og um það, hvernig þeir reikningar skuli birtir. Eg skil ekki, að nokkur maður hafi á móti þessum ákvæðum.

Eg verð að halda því fram, að tillagan á þskj. 243 sé í alla staði miklu aðgengilegri en tillagan á þskj. 210, og við verðum að láta »slag« standa um þetta og sjá hverjir verða ofan á.

Í fyrra var í þessari deild, ef mig minnir rétt, samþykt tillaga, sem fer í sömu átt sem tillaga okkar háttv. þm. Dal. (B. J.). Það getur verið, að í þessari deild sé nú þeim mun vitrari menn heldur en í fyrra, að þeir sjái, að þetta sé ekki heppilegt eftirlit, en eg hefi varla trú á því. — Brtill. okkar hv. þm. Dal. (B. J.) á þskj. 226 við 19. gr. 2. málsgr., er aðeins orðabreyting. Okkur fanst þessi málsgrein illa, eða jafnvel ranglega, orðuð og vildum leiðrétta það. Það eru ekki skuldheimtumennirnir, sem taka fullnaðarákvörðun um það, hvort sjóðurinn skuli tekinn til gjaldþrotameðferðar eða ekki, heldur er það skiftarétturinn. Líku máli er að gegna um breyt.till. okkar við 22. gr., það er aðeins orðabreyting. Okkur fanst það óþarfi að hafa bæði kyrrsetning og löghald um það sama, því að það eru að eins tvö orð yfir sama hugtakið.