08.08.1914
Neðri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

113. mál, kosningar til Alþingis

Sveinn Björnsson :

Eg saknaði þess án undantekningar hjá öllum þeim sem talað hafa um 7. gr., og þar á meðal hjá háttv. framsögum. meiri hl. (E. A.), að þeir hafa ekki sagt eitt einasta orð til andmæla gegn minni aðalástæðu: að alþingi, sem samþykti að setja í stjórnarskrána ákvæði um jafnrétti til kosninga, skuli geta látið hjá líða að leiðrétta það misrétti, sem nú á sér stað í kjördæmaskiftingunni.

Háttv. framsögm. meiri hl. (E. A.) hélt því fram, að það hefði verið kjósendaræða, sem eg var að halda áðan. En aðalinntak ræðu hans var það, að kjósendur, og þá sérstaklega kjósendur í Árnessýslu, vildu ekki þessa breytingu. Nú kinka þeir saman kolli 1. og 2. þm. Árn. og svo leyfa þeir sér að brigsla mér um, að eg haldi mestar kjósendaræður. Eg hélt því fram, að af þessari ósk þjóðarinnar um að fá jafnrétti til kosninga til alþingis, hlyti að leiða, að það væri vilji þjóðarinnar að þetta jafnrétti ætti að komast á að fullu. Getur háttv. framsögum. meiri hl. haldið því fram, samkvæmt því »principi«, sem hér á að komast að, að maður austur á landi eigi að hafa sjö sinnum meiri rétt heldur en Reykvíkingur ?

Þá sagði háttv. framsögum. meiri hl. (E. A.), að það væri eðlilegt, að þjóðin væri ánægð með þá kjördæmaskipun, sem nú er, því að hún væri réttlát.

Það er ekki óeðlilegt, þótt þessi kjördæmaskipun hafi verið réttlát í fyrstu, þegar hún var sett, að hún sé orðin ranglát nú, þar sem hún er 40 ára gömul. Síðan hafa verið miklir flutningar innanlands. Fólkið hefir fluzt til kaupstaðanna, og þess vegna er þessi bændamótstaða á móti nýrri kjördæmaskiftingu. Eða vilja menn ekki játa, að ástæðan sé einhver dulinn ótti fyrir því, að Reykjavík og kaupstaðirnir verði ofjarlar sveitanna?

Sú skoðun hefir komið fram hjá fleiri háttv. þm., að það sé nauðsynlegt hagsmunanna vegna, að sveitirnar hafi fleiri þingmenn en kaupstaðirnir. Það er eins og menn líti svo á, að hver einstakur þingmaður sé fulltrúi sinnar sýslu, og eigi að reyna að skara till hennar sem mestu úr landssjóðnum. (Einar Jónsson : Hvað gerir Reykjavík?) Það er ekki hægt að núa Reykjavík því um nasir, að hún hafi verið of stórtæk á landssjóðinn. Hið eina, sem hægt er að benda á, að hún hafi fengið úr landssjóði á síðastliðnum 20 árum, er styrkurinn til hafnarinnar, sem allir viðurkenna, að sé eins mikið fyrir landið eins og fyrir Reykjavík. Eg vil mótmæla því, að hver þingmaður sé til þess að ná sem mestu fyrir sitt kjördæmi. Hver einstakur þingmaður á að vera fyrir alt landið, kosinn til þess að vera með í lagasmíðum, sem snerta heill alls landsins, án tillits til þess hvar hann býr. Og hann getur verið eina góður til þess, hvort sem hann býr í þessari sýslunni eða hinni, og hvort sem Pétur eða Páll hefir kosið hann.

Háttv. framsögum. meiri hl. (E. A.) sagði, að það væri ekki nóg að taka kortið og skifta landinu niður í kjördæmi eftir því, sem manni dytti í hug, heldur liggi meiri nákvæmni á bak við. En eg vil spyrja háttv. þm.: Eftir hverju á þá að skifta landinu niður í kjördæmi ? Á ekki að skifta með hlið sjón af kortinu ? Eða ætlar hann að ganga fyrir kjósendur og spyrja: »Hvort vilt þú vera í þessu kjördæmi eða þessu ?« Eg held varla.

Þá sagði háttv. frams.m. ennfremur, að það hefði verið skylda mín að koma fram með breyt.till. við 7. gr. við 2. umr. Í fyrsta lagi vissi eg ekki, að nefndin ætlaði að taka svo djúpt í árinni, að fella greinina alveg burt. Eg vissi reyndar, að það var ágreiningur í nefndinni, en mig grunaði ekki að hún ætlaði að fella 7. gr. alveg burt. Í öðru lagi skal eg geta þessa, að það leið ekki fullur dagur á milli 1. og 2. umr., svo að það er ekki hægt að lá einum þingmanni, þótt hann hafi ekki getað komið fram með breyt.till. á svo stuttum tíma, þegar nefndin öll gat ekki athugað frumv. sæmilega á 5 vikum. Mér þykir það ærið hart af frams.m. nefndarinnar, sem hefir legið á frumv. í 5 vikur, að koma fram og segja, að nú megi ekki koma fram með breyt.till., því að þá þyrfti að framlengja þingið.

Eg veit, að menn álíta, að hér sé um að ræða kappsmál af hendi Reykvíkinga. Eg er hissa á því að sjá skynsama menn standa hér upp og heyra þá halda þessu fram, en kannast þó við, að það sé sérstaklega Reykjavík, sem þetta misrétti kemur fram við. (Sig. Sigurðsson: Það eru 12 búsettir Reykvíkingar hér í deildinni). Eg býst við að þeir sé jafngóðir fulltrúar fyrir sín kjördæmi fyrir því. Háttv. 1. þm. Árn. (S S.) er Reykvíkingur, og eg hefi ekki orðið var við, að hann hafi gleymt Flóanum.

Það verður með engu móti komist fram hjá því, að jafnrétti til kosninga næst ekki fyrr en kjósendum er skift þannig niður í kjördæmin, að hér um bil jafnmargir kjósendur kjósi hvern þingmann.