10.08.1914
Neðri deild: 39. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

72. mál, hlutafélagsbanki

Björn Kristjánsson:

Eg gerði ítarlega grein fyrir því í fyrrakvöld, að engin ástæða væri til að auka hér við seðlaútgáfurétt nú, og eina gerði eg grein fyrir því, að vér værum engu bættari, þó að vér fengjum verðlausa óinnleysanlega seðla. Eg sýndi og sannaði, að það bjargar ekki landinu eða þörfum þess að neinu leyti. Þessir seðlar geta ekki orðið notaðir til annars en að leggja þá á pósthúsið fyrir erlendar póstávísanir, sem landið sekkur sér í skuldir fyrir. Innanlands er ekki rúm fyrir meiri seðla en vér höfum.

Eg færði ennfremur rök að því, að gull er hér mjög fátítt manna í meða,l, en seðlar svo miklir, að það nemur 38 kr. og 50 aura á hvert höfuð landsmanna. En reynslan hefir sýnt það í nágrannalöndunum, samkvæmt skýrslu þjóðbankans 1901, að þá fyrir 20 árum var reynsla fyrir því, að viðskiftaþörfin erlendis, í Noregi, Danmörku og Svíþjóð var ekki meiri en 37 kr. á mann. En 1901 telur Þjóðbankinn að peningaviðskiftaþörfin hafi þá verið, í Noregi tæpar 40 krónur á mann, í Svíaríki 40 krónur og í Danmörku 45 krónur.

Eg sneiddi hjá því við fyrri umræðu af einskærri hlífni, að grípa til þeirra úrræða, að benda á hin veikustu og viðkvæmustu atriði í þessu máli. En þess virðist því miður vera þörf, til þess að mönnum skiljist, hvað hér er um að verá. Að vísu býst eg við, að atkvæðagreiðslan fari nú eins og áður, en þjóðin á heimting á upplýsingum um þetta mál, og eg treysti henni til að leggja sanngjarnan dóm á, þegar hún sér, hvernig öllu er háttað.

Eg neyðist til þess, vegna deildarinnar, að draga tjaldið dálítið betur frá þessu atriði.

Eg er alveg viss um, að sumir háttv. þingmenn hafa greitt frumvarpinu atkvæði með bindi fyrir augum í fyrrakvöld, og það bindi hefir Íslandsbanki lagt fyrir augu þeirra.

Íslandsbanki hefir sem sé gætt þess vandlega að birta engan mánaðarreikning á þessu ári, varast eins og heitan eldinn að gera mánaðarleg reikningsskil í íslenzkum blöðum, eins og ákvæði í reglugerð hans mæla þó fyrir; þar segir, að bankinn eigi »við hver mánaðamót« að birta í íslenzku blaði yfirlit yfir hag sinn.

Þetta gerði bankinn nokkurnveginn reglulega fram að 1910, nokkuð óreglulega síðan, en á þessu ári hefir hann alls engan reikning birt, svo að þingið hefir ekki átt kost á að athuga hag bankans.

Hvaða tilgang gat bankinn haft til að hætta á þessu ári að birta reikninga sína? Eg lít svo á, að hann hafi gert það til þess eins, að þingið ætti ekki kost á að athuga þá áður en það samþykti þetta frumvarp. Eg get ekki séð neina aðra ástæðu til þess, og mig furðar á, að stjórnin skuli ekki hafa ýtt undir bankann með að birta reikninga sína.

Það er satt, að birzt hefir í Danmörku, í dönsku blaði, sem reglugerðin minnist ekki á, ágrip af reikningum bankans, og af því að svo vill til, að Landsbankinn fær þetta blað, þá sá eg, eða réttara sagt, mér var bent á það í nefndu blaði, að þar var ágrip af reikningum bankans, og þess vegna hefi eg átt kost á að kynnast þeim. En nú mun einnig vera hætt að birta reikningságripið þar.

Annan tilgang en þennan, sé eg ekki að bankinn geti hafa haft til þess að birta ekki reikningana.

Enginn maður hefir sagt nokkuð, sem bendi að nokkru leyti til þess, að þetta sé ekki gert í ákveðnum tilgangi. Og þangað til annað verður sýnt og sannað, held eg því fram, að tilgangurinn hafi ekki getað verið annar en sá, sem eg sagði. (Hannes Hafstein: Hver?). Sá að láta ekki alþingi eiga kost á að kynna sér hag bankans.

