08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

72. mál, hlutafélagsbanki

Hannes Hafstein:

Eg ætla ekki að fara að halda langa hrókaræðu um þetta mál, Eg tel tilgangslaust að svara einstökum atriðum í ræðu háttv. 1. þm. (G.-K. (B. Kr.) orði til orðs, því að mikið af því, sem hann var að segja, er alveg þýðingarlaust fyrir það, sem um er að ræða í kvöld. Það sem fyrir liggur er ofur einfalt mál, og þarf ekkert tólfbankavit til að skilja það.

Eg skal fyrst aðeins gera þá athugasemd, að alt það, sem háttv. þm. sagði um seðlaútgáfurétt Nationalbankans í Danmörku, og seðlaútgáfu á mann í landinu var í lausu lofti bygt. Seðlaútgáfuréttur National-bankans er alls ekki takmarkaður, heldur gefur bankinn út eins mikla seðla eina og hann vill, aðeins gegn því að hafa lögboðinn málmforða fyrir þeirri seðlaupphæð, sem á hverjum tíma er í umferð, og öllum vitanlega hefir hann nú úti seðlaupphæð svo tugum miljóna skiftir umfram það er háttv. þm. sagði. Þar með fellur öll sú röksemdaleiðsla, sem hann bygði á þessum upplýsingum sínum. Þær 25 miljónir, sem talað var um í símskeyti um daginn, vóru alls ekki aukning á Nationalbankaseðlum, heldur sérstakir verðmiðlar, gefnir út af ríkissjóði Dana, af því að búist var við þörf á auknu veltufé vegna stríðsins.

En þetta skiftir ekki máli hér. Oss varðar ekkert um, hve mikið af bankaseðlum kemur á mann í öðrum löndum. Fyrir oss liggur málið þannig: Viðskiftaþörfin hefir vaxið svo innanlands, vegna þess að verzlunin er að verða innlend og atvinnuvegir, sérstaklega botnvörpuútgerð að eflast, að með hverju ári kemur í ljós meira og meira, að þeir innlendu verðmiðlar, sem vér höfum yfir að ráða, eru ekki nægilegir, þegar mest þarf á fé að halda. Á löggjafarvaldið að láta þetta afskiftalaust, eða á það að reyna að liðka þetta eftir þörf? Löggjafarvaldið hefir 1901 skuldbundið sig til að ekki skuli útgefnir aðrir nýir verðmiðlar innlendir, heldur en Íslandsbankaseðlar, meðan einkaréttur hans stendur. Á þá að auka seðlaútgáfu Íslandsbanka eða ekki?

Eins og háttv. framsögumaður meiri hlutans tók fram, gat nefndin ekki komið sér saman um það frumv., sem upphaflega var lagt fyrir þingið í þessu efni. Það vóru skiftar skoðanir um ýms atriði, er snertu skilyrðin fyrir aukinni seðlaútgáfu, og vil eg ekki vera að þreyta deildina með því að telja þau upp. Meiri hluti nefndarinnar kom sér saman um að snúa sér nú í þetta skifti eingöngu að því, hvað gera skyldi í bráðina með alveg sérstöku tilliti til þess ástands, sem af Evrópustyrjöldinni leiðir einnig hér á landi. Í stað þess að farið er fram á það í stjórnarfrv. að bankinn megi gefa út 5 miljónir í seðlum, með sömu gullforðatrygging eins og hingað til og afgjaldslaust að öðru en venjulegan ágóðahluta landssjóðs snertir, er hér í þessari breyt.till. vorri ekki farið fram á meira en það, að bankinn megi árið 1914–15 auka seðlaútgáfu sína um 700 þús. kr., gegn því að þessar 700 þús. kr. sé trygðar með 50% málmforða og auk þess borgi bankinn 2%. A. af því sem fram yfir málmforðann er í umferð á hverjum mánuði. Þetta á aðeins að vera bráðabirgðaráðstöfun til næsta þings, sem menn halda að bankinn gangi að, vegna þess að hann vill vinna sitt til að bæta úr hinni brýnu þörf, og því taka þessa boði, þótt það sé lakara fyrir hann, en gert var ráð fyrir í fyrstu.

