08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (688)

72. mál, hlutafélagsbanki

Pétur Jónsson:

Eg hefi ekki í hyggju að fara ítarlega út í þetta mál, bæði af því, að eg hefi fáu við það að bæta, sem háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sagði, og hinu, að eg er enginn bankafræðingur. En bankafræði háttv. l. þm. G.-K. (B. Kr.) skil eg ekki og treysti ekki og efast um, að margir geri það hér í deildinni.

Mér finst eg hafi orðið var dálítils misskilnings hjá sumum háttv. þingm. sem hér hafa tekið til máls og eg hefi átt tal við um bankamál það, sem hér liggur fyrir. Mér finst þeir hafi misskilið eða misbrúkað orðið seðlaútgáfuréttur. Þeir segja, að hér sé verið að auka seðlaútgáfurétt Íslandsbanka, en þetta er ekki alls kostar rétt. Seðlaútgáfuréttinn er ekki verið að auka nú, því að árið 1901 var hlutabankanum þegar veittur einkaréttur til allrar seðlaútgáfu á Íslandi, svo að hann þarf ekki frekari rétt í því máli nú. Honum var veittur allur rétturinn. Eg var á móti því 1901 að veita þennan einkarétt til seðlaútgáfu, en háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) var því þá fylgjandi. Þarf því ekki að þræta um, hvort auka eigi þennan rétt, því að hann var allur veittur, eins og áður er sagt.

Takmarkið, sem þá var sett fyrir upphæð seðlaútgáfunnar, er oss hvorki að kenna eða þakka, sem á móti vórum. Bankanum var þá heimilað að gefa út þá upphæð seðla, sem talið var hæfilegt og nauðsynlegt eftir viðskiftaþörfinni.

Nú á að hækka þetta takmark til bráðabirgða, færa upp það takmark, sem sett var af alt öðrum ástæðum en þeim, sem vér höfðum móti því, að veita einkaréttinn og það af því, að seðlaþörfin er svo mjög aukin. Þegar borin er saman seðlaumferðin í landinu eins og hún er nú og eins og hún var þá, þá sést að sú seðlafúlgan, sem bankanum var leyfð í fyrstu,?: 2½ miljón, var honum meir en nóg, jafnvel hálfu meiri en á þurfti að halda framan af. Hefir ekki komið í ljós, að af því sprytti nein hætta, þótt bankinn hefði framan af svo rúmar hendur.

Hvað táknar það, að þörfin heimti að meira sé útgefið af seðlum ?

Er það þörf bankana, sem heimtar það ?

Nei, alls ekki. Það er einmitt vor eigin þörf, landsmanna, viðskiftaþörfin í landinu hefir aukist svo, að vér þurfum sjálfir á aukningunni að halda. Auðvitað er það jafnframt hagur bankans að auka seðlaútgáfuna, en landssjóði er líka hagur í því, af því að hann nýtur tekna af bankanum, og svo er honum ætlaðar sérstakar tekjur af þessu samkvæmt tillögu nefndárinnar. Eg vil endurtaka það, að það er hugsunarvilla, að verið sé með þessu frumv. að auka seðlaútgáfuréttinn.

Menn hafa sagt, að seðlarnir reki gullið út úr landinu. Það er að vísu rétt, að áður en menn fóru að nota seðlana, sást hér talsvert gull í viðskiftaveltu manna í meðal, því að seðlaleysið neyddi menn til að nota það sem verðmiðil, en gull er miklu dýrara en seðlar og óhentugri gjaldmiðill manna á milli. Og þegar seðlar Landsbankans vóru gefnir út, þá útrýmdu þeir að vísu gulli úr landinu, en þeir bættu þó viðskiftin stórmikið innanlands. Og hvað eiga nú einstakir menn hér með gull að gera ? Eg þekki ekki, að menn fái hér meira fyrir 10 króna gulpening heldur en fyrir 10 króna seðil. Þau einu not, sem verða að gullinu fram yfir seðlana eru, að gullið tryggir seðlana, það þarf að vera geymt þeim til tryggingar, en manna í milli er þess engin þörf. Vér höfum ekki viðskifti við aðrar þjóðir en þær, sem alt eina selja vörur sínar fyrir bankaávísanir eins og gull.

Eg þekki það af gamalli reynslu, að það er erfiðleikum bundið að fá gull flutt hingað frá útlöndum, og dýrt að fá gull frá Englandi um þessar mundir þegar pd. sterl. er orðið kr., 18.40 en selst hér á kr. 18.05.

Eg get ekki komið auga á, að nokkrum manni geti stafað nokkurt mein af þessari aukningu seðlafúlgunnar, og ekki er heldur unt að benda á, að Íslandsbanki stofni sér eða landinu í nokkurn minsta háska. Bæði er hér um litla upphæð að ræða, og ef 50% í gulli eru settir seðlaaukningunni til tryggingar, þá virðist mér fengin næg, sanngjörn og sæmileg trygging.