Eg hlífðist við mörgu við 2. umræðu þessa máls, sem upplýsingar þurfti að gefa um, í fullu trausti til þeirrar gætni, sem deildin mundi sýna í þessu máli. Eg hugsaði hún mundi gæta að sér, þegar ekkert lá fyrir um hag bankans, nema munnleg sögusögn hans eigin þjóna. Ekki svo mikið sem skrifleg skýrsla sé hér um hag bankans frá bankastjórninni, sem þörf væri þó að kynna sér og vita um, áður en meiri hlunnindi eru veitt þessum banka, eins og eg drap lítillega á við 2. umræðu.

Eg sé ekki, hvernig þroskað og ráðvant þing ætlar sér að veita bankanum nokkurn aukinn seðlaútgáfurétt fyrr en þeim misfellum er kipt í lag, sem nú eru á bankanum. Stjórn Íslandsbanka hefir rækilega fært sér í nyt þær misfellur, eða holur, sem eru í löggjöf þeirri, er hann snertir.

Eg skal þegar nefna eitt atriði. Íslandsbanki er Limited, þ. e. a. s. þar er engin persónuleg ábyrgð að baki. Þetta þarf í sjálfu sér ekki að vera ilt, ef bankanum er vel stjórnað, en eg vil benda á það, að hér kemur þessi banki fram eins og ó-limited. Og eg vil ennfremur benda á, að bankinn er í tvöfaldri hættu vegna sparisjóðadeildarinnar annars vegar og hins vegar þeirrar skyldu, að innleysa seðlana. Bankanum er hætta búin, ef ráðist er á hann bæði af þeim, sem eiga þar í sparisjóðum, og hinum, sem vilja fá gull fyrir seðla sína.

Árið 1901, þegar rætt var um stofnun þessa banka, þá var ekki gert ráð fyrir, að bankinn yrði háður nema annarri þessari hættu, sem sé skyldunni til að innleysa seðla.

Bankanum var ekki ætlað að hafa sparisjóð, og hann er hreint og beint brot á einkaleyfislögunum. Menn geta séð það á fylgiskjali með fylgiskjali 45 við Alþingistíðindin 1901, að þar var það hreint og beint gert að skilyrði af stjórninni, að bankinn mætti ekki reka sparisjóð, og var það gert samkvæmt tillögum þjóðbankans danska.

Þjóðbankinn segir svo í skjali sínu til stjórnarinnar :

»Með tilliti til þess, hvort skeyta eigi sparisjóðsdeild við þennan nýja banka, verður það ótvírætt að viðurkennast, að slíkt samband væri í eðli sínu röng grundvallarstefna, því sparisjóðir eru, samkvæmt reynslu, sérstaklega háðir úttekt af uppþotskendum ástæðum (panikartede Pengeudtagelser) og því skapaðir til að setja seðilbanka í peningaþröngu. Þetta segir Þjóðbankinn, og stofnendur bankans svara þessu með bréfi 29. jan. 1901, og skal eg, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að lesa svar þeirra við þessu. Það er svo látandi:

»Út af athugasemdum stjórnar Þjóðbankans við álit Efri-deildar Alþingis, þar sem hún telur ranga grundvallarstefnu að skeyta sparisjóðsdeild við seðlabanka, þá fellur það alveg saman við skoðun vora um það efni, og þess vegna höfum vér heldur ekki ætlað oss að láta Íslandsbanka taka að sér sparisjóð Landsbankans.

En ef menn . . . . . skyldu óska, að Íslandsbanki tæki að sér stjórn sparisjóðsins í Reykjavík, mundum vér taka það að oss, — þó þannig, að sparisjóðurinn yrði sjálfstæð stofnun« Þeir eru því alveg á sama máli stofn

endurnir um það, að hætta sé fyrir seðlabanka að reka sparisjóð. En af því að þá var í upphafi þingsins gert ráð fyrir, að Landsbankinn yrði lagður niður, þá er talað um þetta atriði viðvíkjandi sparisjóðinum, og það var auðvitað sama, hvort Íslandsbanki skeytti sparisjóði Landabankans við sig, eða að hann stofnaði sparisjóð sjálfur, eins og hann hefir gert. Hættan var söm.