Hin almenna ástæða fyrir því að hækka seðlaútgáfutakmarkið er sú, að með því móti fær almenningur og þeir, sem fé þurfa til þess að kaupa afurðir landsins af almenningi, ódýrara fé, heldur en með því að flytja inn gull eða seðla frá útlöndum. Það er bönkunum dýrara, að fá að láni alla upphæð þá, sem nota þarf, heldur en að eins þá upphæð, er lögskipaðri málmforðatrygging nemur, og auk þess meiri kostnaður og rentutap við sending fram og aftur hingað til lands. Þennan kostnað þarf bankinn að fá frá viðskiftamönnum. En það táknar það, að almenningur yrði að borga hærri vexti fyrir lán í bönkunum og verð á innlendum vörum yrði lakara vegna dýrari peninga. Þetta gildir alment þegar peningar eru fáanlegir frá útlöndum. En nú getur komið fyrir, að þeir sé alls ekki fáanlegir frá útlöndum eða þá að eins af skornum skamti. Þetta getur orðið í styrjöld þeirri, sem nú er að loga upp í álfunni.

Þegar svona sérstaklega stendur á, er ekki hægt að treysta því, að menn geti fylt skörðin með útlendu fé, og höfum vér þá ekki annað til innanlandsviðskiftanna en það, sem vér getum útvegað oss í landinu sjálfu. Eg heyrði að vísu, að háttv. 1. þm. G.-K. (B. gr.) neitaði því blátt áfram, að nokkur þörf væri á aukning á verðmiðli innanlands. Hann sagði, að sú verulega þörf Íslandsbanka væri ekki meiri en það, að hann hefði oft ekki úti meira en helming af seðlum sínum. Þessi háttv. þm. (B. Kr.) Segir nú svo margt, en eg hefi heyrt fleiri menn fara með bollaleggingar um þetta, t. d. vera að miða seðlaþörf bankans við það, hve mikið hann hafi að meðaltali haft úti á hverju ári undanfarið síðan hann tók til starfa. Eg þarf vonandi engum orðum að því að eyða, að slíkur reikningur getur ekki náð nokkurri átt. Það má vitanlega ekki miða hámark seðlaútgáfuþarfarinnar við það, sem seðlaumferðin kemst lægst, heldur skiftir að eins hitt máli, hvað hún kemst hæst á ári. Viðskiftin eru auk þess alt af á framflugi, og alt af þarf meira og meira til að fullnægja þörfinni. Seðlaútgáfan er nú komin að hámarki. Þótt ekki sjáist af reikningum bankans 1913, að seðlaútgáfan hafi nokkurntíma á árinu komist fast upp að hámarki, þá stafar það að eins af því, að tölurnar í reikningsyfirlitinu eru miðaðar við mánaðarlok. En í miðjum október f. á. eða heldur þó fyrr, var seðlaútgáfan yfir 2 milj. og 400 þúsund, svo að ekki skorti nema fáa tugi þúsunda í hámark. Og þótt ekki hefði verið komið svo langt í fyrra, þá sannar það ekki, að þörfin verði ekki knýjandi í ár. En ef vér berum saman þá mánuði, sem af eru þessu ári, við sömu mánuði í fyrra, þá sjáum vér, að alla mánuðina í ár hefir mikið meira af seðlum bankans verið í umferð heldur en síðastliðið ár.

Í janúarlok 1913 var úti 1.043.905 kr., en í janúarlok 1914 var um 250 þús. kr. meira af seðlum úti. Í febrúarlok 1913 nam seðlaútgáfan 938.380 kr., en í febrúarlok í ár 1.292.120 kr., eða rúmum 350 þús. kr. meira en í fyrra í sama mund. Í marz 1913 889.i40 kr., en í sama mánuði í ár 1.201.910 kr., þannig yfir 300 þús. kr. meira. Eins er það í apríl og maí. Í apríllok 1914 vóru enn yfir 300 þús. kr. meira, og í maílok yfir 400 þús. kr. meira í seðlum úti í ár heldur en í fyrra. Og ef nú slíku heldur áfram, sem engin ástæða er til að efa, þá yrði í október næstkomandi að minsta kosti þörf á fullri ½ miljón meira af seðlum heldur en í október í fyrra, og fáist ekki þessi lög samþykt, þá er það öllum augljóst, að bankanum yrði ómögulegt að fullnægja þörfinni.

Hvað þýðir svo þetta? Það þýðir það, að öll viðskifti yrði fyrir óeðlilega þvingandi hafti. Það þýðir það, að þeir, sem hefði ætlað sér að kaupa til útflutnings íslenzkar afurðir, ull, fisk, kjöt eða aðrar íslenzkar vörur, yrði að hætta við það eða taka þær að eins til umboðssölu, í stað þess að borga hverjum sitt, eins og nú er farið að tíðkast. Og eins er það með útlendu vörurnar, sem kaupmenn hafa. Menn geta ekki borgað skuldir sínar og öll kjör mundu versna. Bankarnir sæti seðlalausir, fengi ekki inn afborganir, vexti né víxilfé, og gæti ekki lánað út; þeir gæti ekki innleyst útlendar ávísanir, eða orðið við áskorunum útlendra banka um greiðslur. Þeir geta daglega búist við að fá skeyti frá útlendum viðskiftabönkum að borga þessum eða þessum manni svo og svo háa upphæð. Hvaðan ætti að taka gjaldmiðilinn, er alt væri tept ? Hvað þetta væri heppilegt fyrir lánstrauat bankanna og landsins út á við, ætlast eg til að allir háttv. þingmenn skilji.

