08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

72. mál, hlutafélagsbanki

Björn Kristjánsson :

Eg skal gjarna kannast við, að það hafi rétt verið hjá háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) að seðlaútgáfa Nationalbankans væri ekki aukin nú í ár, heldur að stjórnin hafi gefið út gjaldmiðil 25 miljónir. Mér var sagt það fyrir nokkrum dögum, eða eg skildi það svo, að Nationalbankinn hefði fengið heimild til að gefa út 25 milj. seðla. En úr því, að Nationalbankinn hefir ekki fengið að gefa út gjaldmiðil eftir þörfum, en að landið hefir gert það, þá styrkir það minn málstað, að landið sjálft eigi að hafa hina auknu seðlaútgáfu, ef hennar er þörf, sem eg neita að sé, en ekki einstakra manna banki. Mér er kunnugt um, að það er rétt ómögulegt að fá gull frá öðrum löndum. En það hefir verið spurt að því, hvað vér hefðum með gull að gera. Vér þurfum gull til að kaupa fyrir nauðsynjar vorar, og vér þurfum gull til að tryggja seðlana ef við þá er bætt.

Því er nú stungið að mér af sessunaut mínum, að það megi »deponera« þá ytra gullforðanum fyrir Íslandsbanka, Já, mikið rétt, þá leið má fara, en hún er þó ekki lögleg og ekki kaupum vér nauðsynjar nú fyrir gull, sem liggur niður í Kaupmannahöfn, úr því skipagöngum þaðan er lokað.

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sagði Íslandsbanka hafa mesta þörf fyrir seðla í október, en einmitt þá streyma þeir sem mest inn í Landsbankann og eg get sagt hinum háttvirtu þingmönnum, að vér erum svo miklir vinir Íslandsbanka, Landsbankamennirnir, að vér mundum verða fúsir til að hlaupa þá undir bagga með honum og lána eitt til tvö hundruð þúsundir, ef á lægi gegn handveði í pappírum hans, eg held mér sé alveg óhætt að lofa því. Eins er Íslandsbanki vanur að eiga inni erlendis um þetta leyti árs. Hvers vegna notar hann ekki þá inneign sína þar til þess að uppfylla viðskiftaþörfina innanlands?

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) kvað öll viðskifti Íslandsbanka mundu stanza, ef leyfi þetta væri ekki veitt. En má eg spyrja: Gerði stjórn Íslandsbanka ráð fyrir því í fjárhags-áætlun sinni á þessu ári, að þetta leyfi yrði veitt? Eg held, að hann geti ekki hafa tekið að sér greiðslur fyrir útlend »firma« byggjandi á því, að þessi aukni seðlaútgáfuréttur væri veittur á þessu þingi.

Slíka áætlun mundi mega telja alveg óforsvanlega, gerða af banka.

Og hafi áætlun hans verið bygð á þeim gjaldmiðli, er hann hefir nú til umráða, þá getur ekki komið nein hindrun á fyrirhuguð viðskifti hans. En ef bankinn sér fram á, að hann hafi hér ekki nóg viðskiftafé fyrir hendi, þá verður hann að semja um að mega borga út í tékkum á inneign sína ytra.

Afarmikið af því, sem viðskiftamenn bankans þurfa að borga, er einmitt skuldir utanlands, og þá getur þetta verið hentugt fyrirkomulag, að fá ávísun hjá bankanum á það fé, sem hann á geymt ytra.

Landsbankinn hefir stundum beint áskilið sér að mega borga með tékkum, ef á vantaði fé heima fyrir, og yfir höfuð ætti að nota það meira en gjört hefir verið.

Meðan Landsbankinn var hér einn, veitti hann oft lán með því móti, að mega borga lánið með tékkum á Khöfn. Slíka tékka seldu menn svo kaupmönnum, sem greiða þurftu vörur erlendis. Og mjög auðvelt reyndist að koma þeim í peninga. Eins gæti bankinn, ef hann annars þyrfti á því að halda, gefið út í bili gjaldmiðil, t. d. handhafatékka á sjálfan sig, sem gengið gæti eins og seðlar.

Eg benti á, að það væri flestra landa síður að ákveða, hvað mikið megi vera úti af seðlum í einu. Eg hefi ekki lesið síðari löggjöf Dana um það efni, hvað megi gefa út þar af seðlum, og get því ekki dæmt um, hvort sú staðhæfing sé rétt, að nú megi Þjóðbankinn þar gefa út eins mikið og hann vill.

Háttv. þingm. sagði, að Íslandsbanki hefði orðið til að bjarga landinu með því að afhenda landsstjórninni gullforða bankans, en eg verð að segja það, án þess eg vilji á nokkurn hátt draga úr heiðri hans, að það var bein lífsnauðsyn fyrir bankann sjálfan — enda gert eftir hans beiðni — og það var gott fyrir báða, ef til þess kemur að landið þarf að grípa til gullforðans til vörukaupa.

Bankinn fekk undanþáguna frá að leysa inn seðla sína með gulli, og landið fekk gullið, og út á það er ekkert að setja.

Út af þeim ummælum háttv. sama þm. (H. H.) að með því að afsaka mig sýndi eg, að eg væri sekur um hlutdrægni, vil eg segja það, að afsakanir mínar vóru sprotnar af því, að einmitt hann hafði borið mér það á brýn í nefndinni, að eg væri á móti þessu máli af hlutdrægni, enda kemur það vel heim við það, sem hann segir nú, að það muni stafa af því, að eg varð ekki bankastjóri við Íslandsbanka. Þá ásökun mintist hann þó ekki á í nefndinni.

Eg sný mér þá að háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), sem hélt því fram, að Íslandsbanka hefði verið afhentur allur seðlaútgáfuréttur í landinu árið 1901.

Hvers vegna er þá verið að biðja um hann aukinn nú, ef það er satt ?

Jú, honum var að vísu veittur seðlaútgáfuréttur 1901, en sá réttur var takmarkaður við tiltekna upphæð, 2½ miljón. Til þessarar upphæðar hafði hann einkarétt, en ekki meira. Þar af leiðir, að ef hann vill fá meiri rétt til seðlaútgáfu, getur landið sett þau skilyrði fyrir þeirri aukningu sem það vill.

Þetta var aðalatriðið í ræðu háttv. þingmanns; um önnur smáatriði finn eg eigi ástæðu til að eyða orðum.

Eg vona svo að breytingartillögur meiri hl. nefndarinnar verði feldar, hvað svo sem gert verður við frumv. sjálft, frv. Ed., um það skal eg ekkert segja annað en það, að ef yfir höfuð væri ástæða til að veita bankanum aukinn seðlaútgáfurétt, þá er það frv. bygt á fullri skynsemi og á réttum grundvelli.