En af þessu sést ljóslega, að báðir koma sér saman um það fyrirfram, og áður en lögin eru samin, að bankinn reki ekki sparisjóðsstörf. Og upp á það meðal annars var bankanum veittur seðlaútgáfuréttur. Og lögin heimila bankanum ekki heldur að reka sparisjóðsviðskifti. Þau taka ekkert fram um það. En það þurfti ekki að banna bankanum það, bæði vegna þess, sem á undan var gengið, og hins, að í lögunum stendur að eins, hvað bankinn megi gera. Hitt gæti enginn til tínt í slíkri löggjöf, hvað bankinn mætti ekki gera.

En það vill svo vel til um þetta eina atriði — sparisjóðsreksturinn —, að af undirbúningi málsins og allri undirbygging má sjá, hver tilætlunin var. Bréf þau, sem eg las upp, eru svo ótvíræð, sem mest má verða, að þar er engum blöðum um að fletta.

Bankinn mátti ekki og átti ekki að reka sparisjóðsstörf, og af þeim og seðlainnlausninni stendur hann í tvöfaldri hættu.

Landið ber alla ábyrgðina af seðlaútgáfunni, þó að lögin mæli ekki beint svo fyrir. Seðlarnir eru hér þvingaður gjaldeyrir, og hlýtur landið því að bera alla ábyrgð á seðlunum.

En nú er fróðlegt að sjá, hvernig Íslandsbanki fór að því, að smeygja inn hjá sér sparisjóðsrekstrinum, og hvað það er, sem veldur því, að hann hefir aparisjóð, sem nemur eins miklu eins og nú er raun á orðin.

Í reglugerð bankans frá 25. nóv. 1903 er litlafingrinum smeygt inn. Þar segir svo í 13. gr. hver störf hans sé :

»Bankinn hefir þess konar störf á hendi, sem nú skal greina :

1. Að taka við peningum á dálk eða sem innláni«.

Samkvæmt lögunum 1905 og undirbúningi þeirra verður þetta ákvæði ekki skilið á annan veg en svo, að »taka á dálk« þýði sama sem að taka á hlaupareikning, og orðin »eða sem innlán« sé endurtekning á orðunum »á dálk«. En í danska textanum má sjá »wo der Hund liegt begraben« (hvar fiskur liggur undir steini). Þar standa þessi orð : »Modtagelse af Penge paa Folio og som Indlaan«. Hér ber ekki saman danska og íslenzka textanum. Rétt meining þessara orða er viðtaka peninga á hlaupareikning og sem innlánum. Danska orðið »Indlaan« er hér innleitt og látið tákna sparisjóði, sem það táknar ekki. Innlánum í Danmörku er svo fyrir komið, að bankar, sem ekki reka sparisjóðsstarfsemi, taka við innlánum með 3–6 mánaða uppsagnarfresti. Munurinn liggur í því, að um innlán er ákveðinn uppsagnarfrestur, eina og á sér stað við svo kölluð innlánsskírteini í bönkum hér. Og venjulega um stærri upphæðir að ræða.

Þetta ákvæði í lögunum frá 1905 hefir Íslandsbanki skilið svo, að hann gæti gefið út reglulegar sparisjóðsbækur, og veðsett sparisjóðseigendum sérstaklega allar eignir bankans, alt hlutafé og varasjóð. Með þessum hætti eru 1905 veðsettar 2 miljónir króna. Eg kalla það veðsetning, þótt það orð eigi ef til vill ekki við frá stranglagalegu sjónarmiði, en sparisjóðseigendur geta ekki skilið ákvæðin í sparisjóðsbókunum öðru vísi, og mun eg víkja að því síðar. Í júlí 1914 veðsetur bankinn þannig 3 milj. kr. á þennan hátt, auk annarra eigna bankans.

Nú mun eg finna orðum mínum stað með því að lesa upp, með leyfi háttv. forseta, ákvæði úr sparisjóðsbókum Íslandsbanka. Eg hefi í höndum sparisjóðsbók við Íslandsbanka, sem út er gefin 18. júlí 1914. Þar stendur svo með feitu letri :

»Hlutafé bankans: 3,000,000 krónur svo og aðrar eignir hans, eru til tryggingar innlánum í Islands banka«.