Eg hygg, að minni hluti nefndarinnar hafi verið eitthvað annars hugar þegar hann komst að þeirri niðuratöðu, að það myndi pumpa gullið út úr landinu, ef bankinn fengi leyfi til að auka seðlaútgáfu eina.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) lagði áherzlu á það, að ef bara bankinn hefði enga seðla að láta, þá myndi útlendingar, sem hér vildi kaupa vörur, streyma inn í landið með lúkur og vasa fulla af gulli. En hér við er það að athuga, að sama ástæðan, sem veldur því, að landssjóðurinn og bankinn geta ekki fengið gull frá útlöndum um þessar mundir, veldur einnig því, að menn frá útlöndum geta ekki komið hingað með gullið í vösunum til að kaupa fyrir það afurðir landsins. Um það þarf væntanlega ekki frekari útlistun, þótt margt mætti fleira segja um röksemd eins og þessa.

Það er sannfæring mín, að það væri rétt og algerlega háskalaust í alla staði, að þingið nú þegar tæki þá leið, að verða við óskum bankastjórnarinnar, og meira að segja, þótt hámarkinu væri kipt burt og seðlaútgáfa leyfð eftir því sem viðskiftaþörfin krefur, að eins gegn því að ákveðinn gullforði væri fyrir seðlunum, á sama hátt og ákveðið er um Nationalbankann í Danmörku og í flestum löndum öðrum. Þá bráðabirgðaráðstöfun, sem um er að ræða í breyt.till. þeim, sem hér liggja fyrir frá meiri hl. nefndarinnar, álít eg ekki að eins hættulausa fyrir landið, heldur álít eg hitt stórháskalegt, ef þingið hafnar jafnvel þessu og gerir ekkert í þessu máli, þó að seðlarnir sé ekki og verði ekki ætlaðir til að senda þá til útlanda, þá hjálpa þeir þó til að borga það, sem keypt verður frá útlöndum, með því að láta bankana annast greiðslur utanlands. Ráðstöfunin er enganveginn gerð til þess að auðga Íslandsb., heldur er hún gerð fyrir almenning, gerð til þess að gera bankanum mögulegt að hjálpa innlendum viðskiftum, svo að þeir, sem á annað borð geta haft not af gjaldmiðli, ef til er, geti haldið áfram að lifa og starfa eins og áður, gerð til þess að alt stanzi ekki eða teppist í rás sinni.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) sagði, að hér væri verið að smeygja inn litla fingrinum, til þess að síðar yrði ómögulegt að neita bankanum um aukinn seðlaútgáfurétt með óbreyttum kjörum. Það sama mætti alt eins segja um allar aðrar bráðabirgðaráðstafanir, sem gerðar hafa verið nú í þinglokin vegna ástands þess, er af stríðinu leiðir. Það mætti t. d. segja, að ákvæðið um óinnleysanleik seðlanna væri til þess að »smeygja inn litla fingrinum«, að fá í þessu efni sömu kjör og landsbankinn. En þetta er að eins orð og viðbára. Það hljóta allir að sjá, að það hvílir engin skylda á þinginu að veita bankanum óskorað leyfi til aukinnar seðlaútgáfu hér eftir, þótt hann fengi nú rétt til ákveðinnar aukningar þetta árið.

Það væri hægur vandi fyrir næsta þing að kippa að sér hendinni, ef því sýndist það forsvaranlegt. En eg hygg, að næsta þing muni verða svo skipað, að það sjái og verði samhuga um, að landsins vegna má til að færa mjög upp hámark seðlaútgáfunnar. Það má ekki múlktera allan landslýð með hækkuðum vöxtum að eins fyrir misskilning og mótþróa einstakra þvergirðinga.

Eg veit ekki, hvers vegna hinn háttv. þm. G.-K. (B. Kr.) var stöðugt að afsaka sig, að það væri ekki af óvild til Íslandabanka, að hann talaði svona, og að hann vildi Íslandsbanka ekki nema alt hið bezta. Það var enginn að ásaka hann um það efni. En þegar einhver að fyrra bragði þannig er að afsaka sig gagnvart hinum og þessum grun, þá liggur það mjög nærri að minnast hins alkunna frakkneska orðtaks: »Quis'excuse s' accuse«, þ. e. sá, sem afsakar sig, ásakar sig.