08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

72. mál, hlutafélagsbanki

Hannes Hafstein:

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) gat þess, að ef ekki fengist gull, yrði ekki gagn að því, þó að sú hámarksuppfærsla yrði leyfð, sem hér er um að ræða.

Það er rétt, það verður ekki gagn að , því, nema gull fáist nægilegt í lögboðinn málmforða. En þó að gullið, er því nemur, fengist ekki hingað sent, álit eg þó, að þessu megi bjarga við með því, að bankinn láti taka af inneign sinni í erlendum bönkum nægilegt gull og leggi það sem »depositum« í einhvern öruggan banka.

Annað atriði, sem sami hv. þingm. hélt fram, var, að meðan bankarnir hefði fé eða lánstraust í erlendum bönkum, þá þyrfti ekki aukna seðlaútgáfu, heldur mætti alt af nota tékka í seðlastað þannig, að bankarnir greiddi mönnum inneignir sínar og útborguðu mönnum veitt lán með tékkum á útlenda banka í stað peninga. En eg er hræddur um að þetta gæti ekki komið að gagni nema að eins í mjög fáum tilfellum. Eg hygg sannast að segja, að íslenzkum bændum væri ekki mjög mikið gagn í því til viðskifta hér, þó að einhverjir viðskiftamenn þeirra væri með 1000 kr., 5000 kr. eða jafnvel 50.000 króna tékk-ávísun í vasanum. — Þetta minnir helzt til mikið á söguna um miljónaseðilinn eftir Mark Twain, sem segir frá manni, sem gekk með miljóndollara seðil í vasanum, en fekk honum aldrei skift, svo að hann var rétt að segja orðinn hungurmorða með alla peningana.

Það getur og komið fyrir, að bankar frá útlöndum sendi hingað tékkávísanir til útborgunar í bönkunum hér, til þess að upphæðin geti notast hér til innanlandsviðskifta. Ef nú svo hittist á, að tékkavísunin kæmi einmitt frá banka, sem bankinn hér ætti inneign sína hjá og yrði að stíla tékka sína á, þá finst mér það nokkuð skrítið og jafnvel ekki laust við að vera hjákátlegt, ef hann færi að bjóðast til að borga þessa ávísun með nýrri ávísun á sama banka, og sama væri jafnvel þótt á annan erlendan banka væri. Það væri »að mála eld með eldi«, eina og segir í rímunni, og hygg eg að þetta bjargráð dugi ekki.

Að því er snertir þá reglu, sem hv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) sagði að vakað hefði fyrir mönnum við stofnun Íslandsbanka, að ekki megi gefa út fleiri seðla en nemur innborguðu hlutafé bankans, þá hefir háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) sýnt fram á, að það er ekki rétt hermt hjá hinum háttv. þm., enda er ekki annarstaðar í heimi svo eg viti fylgt slíkri reglu, að miða upphæð seðlafúlgunnar við hlutafé seðlabanka, heldur gullforðamagnið. Ef þessi hnitmiðun seðlaútgáfunnar við hlutaféð er aðalkosturinn við afskifti efri deildar meiri hlutans af þessu máli, og aðalkjarninn í efrideildar breytingum, þá verð eg að álíta að hinir kostirnir við þær sé fremur rýrir.