Með þessu er það gefið sparisjóðseigendum fullkomlega í skyn, að þessar skyldur hvíli ekki á bankanum gagnvart öðrum en sparisjóðseigendum. Bankinn lætur þá ekkert um það vita, að hann er limited, það er, að engin persóna hefir ábyrgð á bankanum, tryggingin því að eins bygð á hlutafénu, ekki að hlutabréf hans eru í júlí þ. á. komin niður í 84 af hundraði– - nú niður í 80 af hundraði, — að sá hluti, sem gulltrygður er, er veðsettur öðrum, að hlutaféð er að nokkuru leyti sett sem trygging fyrir veðdeild og loks að hlutaféð er trygging fyrir öllum öðrum skuldum bankans. Þegar alls þessa er látið ógetið, hlýtur fólk að standa í þeirri meiningu, að sparisjóðsféð sé trygt fram yfir alt annað.

Utanlands mundi hver stjórn hafa bannað þessum banka að reka sparisjóðsstarfsemi, hvað þá að gabba almenning með þannig lagaðri auglýsing í sparisjóðsbókum sínum. En alt öðru máli er að gegna hér. Hér ber stjórnin svo mikið traust til bankans, að hún leyfir honum að reka sparisjóðsstarfsemi, án þess að heimtað sé nokkurt sérstakt tryggingarfé fyrir sparisjóðsfénu. En að Landsbankanum er gengið svo hart, að honum er þröngvað til að hafa 20% af innstæðufé í verðbréfum, liggjandi fyrir sem trygging sparisjóðsins, og var engin leið úr því að aka, þrátt fyrir það þótt Landsbankinn sé landsins eign og því illa viðeigandi að íþyngja honum með slíkri óþarfa kvöð. En orsökin til þessa er augljós. Hún er sú, að stjórn Íslandsbanka og stjórn landsins hefir oftast verið ein og hin sama. Það má segja, að Íslandsbanki hafi oftast lánað mann í ráðherrasessinn. Orsökin liggur líka í því ákvæði, sem potað var inn í reglugjörð bankans, að ráðherra skyldi vera launaður af bankanum og fá 1000 kr. fyrir að mæta einu sinni á ári á fundi. Þess vegna hefir ráðherra eðlilega átt örðugt með að setja sig upp á móti því, sem bankastjórnin hefir viljað. Og svo þegar þar við bætist vel launað starf í bankanum að ráðherramenskunni lokinni.

Að hér sé um bein sparisjóðsákvæði að ræða sést á sparisjóðsbók þeirri, sem eg gat um áðan, frá 18. júlí 1914. Þar stendur svo :

»Íslandabanki tekur við fé til ávaxta sem innláni, þó eigi minni fjárhæð í senn en 1 krónu.«

En um úttöku peninga úr bókunum stendur :

»Innlánseigandi má taka út úr innlánsviðskiftabókinni alt að 500 krónum á dag, án uppsagnarfrests«.

Hér er alveg sama ákvæði, sem tíðkast í öllum sparisjóðsbókum. Hér er ekki settur 3 eða 6 mánaða uppsagnarfrestur.

Samkepni Íslandsbanka við Landabankann má sjá ljóslega af því, að 1905 svarar Íslandsbanki ekki vöxtum af minni innstæðu en 5 kr., alveg eins og Landsbankinn gerði þá, en nú 1914, er hann búinn að færa lágmarkið niður í 1 kr. og greiðir af 1 kr. sömu vexti sem greiddir eru í sparisjóði Landabankana af 5 kr. og meira.

Þetta sýnir, að Íslandsbanki kostar kappa um að teygja til sín sparisjóðsfé, þó alla lagaheimild bresti.

Ennfremur leyfir bankinn að ávísa á sparisjóðabækurnar, án þess að merkt sé á þær með glöggu merki, að þær sé óveðhæfar. Í öðrum löndum er ætíð stimplað á bækurnar, að þær sé óveðhæfar. Af þessu hefir það leitt, og er mér kunnugt um það, að menn hafa tekið bækurnar að veði í góðri trú, en tapað á því, vegna þess að eigandi þeirra hefir haft tékka í vasa sínum og gefið þá út til bankans, sem svo hefir afgreitt þá. Þegar handhafi bókarinnar ætlaði svo að grípa til innstæðunnar, var veðsetjandinn búinn að eyða öllu fénu.

Eg hefi þá sýnt fram á það, að hættan stafar af sparisjóðsfénu, sem nú er orðið svo mikið, að það nemur meiru en hluta fé bankans, og einnig sýnt fram á það, að hættan er tvöföld í stað þess að þingið 1901 ætlaðist til að hún væri einföld.

