08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

72. mál, hlutafélagsbanki

Einar Arnórsson :

Það eru tvö atriði í ræðu háttv. 1. þm. (Gullbr.- og Kjósarsýslu (B. Kr.), sem mig langar að gjöra athugasemdir við.

Hann sagði, að ef brt. vorar meiri hl. næði fram að ganga, þá hefði Íslandabanki smeygt inn litlafingrinum og þess mundi þá ekki langt að bíða, að hann smeygði inn allri hendinni.

Þetta er ekki rétt skoðað hjá háttv. þm. (B. gr.). Setjum svo, að þingið vilji ekki sinna þessu nú, en að bankinn fari þó fram á hið sama á þinginu 1915, hver getur þá ábyrgst að málaleitun bankans verði ekki samþykt þá, ef þeir menn verða í meiri hluta, sem vilja láta honum heimildina í té og á sama grundvelli, sem nú er farið fram á. Þeir mundu gera það þá, hvort sem frv. er samþykt eða felt á þessu þingi. (Björn Kristjánsson : Það er ekki víst). Nei, en allar líkur til þess. Eg býst ekki við, að þeir breyti skoðun sinni um, að þörf sé á heimildinni og að óhætt sé að veita hana.

Þó að brt. nái fram að ganga, þá ber að sama brunni. Þeir, sem vilja veita bankanum frekari rétt, geta alveg eins gert það næst, hvort sem þetta verður felt eða samþykt, og að því leyti er sama hvort sigrar nú.

Eg skil ekki, hvernig háttv. 1. þm. (Gbr: og Kj.s. (B. Kr.) kemst að þeirri niðurstöðu, að betra væri að samþykkja frv. Ed. en brt. nefndarinnar, því að með frv. er bankanum veittur meiri réttur en með brt , þó að hann geti ekki notað hann þegar í stað, þar sem hlutafjáraukningin yrði óframkvæmanleg að svo komnu, vegna Norðurálfuófriðar þess, sem á er kominn. Eftir frv. Ed. er rétturinn sem sé ótímabundinn og engar kröfur gerðar um aukna málmtryggingu fyrir fyrstu 700 þúsundin, ekkert landssjóðsgjald og engin tímatakmörk sett.

Ef brt. nær fram að ganga, tel eg líklegt, að bankinn geti bætt úr þeirri gjaldmiðils sveltu, sem nú mun vera fyrir dyrum. (Björn Kristjánsson: Það er engin svelta!). Ja, þeim ber nú ekki saman um það, bankafræðingunum, og er erfitt að greina þar í milli skins og skugga, en eg verð þó að hallast á þá skoðun, að svo geti farið, og þess vegna er brt. fram komin, að henni er ætlað að bæta úr þessari sveltu.

Hinn háttv. þm. (B. Kr.) Sagði, að leyfisbeiðendur 1901, hefði gefið vilyrði um það, að seðlaupphæðin og hlutafjárupphæðin skyldi jafnan fylgjast að, en hann gat þess ekki, að Þjóðbankinn finnur enga ástæðu til að setja þetta skilyrði. Þetta er á sama þingskjali (í Alþingistíðindum A 1901, þskj. 45), sem eg vitnaði til áður, eg man ekki á hvaða blaðsíðu, en háttv. þm. getur vafalaust fundið það, því að hann er þessu kunnugri en eg.

Þó að viðskiftateppa sé nú, þá vonast menn til að nýjar leiðir opnist þegar ófriðnum er lokið, og útflutningur og innflutningur örfist að sama skapi, sem teppunni nemur, og að þá muni einnig seðlaþörfin aukast í sama hlutfalli sem viðskiftin.