29.07.1914
Neðri deild: 24. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

75. mál, sparisjóðir

Matthías Ólafsson :

Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) gerði mikið úr því, hvað sparisjóðirnir yrði tryggir, ef þessir mörgu eftirlitsmenn hans væri skipaðir. Hann heldur því fram, að þar sem til stendur að velja þá hvern um sig í þeirri sýslu, sem sá sparisjóður er, sem þeir eiga að hafa eftirlit með, þá verði kunnugleiki þeirra svo mikill, að miklu meira sé byggjandi á þeim, heldur en á einum manni sem stjórnin skipaði fyrir alt landið. Hann gerir lítið úr þeirri hættu, sem vér óttumst, að þessir sýslueftirlitsmenn verði venzlaðir eða vandabundnir á einhvern hátt þeim mönnum, sem viðriðnir eru sparisjóðina. Eg hygg, að erfitt verði að finna áreiðanlegan mann innan hverrar sýslu, sem full vissa er um, að sé ekki tengdur sparisjóðsstjórninni á einhvern hátt, eða jafnvel sjálfur viðriðinn sjóðinn, hvort sem það væri þannig, að hann hefði fengið lán úr honum, eða það væri á einhvern þann hátt, sem gæfi honum tilhneigingu til að skýra ekki frá ástandi sjóðsins eins og það er í raun og veru. Þetta er áreiðanlega galli, sem fylgir mörgu eftirlitsmönnunum, og hlyti að koma í ljós.

Ef einn maður væri skipaður til þess að hafa eftirlit með öllum sparisjóðunum, og hann ferðaðist ár eftir ár um alt landið, þá mundi hann öðlast alla þá þekkingu, sem hægt er að hafa í þessu efni. Honum væri miklu betur treystandi til að líta hlutdrægnislaust á alt og skýra rétt frá öllu ástandi sjóðanna, því að hann mundi varla vera bendlaður við marga þá, sem sjóðina eru viðriðnir. Eg held því þess vegna fast fram, þrátt fyrir alt, sem sagt hefir verið, að miklu meiri trygging fáist fyrir ábyggilegu eftirliti, ef einn maður er skipaður til þess fyrir alt landið, heldur en ef þeir verða margir, sinn úr hverri sýslunni.

Nefndin er öll sammála um, að sparisjóðirnir greiði allan kostnaðinn, sem af þessu eftirliti leiðir. Því er eg einnig á móti. Mér finst eðlilegt, þegar þingið og stjórnin leggur sparisjóðunum þessar skyldur á herðar, að þá greiði landi kostnaðinn, sem þetta hefir í för með sér. Og hann verður alls ekki lítill, og að öllum líkindum miklu meiri ef eftirlitsmennirnir verða margir, heldur en ef hann væri aðeins einn.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) gerði lítið úr þeim kostnaði sem leiðir af stofnun nýrra sparisjóða, og efaðist um að þeir keypti sér allir eldhelda skápa. Eg get gefið honum þær upplýsingar, að það eru sárfáir sparisjóðir, ef það eru þá nokkrir, sem ekki útvega sér eldhelda skápa eða kistur, jafnskjótt og þeir taka til starfa. Og eg lít svo á, að það sé svo fjærri því að vera óþarft, að það væri mikil ástæða til að banna sparisjóðum að byrja starfsemi sína, fyrr en þeir hefði eignast slík ílát. Undir eins og þeir hafa nokkra peninga undir höndum eða verðbréf, geta þeir átt á hættu að missa það í eldsvoða, ef það er ekki geymt á eldheldum stað. Og brunnir peningar og verðbréf er algerlega tapað fé, því að slíkt er ekki hægt að fá vátrygt, ef eg man rétt. Sjá því allir, hversu nauðsynlegt það er fyrir sparisjóði, að eignast sem fyrst eldtrausta skápa, enda mun það vera hreinasta undantekning nú orðið ef það er dregið á frest. Mér er í fersku minni, að sparisjóður var stofnaður á Vestfjörðum í fyrra, og svo mikið er víst, að þeir sem þar stóðu næstir, létu það vera sitt fyrsta verk að kaupa eldheldan skáp. Er mér vel kunnugt um það, því að skápurinn var keyptur af mér. Það er því ekki rétt, að gera lítið úr kostnaðinum, sem sparisjóðirnir þurfa að standast í byrjuninni.

Yfirleitt hygg eg, að breytingar þessara breytingagjörnu manna sé ekki til bóta, heldur miklu fremur til hins gagnstæða. Þeir eru nú farnir að viðurkenna, að þörf sé á eftirlitinu, en þeir vilja aðeins að því verði hagað á einhvern annan hátt en stjórnin hefir stungið upp á. Og þegar þeim dettur nú ekki annað í hug, þá vilja þeir jafnvel hafa eftirlitið strangara en stjórnin hafði hugsað sér, og stinga því upp á að hafa eftirlitsmennina marga í staðinn fyrir einn. Eg hefi talað um annmarkana á því fyrirkomulagi, en auk þess má taka það fram, að hætt er við, að lítið samræmi fáist í eftirlitið, ef einn maður baukar við að rannsaka hvern sparisjóð. En það fæst áreiðanlega ef einn maður rannsakar alla sparisjóði landsins. Og það er ekki lítils virði.

Um einstakar smábreytingar ætla eg mér ekki að tala. Eg býst við, að menn hafi þegar komið sér niður á, hvernig þeir greiði atkvæði og hafa því löng ræðuhöld ekkert að þýða.