Þá skal eg snúa mér að reglugjörð bankans.

Eins og eg gat lauslega um í ræðu minni í fyrrakvöld, þá gekk þingið 1901 vel frá öllum atriðum, sem bankann varða. Það var að eins eitt atriði, sem þingið fal stjórninni að setja nánari reglur um, sem sé eftirlitið með bankanum, kom það til af því, að þingið hafði ekki tíma og tæplega næga þekkingu til þess að ganga rækilega frá því atriði. Þetta atriði átti að felast í reglugjörð bankana, og hefði þar þá átt að standa að minsta kosti :

1. Undir hvaða fulltryggu eftirliti seðlarnir ætti að gerast og afhendast bankanum.

2. Hvernig fulltryggu eftirliti ætti að vera fyrirkomið um það, hvað mikið væri gefið út af seðlum í hvert skifti.

3. Fulltrygt eftirlit með því, hvað miklu af seðlum væri brent, og hvaða seðlar, og hvernig það ætti að gerast.

4. Fulltrygt eftirlit með því, hvort alt hluta féð væri í sannleika innborgað.

5. Hvernig sú trygging skyldi vera, sem standa átti sem trygging fyrir hinum ógulltrygða hluta seðlanna.

6. Hvernig fulltryggilegt eftirlit ætti að vera með gullforðanum.

Þessu, sem nú var talið, hefði mátt búast við í reglugjörðinni, en, þar er ekki vikið að einu þessara atriða með svo mikið sem einu orði. Fyrir bragðið geta seðlarnir verið til geymslu í öllum 4 hornum landsins, sem gera það að verkum, að stjórnin getur ekki litið eftir gullforðanum. Af þessu leiðir einnig það, að bankastjórnin gæti, ef hún vildi, sýnt, að svo og svo mikið fé væri í umferð af seðlum og að hún þyrfti svo og svo mikið fé — bankastjórnin gæti þá, segi eg, sent t. d. norður 2–300 þús. kr. til geymslu. Eg segi ekki að bankastjórnin geri það, en hún getur gert það, af því að eftirlitsskyldan er engin, samkvæmt reglugjörðinni. Þetta fer alveg eftir ráðvendni bankastjórnarinnar, og álít eg það, of veika tryggingu.

Í reglugjörð bankans er sagt, að fyrir þeim hluta seðlanna, sem eigi er trygður með gulli, skuli bankinn hafa »vissa og auðsælda eign til tryggingar.« Hvar er sú eign? Eg þori að fullyrða, að þegar vel trygðar eignir bankans, er nema sparisjóðsfénu yfir 3 miljónir, eru frá dregnar, þá hefir bankinn aldrei haft þessa »vissu og auðseldu eign« til tryggingar seðlunum.

Úr þessu ákvæði reglugerðarinnar er þó aftur dregið, þar sem svo er ákveðið, að tryggingin megi vera í »handveðslánum« og »víxlum«, kröfum á útlend verzlunarhús, er þegar skulu greiðast og í verðbréfum. En ekkert er í reglugerðinni minst á hvenær gjalddagi þessara handveða og víxla skuli vera. Annarsstaðar í bönkum er gert ráð fyrir 3 mánaða víxlum í lengsta lagi, en svo er ekki hér. Eg er talsvert kunnugur því, hvernig hagar til um víxla hér á landi, og get því fullyrt það, að víxlar þeir, sem bankinn á 31. des. ár hvert, greiðast fæstir innan 3 mánaða, því að sú 2¼ milj. kr., sem Íslandsbanki hefir átt í víxlum 31. des. 1913, eru flest framlengdarvíxlar. Þar með segi eg ekki að þeir víxlar borgist ekki, en þeir eru ekki handbært fé, sem gripið verður til þegar «panik« er. Slíkir víxlar mundu því alla eigi vera metnir sem gild trygging fyrir ógulltrygðum seðlum. Ef því gullforðinn nægir ekki, þá vantar í rauninni alveg þessa trygging, þegar tillit er tekið til þess, að sparisjóðseigendur fái sitt. Hér þekkjast ekki forretnings-víxlar eins og utanlands. Þessi handveðslán mætti ósköp vel tryggja með hlutum í bankanum sjálfum; ekkert ákvæði í reglugerðinni því til fyrirstöðu.

Eg hefi bent á þetta til þess að menn sjái, að hér þarf eitthvað að vera á undan gengið, áður en seðlaútgáfuréttur bankans er aukinn.

Hvað er nú það, sem veldur því, að útlendu bankarnir, sem tekið hafa Íslandsbanka að sér og mikið hafa af hana viðskiftum, hafa ekki getað aukið veltufé Íslandabanka, þrátt fyrir það að leyft var að auka það 1907, og 1908 ákveðið að það skyldi sakast?

Það hefir verið bent á, að dýrtíð væri á peningamarkaðinum; það er rétt, svo var það og svo er það nú, en ekki var slík dýrtíð á peningum árið sem leið.

En þrátt fyrir þetta hefir ekki tekist að afla Íslandabanka trausts í útlöndum, jafnvel þótt fyrir hafi legið heilbrigðisvottorð endurskoðanda bankans árlega, sem svo mikið gys hefir verið gert að í dönskum blöðum.

Bankarnir erlendis vilja ekki leggja fram veltuféð, en til er ætlast, að alþýðan á Íslandi, ekki betur en hún er sett, leggi fram ímynd veltufjár, en sem ekkert veltufé er, í auknu lánatrausti til bankans, auknum seðlaútgáfurétti.

Reikningar bankans eru mjög óljósir. Einkannlega er einn liður mjög eftirtektarverður, það er liðurinn: »Ýmsir skuldunautar«, semur 2,580,818 kr. í árslok 1913. Í landsbankanum nemur þessi liður 1909: 17 þús. kr., 1910: 5 þús. kr., 1911: 3 þús. kr. og 1912: 16½ þús. kr. Þessi liður í reikningi Íslandsbanka er því afakaplega hár samanborið við Landsbankann og eins í samanburði við sama lið í útlendum bankareikningum, eins og sjá má af reikningum, sem eg hefi hér við hendina nú. Þessi liður er sem sé alstaðar hafður sem nokkurskonar ruslakista hvers banka, og eru þar í látnar upphæðir, sem ekki standa á skuldabréfum, t d. afsagnargjald, ábyrgðargjald o. fl. þess háttar, sem óafgert er, þegar reikningarnir eru gerðir, millifærsluliðir milli reikninga útbúanna o. s. frv.

En hvernig stendur þá á því, að þessi liður er svo gríðarlega hár? Bankastjórn Íslandsbanka hefir gert þá grein fyrir því, að þetta væri innieign bankans í bönkum erlendis.

En hvers vegna er þá ekki innieignin tilfærð í sérstökum lið, úr því að skuldir bankans við erlenda banka eru í sérstökum lið ?

Og hvernig stendur á því, að prívatbanki, sem hefir seðlaútgáfurétt, gefur ekki út gleggri reikninga en þetta, sem á að standa undir almennu eftirliti?

Af reikningnum sést ekki annað en að bankinn aðeins skuldi erlendum bönkum, en innieignin falin undir röngum lið.

Eg get sagt, hvernig á því stendur. Svo er mál með vexti, að í fyrra var allóþyrmilega ráðist á Landsbankann í blaðinu »Lögréttu« fyrir það. að hann um nýárið átti inni hjá erlendum bönkum. Því var það til ráðs fundið, til þess eigi væri hægt að draga úr árásinni á Landsbankann um þetta efni, að leyna því, að Íslandsbanki ætti inni erlendis miklu stærri upphæð. Og þetta var ráðið: að fela innieignina í þessum lið. Hvað ætli t. d. þýzka stjórnin hefði sagt um aðra eins reikningsfærslu hjá banka, sem naut seðlaútgáfuréttar?

Í Ed. sagði einn háttv. konungkjörinn þingmaður um daginn, að Íslendingar ætti nú orðið 700,000 kr. hlutafé í bankanum. Það skyldi gleðja mig ef svo væri í raun og veru. En eg stórefast um það, að þetta fé sé borgað nema að litlu leyti hitt hafi bankinn lánað þeim. Um þetta gæti bankastj. gefið skýrslu, svo að það kæmi greinilega í ljós, hvort Íslandsbanki lánar út sín eigin hlutabréf.

Nú á eg eftir að sýna fram á það, hvernig stendur á því, að bankinn eða stjórnin hefir lagt þetta mál svona alveg röksemdalaust fyrir þingið. Bankinn biður sem sé eingöngu um þenna aukna rétt, en annað er ekki sagt um frumvarpið. Engin rök færð fyrir því að þessa þurfi, og hefði þó sannarlega ekki verið vanþörf á að færa þau rök, og það jafnvel fyrir mjög brýnni þörf. Eg verð þess vegna að halda því fram, að þörfin geti ekki hafa verið brýn af venjulegum orsökum. Bankann vantaði ekki gjaldmiðil. Ef svo hefði verið hefði hann getað útvegað sér hann ytra, eins og Landsbankinn verður að gera á hverju ári. Hann á nógan gjaldmiðil liggjandi erlendis, 1,400,000 kr., eftir því sem hann segir sjálfur frá. Hvers vegna notar hann ekki þennan gjaldmiðil? Nei, orsökin er sú, að Íslandsbanki vill hafa. nógu vítt svið, nógu mikla seðlaútgáfu, ef uppþot yrði hjá sparifjáreigendum.

Þetta er fyrsta ástæðan, þótt hún geti verið tvíeggjað sverð ef traustið bilar. Hún getur orðið ekkert annað en svikamylla ef traustið til seðlanna bilar um leið.

Í öðru lagi er það ekki úr vegi, þegar hlutir bankans standa svo lágt erlendis, að geta þá flaggað með því þar, að þingið hafi þó það traust á bankanum, að það þori að auka seðlaútgáfurétt hans skilyrðislaust. Hitt er annað mál, hvernig fjármálamenn þar kynni að lita á það, ef þeir kæmist að því, að þingið gerði þetta einmitt í því skyni að hjálpa áliti bankans ytra, án þess að aðrar ástæður væri til þess. Það mætti líta svo á þetta, að þingið gerði þetta til að gabba útlenda fjármálamenn, og það mundi þó ekki auka traust landsins, sem eigi má við því að minka.

Það er kyndugt, að enginn maður í háttv. Nd. skuli hafa minst á það, að Landsbankinn þurfi aukið fé til þess að uppfylla viðskiftaþörfina. Þeim verður ekki að vegi að segja um leið: Vér skulum auka seðlafúlgu Landsbankans, svo að hann geti líka hjálpað til að greiða úr viðskiftaþörfinni. Nei, því er bara haldið fram, að Íslandsbanki hafi einkarétt til seðlaútgáfu í 20 ár enn. Þess er ekki gætt, að einmitt nú höfðum vér það í höndum vorum að fá gerða undantekningu frá þessu. Ef Íslandsbanki legði nokkuð upp úr því að fá þennan aukna seðlaútgáfurétt, þá hefði ekki verið annað en að setja honum það sjálfsagða skilyrði, að Landsbankinn fengi líka leyfi til að gefa út eina miljón í seðlum. En auðvitað vill Landsbankinn sjálfur ekki fara fram á það. Honum er ekki svo ant um það, að landið sé gullmyntarlaust.

Nú vona eg, að háttv. deild hafi fengið nokkru nánari skýringu á því, hvers vegna minni hlutinn hefir lagt það til, að Íslb. verði ekki veittur þessi réttur að þessu sinni, og að háttv. þm. þurfi ekki að greiða atkvæði með frumv. af því, að málið sé ekki nógsamlega upplýst til bráðabirgðar. Það er upplýst, og hvað sem sagt verður stend eg við hvert orð, sem eg hefi hér sagt, og ekkert af því verður hrakið með rökum. Minni hlutinn hefir líka sýnt, hvað þarf að gera áður en þetta er veitt, því að sjálfsögðu verður beðið um það þegar á næsta þingi aftur. — Minni hlutinn vill gera bankann sem bezt úr garði til þess að hann sé verðugur til að njóta þess trausts, sem til þessa þarf. Það er hollast bæði honum og þjóðinni. Þess vegna er það hið eina skynsamlega að bíða, og gera við því sem að er á fyrirkomulagi bankana, ef menn vilja auka seðlaútgáfurétt hans, sem eg tel óráðlegt. Þetta er eina rétta leiðin, því að nú sem stendur er þörfin ekki brýn heldur, og vér getum aldrei bjargað oss út úr neinum vandræðum með verðlausum og ónýtum seðlum.

Eg vona svo, að háttv. deild afsaki það, að eg hafi orðið að beita mér nokkuð meira en venja mín er til. En það var nauðsynin, sem knúði mig til þess.